Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu
Um félagið

Hugrún, geðfræðslufélag var stofnað vorið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. Í dag taka fjölmargir nemendur úr Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri einnig þátt í starfsemi félagsins. Félagið hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði, sem og að auka samfélagslega vitund.

Stærsta verkefni Hugrúnar ár hvert er að ferðast um landið og halda geðfræðslufyrirlestra í framhaldsskólum, endurgjaldslaust.

Auk þess hefur félagið staðið fyrir árlegum fræðslukvöldum í Háskóla Íslands, greinaskriftaátaki í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins, fræðslu og kynningum í félagsmiðstöðvum og fyrir foreldra- og nemendafélög. Árið 2018 gaf Hugrún út veftímarit samhliða herferðinni Huguð sem ætlað er að stuðla að opinni umræðu um geðraskanir og er aðgengilegt í gegnum heimasíðuna. Þá reynir Hugrún að ná til ungmenna með ýmsum hætti og heldur úti instagram síðunni @gedfraedsla þar sem félagið birtir góð ráð fyrir bætta geðheilsu.

Á hverju ári býðst háskólanemendum tækifæri á að starfa sem fræðarar fyrir hönd Hugrúnar. Þeir þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði og ljúka þjálfun áður en þeir mega halda geðfræðslufyrirlestra. Fræðarar Hugrúnar eru í sjálfboðavinnu og ferðast um land allt í framhaldsskóla til að fræða ungmenni um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði sem standa til boða.

Starfsemi félagsins er haldið uppi af áhugasömum háskólanemendum sem brenna fyrir því að bæta vitneskju um geðheilbrigði, útrýma fordómum og styrkja ungmenni. Félagið er rekið á styrkjum, frjálsum framlögum og fjáröflunum, allur ágóði rennur í fræðslu ungmenna um geðheilbrigði.

Vefsíðan var opnuð haustið 2016 og er í stöðugri uppfærslu. Markmið hennar er að gera fræðsluefni um geðheilbrigði og geðraskanir aðgengilegt, á mannamáli.

„Meðlimir Hugrúnar eiga það sameiginlegt að vera mjög annt um að upplýsa ungt fólk um mikilvægi geðheilbrigðis“

BÓKA FYRIRLESTUR

Einfalt er að bóka fyrirlestur um geðheilbrigði og geðraskanir frá fyrirlesurum Hugrúnar. Senda þarf tölvupóst á hugrunhugur@gmail.com eða hafa samband á Facebook síðu Hugrúnar.

Hugrún veitir fræðslu fyrir ungmenni og er fyrirlesturinn gerður fyrir fyrsta árs nema í framhaldsskólum. Þá höfum við einnig tekið að okkur fræðslur í félagsmiðstöðvum. Fræðslan fjallar um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði. Ef það eru sérstakar óskir, vinsamlegast takið það fram.

Allir sem koma að starfsemi Hugrúnar eru í sjálfboðavinnu og fræðslan er ókeypis.

Stjórn félagsins

Hafa samband