Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Kvíði

Kvíði; tilfinning og röskun.

Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann, það er enginn algjörlega ókvíðinn. Oft verður fólk kvíðið fyrir mikilvægan atburð eins og lokapróf, úrslitaleik í íþrótt, frumsýningu á leikriti eða fyrsta stefnumótið. Kvíði er tilfinning sem við finnum flest í tengslum við hluti sem skipta okkur máli og hann getur verið mjög gagnlegur; fengið fólk til að leggja sig betur fram, vanda sig meira eða bætt einbeitingu. Kvíði gagnast okkur líka í hættulegum aðstæðum, það er kvíði sem hjálpar fólki að hlaupa undan grjóti eða forða sér frá bílum sem nálgast.

Við höfum öll innbyggt kvíðaviðbragð sem hefur þróast með mannkyninu og hjálpað okkur að komast af. Kvíðaviðbragðið kemur fram með ýmsum einkennum, bæði tilfinningalegum og líkamlegum. Algeng líkamleg einkenni eru til dæmis hraðari hjartsláttur, grynnri andardráttur, aukinn sviti og ógleði. Kvíðaviðbragðið hefur líka áhrif á hugsanirnar okkar og þegar við upplifum einkenni kvíða einkennast hugsanir oft af miklum áhyggjum, pirringi og erfiðleikum við að halda einbeitingu.

Þó að kvíði sé fyrst og fremst eðlileg tilfinning og geti verið mjög gagnlegur þá getur hann líka verið vandamál. Þegar kvíði er of mikill, kemur oft upp eða kemur fram í óviðeigandi aðstæðum þá er hann hættur að gagnast okkur. Kvíði getur orðið svo mikill að hann heldur aftur af fólki, kemur í veg fyrir að það geri hluti sem það vill gera eða veldur því að fólki líður verulega illa í aðstæðum sem valda kvíðanum. Þegar kvíði er farinn að hafa veruleg áhrif á okkar daglega líf getur verið að um kvíðaröskun sé að ræða. Einfalt dæmi um muninn á kvíða sem eðlilegri og jafnvel gagnlegri tilfinningu og svo kvíða í kvíðaröskun væri annars vegar kvíði fyrir lokapróf sem veldur því að einstaklingur leggur hart að sér, nær betri einbeitingu og lærir vel fyrir prófið en hins vegar kvíði fyrir lokapróf sem verður svo mikill að einstaklingur nær ekkert að læra eða einbeita sér og ákveður að lokum að sleppa prófinu.

Það er hægt að hugsa um kvíðaviðbragðið eins og reykskynjara. Reykskynjari er mjög gagnlegur og getur bjargað lífi okkar þegar það kviknar í og hann fer í gang (líkt og kvíðaviðbragð sem fer í gang við raunverulega hættu). Ef reykskynjarinn fer í gang í sífellu og við minnsta tilefni, til dæmis þegar við kveikjum á kertum eða poppum þá er hann ekki lengur gagnlegur (líkt og kvíðaviðbragð sem fer í gang í óviðeigandi aðstæðum eða í of miklu magni). Þegar reykskynjari hegðar sér með þessum hætti er kominn tími á að skipta um batterí eða laga hann. Það sama á við um kvíðaviðbragðið. Ef fólk finnur fyrir miklum kvíða, finnur mjög oft fyrir kvíða eða ef kvíði heldur aftur af því með einhverjum hætti þá ætti það að leita sér aðstoðar fagaðila.

Markmiðið með kvíðameðferð er þannig ekki að losna algjörlega við kvíða heldur viljum við að hann þjóni tilgangi sínum sem þessi eðlilega og gagnlega tilfinning. Markmiðið er að draga úr honum þegar hann gagnast okkur ekki og læra að takast á við hann.

Kvíði sem röskun

Ef kvíði er farinn að hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks, til dæmis ef fólk sleppir því að gera hluti sem það vill gera vegna kvíða, er hugsanlegt að um kvíðaröskun sé að ræða. Kvíðaröskun er í raun önnur leið til að segja að kvíðinn sé orðinn það mikill og hamlandi að einstaklingur þurfi á aðstoð að halda til að takast á við hann. Til eru margar gerðir kvíðaröskunar og eiga þær það sameiginlegt að einstaklingar upplifa kvíða sem heldur aftur af þeim í einhverjum aðstæðum. Kvíði getur líka komið fram með kvíðaköstum, þegar mörg líkamleg kvíðaeinkenni koma fram á sama tíma. Stór hluti fólks fær kvíðakast einhvern tíma á ævinni. Það er mikilvægt að þekkja einkenni kvíðaraskana og kvíðakasta til að geta greint á milli kvíða sem eðlilegrar tilfinningar og kvíða sem vandamáls eða kvíðaröskunar. Á þessari síðu má finna upplýsingar um nokkrar algengar kvíðaraskanir; almenna kvíðaröskun, félagsfælni og afmarkaða fælni auk upplýsinga um kvíðaköst. Víða á netinu má finna ítarlegri upplýsingar um kvíða, til dæmis á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar: www.kms.is.

Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við kvíða bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð