Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Sjálfsmat

Hvað er sjálfsmat?

Sjálfsmat er í stuttu máli sú skoðun sem við höfum á okkur sjálfum. Skoðanir eru í raun hugsanir okkar um okkur sjálf, hugsanir um á hvaða sviðum við stöndum okkur vel í samanburði við aðra og á hvaða sviðum við teljum okkur ekki standa jafn vel að vígi. Þessar skoðanir geta átt við innri og ytri eiginleika. Innri eiginleikar væru til að mynda greind, ýmis konar kunnátta, hæfileiki okkar til að takast á við og leysa verkefni, færni okkar í samböndum við annað fólk sem og mannkostir svo sem góðvild, hjálpsemi, leiðtoga- og félagsfærni. Ytri eiginleikar eru þá útlitseinkenni svo sem fegurð, hæð og holdafar. Einnig mætti bæta við atriðum svo sem hvers konar föt, síma eða tölvu við eigum eða við hvers konar aðstæður við búum (húsnæði, fjölskyldubíll og aðrar lífs aðstæður).

Hvað er lágt sjálfsmat?

Lágt sjálfsmat er því að hafa almennt neikvæða skoðun á okkur sjálfum. Það er mjög persónubundið hvernig fólk lýsir lágu sjálfsmati og það er vitanlega misjafnt hvaða eiginleikar skipta fólk máli og hafa fengið skilaboð um að skipti máli. Sumir eru uppteknari af innri eiginleikum, aðrir af þeim ytri. Oft er um að ræða sambland af báðu. Lágt sjálfsmat einkennist því af dómhörku gagnvart sjálfum okkur. Fólk með lágt sjálfsmat dæmir sig mjög hart og það getur valdið mikilli vanlíðan, þunglyndi og kvíða. Dómarnir eru í raun skoðanir okkar á okkur sjálfum og eru oftast nær ekki byggðir á staðreyndum. Innan fræðanna eru þessar skoðanir gjarnan kallaðar kjarnahugsanir. Ef kjarnahugsanir okkar eru mjög neikvæðar þá fara þær að hafa víðtæk áhrif á líf okkar og hegðun, hvort sem er í skóla, vinnu eða í félagslegum samskiptum almennt.

Afleiðingar lágs sjálfsmats geta verið ýmis konar. Lág sjálfsmat getur leitt til áhættuhegðunar. Fólk á að hættu að reyna að ganga í augun á öðrum til leitar samþykkis með því svo sem að drekka áfengi, reykja/veipa, prófa fíkniefni eða brjóta af sér svo sem að stela/brjóta rúður. Fólk á að hættu að setja sér ekki viðeigandi mörk og segja ekki nei þó það langi ekki, t.d. í kynlífi. Eins getur lágt sjálfsmat minnkað stórlega líkur á að við látum okkar rétta ljós skína því við höfum talið okkur trú um að við þurfum að breyta okkur svo öðrum líki vel við okkur.

Lágt sjálfsmat getur leitt til geðræns vanda og öfugt. Þá ber sérstaklega að nefna margs kona kvíðaraskanir (félagskvíði, náms-/prófkvíði, almenn kvíðaröskun), þynglyndi og átraskanir (anorexia, búlemía, átkastaröskun, orthorexia, ofþjálfun). Lágt sjálfsmat getur haft víðtæk áhrif á framtíðina þar sem við getum látið skoðanir okkar en ekki staðreyndir ráða kasti í ákvarðanatöku. Slíkt getur haft áhrif á hvaða nám og störf við tökum okkur fyrir hendur auk þess hefur það áhrif á mörkin sem við setjum í samskiptum við annað fólk (við maka, samstarfsfólk, foreldrar, vini o.s.frv.).