Átraskanir
Átraskanir eru ekki lífsstíll heldur geðröskun. Manneskja með átröskun verður heltekin af hugsunum um mat, þyngd og útlit. Þessar hugsanir valda alvarlegum truflunum á matarvenjum og trufluðu hegðunarmynstri tengt stjórnun líkamsþyngdar. Skynjun á líkamslögun verður brengluð og sjálfsmynd stjórnast óeðlilega mikið af lögun eigin líkama og getunni til að stjórna mataræði. Átraskanir geta þróast hjá fólki á öllum aldri og af hvaða kyni sem er.
Átröskun er samheiti yfir nokkra sjúkdóma. Þær átraskanir sem eru hvað þekktastar eru lystarstol (e. anorexia nervosa) og lotugræðgi (e. bulimia nervosa). Einstaklingar með lystarstol upplifa mikla hræðslu við að þyngjast, jafnvel þegar þeir eru í undirþyngd og fara gjarnan í stífa megrun eða nota aðrar aðferðir til þess að léttast. Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af endurteknum tímabilum þar sem einstaklingur borðar mjög mikinn mat á stuttum tíma ásamt sterkri tilfinningu fyrir því að vera búinn að missa stjórn á áthegðun. Einstaklingur reynir síðan að losa sig við þær hitaeiningar sem hann hefur innbyrt með því að nota ýmsar endurteknar og óhjálplegar losunaraðferðir til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Lotuofát eða átkastaröskun (e. binge eating disorder) er átröskun sem getur valdið offitu. Einstaklingar upplifa þá endurtekin og stjórnlaus átköst, þá borða þeir mjög mikið magn matar á stuttum tíma. Einstaklingur með lotuofát notar ekki losunaraðferðir til þess að losa sig við matinn sem hann innbyrti. Sumir einstaklingar hafa blönduð einkenni frá lystarstoli og lotugræðgi en falla ekki í neinn ákveðinn flokk átraskana, þó getur verið um alvarleg sjúkdómseinkenni að ræða. Þá er talað um óskilgreindar átraskanir, meðal þeirra er orthorexia sem einkennist af því að viðkomandi verður meðal annars heltekinn af hreinu mataræði.
Einstaklingar með átröskun eru í mismunandi þyngd og með ólíka líkamslögun, það er mikill misskilningur að það sjáist utan á fólki að um átröskun sé að ræða. Lang flestir sem eru með átröskun eru í kjörþyngd og jafnvel yfir kjörþyngd. Átraskanir þróast oftast í kjölfar megrunarkúra þar sem fólk ætlar í fyrstu að losa sig við nokkur kíló eða fer hreinlega í öfgakennda megrun með því að svelta sig eða losa sig við mat á annan hátt. Slíkir kúrar geta endað í vítahring þar sem einstaklingnum finnst hann aldrei nógu léttur og missir sjónar á hvað er heilbrigð líkamsþyngd og eðlileg máltíð. Einnig getur verið um að ræða alvarlegt ofát, jafnvel í köstum/lotum þar sem einstaklingurinn missir stjórn á því magni sem hann borðar en losar sig síðan við fæðuna eftir á, til dæmis með því að framkalla uppköst. Ofhreyfing eða óhófleg líkamsrækt er algeng átröskunarhegðun. Einnig getur það að einblína óhóflega á vöðvamassa, taka inn stera til að byggja upp vöðva eða taka inn önnur efni til að halda fituprósentu í lágmarki verið átröskunarhegðun. Sú birtingarmynd er algeng hjá karlmönnum en getur þó komið fram hjá hverjum sem er.
Átröskunum getur fylgt mikil andleg vanlíðan, kvíði og þunglyndi. Einstaklingar með átröskun einangra sig oft og vilja ekki vera eins mikið með fjölskyldu eða vinum og áður. Það er mikill misskilningur að átröskun sé lífsstíll eða tískufyrirbæri, átröskun er mjög alvarleg geðröskun og þarf sá sem veikist að fá viðeigandi meðferð. Það er aldrei of seint að leita sér hjálpar en ef gripið er nógu snemma inn í má oft koma í veg fyrir að átröskun þróist á alvarlegt stig. Átröskun er með hæstu dánartíðni af öllum geðröskunum.
Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við átröskun bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð
(Texti þessi er að hluta til fenginn frá átröskunarteymi Landspítalans)
Hvernig lýsir Lystarstol (e. Anorexia nervosa)
Lystarstol er átröskun sem einkennist af því að einstaklingar léttast meira en æskilegt er miðað við aldur og hæð. Einstaklingar með þessa röskun hræðast að þyngjast, jafnvel þegar þeir eru í undirþyngd. Þeir fara gjarnan í stífa megrun eða nota aðrar aðferðir til þess að léttast. Algengi lystarstols er 0,5% og upphaf algengast á aldrinum 14-18 ára.
Lystarstol einkennist af þremur meginatriðum.
- Einstaklingur takmarkar fæðuinntöku sem leiðir til þess að einstaklingur verður léttari en æskilegt er miðað við kjörþyngd.
- Einstaklingur óttast verulega að þyngjast eða verða feitur, jafnvel þó hann sé í undirþyngd.
- Einstaklingur skynjar líkamsmynd eða þyngd sína á brenglaðan hátt. Hann byggir sjálfsmat sitt á þessari brengluðu líkamsmynd eða þyngd og hefur lítið innsæi í alvarleika lágrar líkamsþyngdar.
Til eru tvær tegundir lystarstols, takmarkandi gerð (e. Restricting type) og ofáts/hreinsandi gerð (e. binge-eating/purging type). Einstaklingar með takmarkandi gerð stunda ekki reglulega ofát eða hreinsunarhegðun (t.d. framkalla uppköst, misnota hægðalyf eða aðrar losandi aðferðir). Einstaklingar með ofáts/hreinsandi gerð stunda reglulega slíka hegðun.
Einstaklingar með lystarstol minnka matarskammta mikið og auka jafnvel hreyfingu til þess að léttast. Þrátt fyrir þyngdartap og lága líkamsþyngd snúast hugsanir þeirra nær eingöngu um að léttast áfram og hræðast þeir mjög að þyngjast. Þessar hugsanir verða að þráhyggju sem eykst eftir því sem sjúkdómurinn ágerist.
Lystarstol hefur alvarleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Algengir fylgikvillar eru m.a. hjartsláttartruflanir, beinþynning, vöðvarýrnun og máttleysi, ofþornun, yfirlið, þurr húð og hár og aukinn dúnkenndur hárvöxtur víðsvegar um líkamann. Einnig er algengt að einstaklingar með lystarstol upplifi þynglyndi, kvíða, áráttu- og þráhyggju o.fl.
Hvernig lýsir Lotugræðgi (e. Bulimia nervosa)
Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af endurteknum tímabilum ofáts ásamt sterkri tilfinningu fyrir því að vera búinn að missa stjórn á áthegðun. Hægt er að skipta tegundum ofáts í tvennt. Annars vegar er þegar einstaklingur hefur í raun borðað mjög mikið af mat (e. objective binge episode) og hins vegar þegar það er einungis tilfinning einstaklings að hann hafi borðað mjög mikið af mat þótt hann hafi ekki gert það (e. subjective binge episode). Eftir hverja lotu ofáts reynir einstaklingurinn að losna við þær hitaeiningar sem hann hefur innbyrt með því að nota ýmsar endurteknar og óhjálplegar losunaraðferðir til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Algengi lotugræðgi er 1-3%. Lotugræðgi hefst oft á aldursbilinu 15 til 29 ára en upphaf röskunarinnar byrjar oft í kjölfar megrunatilrauna eða streitufullra atburða.
Einstaklingar með lotugræðgi borða innan ákveðins tíma (t.d innan tveggja klukkustunda) mikið magn matar sem er oft hitaeiningaríkur. Matarmagnið fer langt fram úr því sem flestir einstaklingar myndu almennt borða á sama tímabili við sambærilegar aðstæður. Einstaklingar finna fyrir stjórnlausri áthegðun á meðan á átkasti stendur og leiðir það oft til andstyggðar í eigin garð og þeir upplifa skömm. Ofát á sér oftar en ekki stað í einrúmi, jafnvel stundum að næturlagi þar sem einstaklingar með lotugræðgi skammast sín oft fyrir matavenjur sínar. Eftir ofát grípa einstaklingar með lotugræðgi til losunaraðferða til þess að hamla þyngdaraukningu. Aðgerðir á borð við framkölluð uppköst, óhóflega líkamsrækt eða ýktar föstur (t.d. að fasta í 24 klukkustundir) eru notaðar til þess að hreinsa út hitaeiningarnar. Átköstin og losunaraðferðir eiga sér stað að að minnsta kosti einu sinni í viku yfir þriggja mánaða tímabil. Sjálfsmat þeirra er óeðlilega háð líkamslögun og líkamsþyngd og þau upplifa oft mikinn ótta við að þyngjast.
Einstaklingar með lotugræðgi eru oft í eða yfir kjörþyngd en ekki í undirþyngd líkt og einstaklingar með lystarstol. Það getur því stundum verið erfitt fyrir aðra, sem umgangast einstaklinga með lotugræðgi, að sjá með berum augum að um átröskun sé að ræða. Einnkenni eða hegðun sem hægt að koma auga á er t.d. óhóflega mikil líkamsþjálfun, þegar einstaklingur fer reglulega á salernið eftir máltíðir og þegar keyptar eru brennslutöflur eða annað sem einstaklingur notar með það að markmiði að grennast. Lotugræðgi getur leitt til alvarlegs heilsubrests líkt og skemmda í vélinda, hjartsláttartruflana, nýrnasjúkdóma og tannskemmda.
Hvernig lýsir Átkastaröskun (e. Binge eating disorder)
Átkastaröskun eða lotuofát er átröskun sem einkennist af endurteknum átköstum. Átkast er þegar einstaklingur borðar mikið magn af mat á styttra tímabili en hann myndi venjulega gera. Á meðan á átkasti stendur upplifir einstaklingurinn stjórnleysi.
Orsök lotuofáts er óþekkt, hinsvegar eiga átköst sér oft stað eftir stífa megrun eða svelti. Einstaklingar með lotuofát nota að jafnaði ekki losunaraðferðir að loknum átköstum líkt og einstaklingar með lotugræðgi.
Helstu einkenni lotuofáts eru endurtekin stjórnlaus átköst. Einstaklingar með þessa röskun borða mjög mikið magn matar á stuttum tíma, yfirleitt í einrúmi, og upplifa mikið stjórnleysi á meðan á átkasti stendur. Einstaklingar verða gjarnan óþægilega saddir og eru oft ekki endilega svangir þegar þeir taka átkast. Þeir upplifa gjarnan andstyggð á sjálfum sér, sektarkennd og mikla vanlíðan. Einstaklingar með lotuofát nota að jafnaði ekki losunaraðferðir til þess að losa sig við matinn sem þeir innbyrtu í átkastinu.
Einstaklingar með lotuofát hafa yfirleitt lágt sjálfsálit og eru ósáttir við útlit sitt. Þeir nota gjarnan mat í þeim tilgangi að líða betur eða fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar.
Lotuofát getur haft mikil áhrif á líkamann en það getur leitt til sykursýki, hás blóðþrýstings, hjartasjúkdóma, hækkaðs kólesteróls og ýmissa krónískra verkja.
Hvernig lýsir Orthorexía
Orthorexía er átröskun sem hefur ekki verið eins áberandi í umræðunni og t.d. lystarstol og lotugræðgi, enda nýrri af nálinni. Orthorexíu má lýsa sem þráhyggju fyrir hollu og hreinu mataræði. Einstaklingar með orthorexíu verða oft helteknir af ákveðnu mataræði og gæðum matarins, þeir leggja mikið upp úr því að undirbúa máltíðir og oft myndast ákveðin mynstur í áthegðun. Ólíkt einstaklingum með lystarstol eða lotugræðgi eru einstaklingar með orthorexíu ekki eingöngu með það markmið að grennast og léttast, þó svo það geti vissulega verið tilfellið, heldur er markmiðið oft að reyna að hámarka líkamlega heilsu og vellíðan en það fer út í öfgar.
Einstaklingar með orthorexíu einblína á hollt og hreint matarræði, svo mikið að það fer út í öfgar. Þeir forðast mat sem þeir telja vera óhollan t.d. mat sem inniheldur fitu, sykur, rotvarnarefni eða gervibragðefni. Sumir leita upplýsinga um ýmsar matategundir og uppruna þeirra t.d. hvort grænmeti hafi komist í tæri við meindýraeitur eða hvort mjólkurvörur hafi komið frá kúm sem hafa fengið fóður blandað með hormónum. Einnig skoða þeir pökkun vörunnar t.d. hvort matvælin geti mögulega innihaldið plastagnir og hvort umbúðir matvæla gefi nógu greinargóðar upplýsingar svo hægt sé að meta gæði ákveðins innihaldsefnis. Þessi þráhyggja fyrir gæði matarins er ekki vegna trúarlegra ástæðna, umhverfisástæðna eða vegna velferð dýra. Einstaklingar með orthorexíu geta eytt gríðarlegum tíma í að flokka mat, vigta mat, skrá niður hvaða mat þau hafa borðað í gegnum daginn og skipuleggja næstu máltíðir. Mikill ótti fylgir því að líkamleg og andleg heilsa muni versna ef borðaður er óhollur matur eða mataræði sem er ekki hreint.
Einstaklingar með orthorexíu sniðganga oft ákveðnar matartegundir. Það getur leitt til næringar- og/eða vítamínskorts. Ef þeir fara út af sporinu og borða mat sem þeir telja óhollan eða ekki hreinan, fyllast þeir oft skömm, hefja enn strangari matarvenjur eða byrja að fasta. Einstaklingar með orthorexíu eru í áhættu að einangrast félagslega þar sem margir þeirra trúa því að þeir geti aðeins viðhaldið matarvenjum sínum í einrúmi, þá verða þeir ekki fyrir utanaðkomandi áhrifum og þannig haft fullkomna stjórn.
HVERT SKAL LEITA?
Úrræði fyrir einstaklinga undir 18 ára:
Átröskunarteymi BUGL: Átröskunarteymið er sérhæft teymi göngudeildar sem sinnir greiningu og meðferð hjá börnum eða unglingum. Teymið er staðsett á göngudeild BUGL við Dalbraut 12, 105 Reykjavík. Ef grunur er um átröskun, vinsamlegast hafið samband við heilsugæslu. Meðferðin miðar að því að hjálpa barni/unglingi að takast á við veikindin með stuðningi foreldra og fagfólks. Lögð er áhersla á að barnið og foreldrarnir læri nýjar og betri leiðir til að takast á við átröskunina og fái betri innsýn í hvaða þættir hindra bata. Leitast er við að efla sjálfsmynd, líkamsmynd, félagslega færni og samskipti í fjölskyldu í því skyni að bæta líðan og lífsgæði til lengri tíma. Linkur á heimasíðu átröskunarteymi BUGL
Heilsugæslan: Heimilislæknar geta metið vandann og sent tilvísun á m.a. BUGL með samþykki sjúklings. Linkur á upplýsingar um sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins
Námsráðgjafi eða skólasálfræðingar: Gott er að leita til aðila í skólanum eins og til námsráðgjafa eða skólasálfræðings t.d. til þess að ræða málin eða til þess að fá upplýsingar um viðeigandi aðstoð. Þeir geta síðan sent tilvísun á Landspítalann með samþykki nemanda en Landspítalinn tekur við tilvísunum frá m.a. skólum og öðrum fagaðilunum.
Sálfræðingar á stofum: Ýmsir sálfræðingar á stofum sinna meðferð við átröskunum. Hægt er að leita að sálfræðingum og upplýsingum um þjónustu þeirra í gagnagrunni sálfræðinga. Linkur á gagnagrunn sálfræðinga
Úrræði fyrir 18 ára og eldri:
Átröskunarteymi Landspítala: Átröskunarteymi Landspítala er þverfaglegt teymi sem sinnir greiningu og meðferð við átröskunum og öðrum meðkvillum fyrir 18 ára og eldri. Átröskunarteymi Landspítala heyrir undir geðþjónustu og starfar á göngudeild. Í því starfa fjölskyldufræðingur, geðlæknir, hjúkrunarfræðingur, iðjuþjálfi, næringarfræðingur, sálfræðingar og verkefnastjóri. Tekið er við tilvísunum frá fagfólki innan og utan spítalans. Þeir sem óska eftir ráðgjöf eða vantar að láta meta vanda sinn eru hvattir til að leita til síns heimilislæknis sem metur málið og sendir tilvísun til átröskunarteymi Landspítala ef þörf þykir. Linkur á heimasíðu átröskunarteymis Landspítalans
Heilsugæslan: Heimilislæknar geta metið vandann og sent tilvísun til m.a. átröskunarteymisins með samþykki sjúklings. Linkur á upplýsingar um sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins
Námsráðgjafi eða skólasálfræðingar: Gott er að leita til aðila í skólanum eins og til námsráðgjafa eða skólasálfræðings t.d. til þess að ræða málin eða til þess að fá upplýsingar um viðeigandi aðstoð. Þeir geta sent tilvísun á Landspítalann með samþykki nemanda en Landspítalinn tekur við tilvísunum frá m.a. skólum og öðrum fagaðilunum.
Sálfræðingar á stofum: Ýmsir sálfræðingar á stofum sinna meðferð við átröskunum. Hægt er að leita að sálfræðingum og upplýsingum um þjónustu þeirra í gagnagrunni sálfræðinga. Linkur á gagnagrunn sálfræðinga
Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.