Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Sjálfsskaði og sjálfsvíg

Sjálfsskaði og sjálfsvígshugsanir

Í daglegu tali er það kallað sjálfsskaði þegar einstaklingur meiðir eða skaðar líkama sinn viljandi án þess að ætla sér að deyja. Algengast er að fólk skeri sig eða rispi sig í húðina þegar það skaðar sig, en ýmis hegðun getur flokkast undir sjálfsskaða. Ástæður sjálfsskaða geta verið ýmsar og þær eru einstaklingsbundnar. Alls ekki allir sem stunda sjálfsskaða hafa hugsanir um að vilja deyja. Oft byrjar fólk að skaða sig til að reyna að ná stjórn á erfiðum tilfinningum eða til að létta á uppsöfnuðu álagi. Sjálfsskaði getur þannig veitt tímabundinn létti til að byrja með en fljótlega finnur fólk fyrir aukinni vanlíðan. Sjálfsskaðanum fylgir líka oft skömm eða sektarkennd sem veldur frekari vanlíðan. Aukin vanlíðan eykur líkur á að fólk skaði sig aftur og þannig viðhelst vítahringur sjálfsskaða. Um 10% ungmenna á heimsvísu hefur einhverntímann skaðað sig.

Sjálfsskaði þar sem ásetningur um að deyja er til staðar er í daglegu tali kallað sjálfsvígstilraun. Viðkomandi veldur sér einhversskonar skaða í þeim tilgangi að reyna að deyja. Fólk sem gerir sjálfsvígstilraun hefur oft verið með hugsanir um að vilja deyja áður, en þó ekki allir. Hugsanir um að vilja deyja eru tvenns konar. Annars vegar dauðahugsanir, sem eru hugsanir um að vilja ekki vera til lengur, en ekki beint hugsanir eða vilji til að valda eigin dauða. Sjálfvígshugsanir eru hugsanir um að vilja valda eigin dauða með einhverjum hætti. Bæði dauða- og sjálfsvígshugsanir geta verið einkenni þunglyndis, en ekki allir sem upplifa slíkar hugsanir eru með þunglyndi og það fá ekki allir sem eru að glíma við þunglyndi dauða- eða sjálfsvígshugsanir. Dauða- og sjálfsvígshugsanir eru algengari en margir halda, en um þriðjungur stúlkna og fjórðungur stráka á Íslandi 2016 höfðu einhverntímann hugleitt sjálfsvíg. Það er mikilvægt að vita að það er hægt að fá viðeigandi aðstoð þegar slíkar hugsanir koma upp.