Geðfræðsla

Geðheilbrigði skiptir alla máli og er nauðsynlegt til að fólk geti notið sín sem best. Góð geðheilsa felur ekki í sér stanslausa hamingju og gleði heldur snýr hún að því að ná jafnvægi á geði. Góð geðheilsa snýst um að geta gengið í gegnum depurð og erfiðleika, geta höndlað daglegt líf og líða að jafnaði vel. Það er mikilvægt að hlúa að eigin geðheilsu, læra á sjálfa/n/t sig og þekkja hvað lætur manni líða vel eða illa.

Hugrún hvetur til opinnar umræðu um andlega líðan en hún stuðlar að aukinni meðvitund um geðheilbrigði. Það er mikilvægt að tala opinskátt um eigin tilfinningar, vanlíðan og hvers kyns geðræn vandamál.

Jafnvel þó einstaklingur búi sjálfur við ágætis geðheilsu er mikilvægt að setja það fordæmi að það sé eðlilegt að tala um þessa hluti við fólkið í kringum sig. Það getur auðveldað öðrum að ræða vandamál og leita sér aðstoðar.

Geðræn vandamál eru mjög algeng en rannsóknir hafa sýnt að algengi geðraskana yfir ævina hjá fólki á höfuðborgarsvæðinu er í kringum 50%. Það er því mikilvægt fyrir alla að vera meðvitaðir um einkenni þeirra og vita af þeim úrræðum sem standa til boða.

Á þessari síðu er að finna lýsingar á einkennum fjölmargra geðsjúkdóma og geðraskana. Það er eðlilegt að tengja við einhver þessara einkenna og þarf það ekki að þýða að um sjúkdóm eða röskun sé að ræða. Ef einkenni eiga vel við þig er þó mikilvægt að hunsa þau ekki heldur leita sér aðstoðar, upplýsingar um úrræði má finna hér.

Þá er líka mikilvægt að vera meðvitaður um einkenni hjá fólkinu í kringum sig. Upplýsingar um hvað er hægt að gera ef þú telur að einhver sem þú þekkir eigi við vanda að stríða er einnig að finna hér.