Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Þráhyggju-árátturöskun (OCD)

Þráhyggju-árátturöskun (Obsessive compulsive disorder, OCD) er geðröskun þar sem fólk fær endurteknar þráhugsanir sem vekja upp óþægilegar tilfinningar eins og kvíða, ótta, samviskubit eða ógeðstilfinningu sem fólk síðan bregst við með því að framkvæma áráttuhegðun. Vandinn einkennist af því að einstaklingurinn festist í þessum vítahring þráhugsana og áráttuhegðunar sem smám saman geta farið að taka meiri tíma og orku. Þannig getur OCD stigmagnast og tekið yfir lífið ef ekkert er að gert.

Þegar fólk hugsar um þráhyggju-árátturöskun þá hugsa flestir um ótta við sýkla og smit þar sem fólk þvær sér ítrekað um hendur eða ótta við að valda skaða þar sem fólk athugar endurtekið læsingar og innstungur. En þráhyggju-árátturöskun getur snúist um hvað sem er. Til dæmis hvort maður sé góð manneskja („hvað ef ég særði vinkonu mína þegar ég sagði þetta“) eða efasemdir um tilfinningar manns til annarrar manneskju eða gæði sambandsins („hvað ef ég er ekki nógu ástfangin“ eða „hvað ef hún er ekki nógu hrifin af mér“).Þráhyggja getur líka tengst efasemdum um kynhneigð eða kynupplifun og efasemdum um það hvort maður sé í raun og veru til eða hvað muni gerast eftir dauðann. Einnig er þráhyggja tengd ótta við að valda öðru fólki skaða algeng, sem og ítrekaðar óvelkomnar þráhugsanir um sifjaspell, barnaníð og kynferðisofbeldi.

Algengast er að þeir sem greinast með þráhyggju-árátturöskun séu með margar mismunandi birtingarmyndir og þemu í þráhugsunum. Einnig er algengt að birtingarmyndin breytist með tímanum.

Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við þráhyggju-árátturöskun bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð

Hvernig lýsir OCD sér?

Þráhugsanir geta verið ýmist yrtar hugsanir (t.d. „þetta gæti verið mengað“ eða „hvað ef ég er barnaníðingur“), ímynd (t.d. að sjá sjálfan sig fyrir sér stinga ástvin með hníf eða sjá fyrir sér ofbeldisfullar senur í huganum) eða hvöt (t.d. hvöt til að rétta af skakka mynd á vegg eða hvöt til að koma við eitthvað). Fólk upplifir þráhugsanir sem óvelkomnar og uppáþrengjandi og vill ekki fá þessar hugsanir. Þessar hugsanir snúast oft um það sem fólki stendur nærri og finnst skelfileg tilhugsun, sem gerir það að verkum að fólk verður hrætt við þessar hugsanir. Algengt dæmi um þetta er þegar nýbakað foreldri fær þráhugsanir um að skaða barnið sitt.

Þráhugsanir vekja alltaf upp einhverja óþægilega tilfinningu eins og kvíða, ótta, ógeðstilfinningu eða samviskubit. Stundum er tilfinningin óræðari og er þá best lýst sem óróleika eða „eitthvað er ekki eins og það á að vera“ tilfinningin.

Áráttuhegðun þjónar þeim tilgangi að losna við þráhugsanirnar og óþægindin sem þær vekja og í sumum tilvikum til að koma í veg fyrir að eitthvað slæmt gerist. Áráttuhegðun getur verið sjáanleg hegðun eins og til dæmis verið að þvo sér um hendur eftir að hafa komið við hurðarhún eða tékka á útidyrahurð til að vera viss um að hún sé læst. Áráttuhegðun getur líka verið ósýnileg hegðun sem fer fram í huganum eins og til dæmis að fara ítrekað yfir í huganum hvað maður sagði við vinkonu sína til að vera viss um að maður hafi ekki sagt eitthvað særandi eða fara með einhvers konar bæn, möntru eða hughreystingu („ekkert slæmt mun gerast“ eða „ég er búin að tékka, þetta er í lagi“). Oft finnst fólki það þurfa að framkvæma áráttuhegðunina á fastmótaðan hátt, gera hluti í ákveðinni röð eða gera ákveðið oft áður en það getur hætt.

Vítahringur þráhyggju-árátturöskunar lýsir sér þannig að eitthvað kveikir á þráhugsun, til dæmis að sjá hníf, þá kemur upp þráhugsun „hvað ef ég sting manninn minn“ sem vekur upp ótta. Þá bregst viðkomandi við með áráttuhegðun, eins og til dæmis að fjarlægja hnífinn eða hughreysta sig í huganum („nei, ég myndi aldrei gera það, ég elska manninn minn“). Við þetta upplifir viðkomandi létti, en aðeins tímabundið. Innan skamms kemur upp önnur þráhugsun („Hvað ef kjúklingurinn er sýktur af salmonellu“) og þá kemur upp ógeðstilfinning og þörf til að framkvæma áráttuhegðun.

Þegar þráhyggju-árátturöskun er orðin alvarleg taka þráhugsanir og áráttuhegðun upp mikinn tíma og stundum allan daginn. Þegar einkenni eru vægari eru þráhugsanir og áráttuhegðunin stundum aðstæðubundnari og taka minni tíma.

Þrátt fyrir að margir kannist kannski við að vilja þvo sér um hendur eftir að hafa komið við eitthvað eða tékkað nokkrum sinnum á læsingum eða jafnvel fengið eitthvað á heilann í smá tíma, þá er stór munur á því og að vera með þráhyggjuárátturöskun. Sá sem er með þráhyggju-áráttuhugsun finnst óþægilegt að fá þráhugsanirnar og þrátt fyrir að viðkomandi upplifi létti eftir að hafa framkvæmt áráttuhegðun þá líður þeim ekki vel. Þannig er sá sem finnst gaman að hafa hreint hjá sér og upplifir ánægju eftir að hafa þrifið íbúðina sína ekki með þráhyggjuárátturöskun. Fólk sem er með þráhyggju-árátturöskun upplifir ekki ánægju eftir að hafa framkvæmt áráttur, þeim líður aldrei eins og þau séu búin.

HVERT SKAL LEITA?

OCD teymi Kvíðameðferðarstöðvarinnar

Á Kvíðameðferðarstöðinni (KMS) starfar teymi sálfræðinga sem hafa fengið þjálfun í hugrænni atferlismeðferð/berskjöldunarmeðferð (Exposure and response prevention) við þráhyggju-árátturöskun. Þeir sinna bæði einstaklingsmeðferð og lotumeðferð (Bergenska 4 daga meðferðin).

Bergenska fjögurra daga meðferðin

Á KMS er boðið upp á Bergensku fjögurra daga meðferðina sem er lotumeðferð sem fer fram á fjórum dögum. Þetta er ný meðferðarnálgun sem byggir á þaulreyndum og gagnreyndum aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar/berskjöldunarmeðferðar við þráhyggju-árátturöskun. Í þessari meðferð læra þátttakendur aðferðir og tækni til að takast á við vandann ásamt því að fá góðan stuðning meðan þau æfa sig í að gera berskjöldunaræfingar. Í hverjum meðferðarhópi eru sex manns með OCD sem njóta aðstoðar sex sérþjálfaðra sálfræðinga. Þetta er því í raun einstaklingsmeðferð sem fer fram í hópumhverfi. Þátttakendum er fylgt eftir með símaviðtölum og eftirfylgdarviðtali í ár eftir meðferð.

Heilsugæslan: Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

Bráðamóttaka geðsviðs: Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi.

Á einkastofur sálfræðinga. Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands sal.is er leitarvél sem nota má til að finna sálfræðinga út frá staðsetningu, tungumáli, sérhæfingu og fleiri þáttum.

Á einkastofur geðlækna. Fjöldi geðlækna veita lyfja- og samtalsmeðferð á einkastofum sínum.

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.

Texti skrifaður af: Ólafíu Sigurjónsdóttur, Ph.d Sálfræðingur, Teymisstjóri OCD teymis Kvíðameðferðarstöðvarinnar