Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Geðrof

Hvað er geðrof?

Um 3% einstaklinga munu fara í geðrof einhvern tímann á lífsleiðinni. Geðrof er ekki röskun í sjálfu sér heldur einkenni eða ástand sem getur komið fram af margvíslegum ástæðum. Geðrof getur komið fram í geðröskunum en getur líka komið fyrir án þess að um röskun sé að ræða. Geðrof er ástand í heila þar sem tengslin við raunveruleikann rofna að einhverju leyti. Þannig getur orðið erfitt fyrir einstakling með geðrof að greina á milli ímyndunar og raunveruleikans.

Helstu einkenni geðrofs eru ofskynjanir, ranghugmyndir og hugsanatruflun. Ofskynjanir eru að sjá, heyra eða skynja eitthvað sem er ekki að gerast í raunveruleikanum, svo sem að heyra raddir sem aðrir heyra ekki. Ranghugmyndir eru hugmyndir sem fólk trúir að séu sannar en þær standast ekki raunveruleikann og aðrir í þeirra samfélagi og menningarheim trúa ekki á hugmyndina. Ranghugmyndir geta verið margs konar, til dæmis um að aðrir séu að reyna að gera manni mein. Hugsanatruflun lýsist af því að skipulag og flæði hugsana verður truflað. Hugsanir verða ýmist mjög hraðar eða hægar sem veldur því að erfitt er að hafa stjórn eða skipulag á hugsunum. Þetta veldur því oft erfiðleikum við að tjá sig og tal verður jafnvel óskiljanlegt.

Geðrof hefur áhrif á hugsun, tilfinningar og hvernig fólk upplifir heiminn. Geðrofi fylgir oft kvíði og depurð og einkenni geðrofs geta leitt til félagslegrar einangrunar, bæði vegna þess að fólk í geðrofi getur fælst eða forðast aðra og vegna þess að öðrum þykja einkennin oft fráhrindandi og upplifa skilningsleysi gagnvart ástandinu.

Birtingarmynd geðrofa í bókum, þáttum og bíómyndum er oft af geðrofi í sinni allra ýktustu mynd og mjög óraunhæf. Þar er geðrof oft tengt við ofbeldi og glæpi þegar raunin er sú að fólk í geðrofi er ekki hættulegra en aðrir, hvorki sjálfu sér né öðrum. Úrræðin fyrir fólk með geðrofssjúkdóma eru líka gjarnan sýnd á mjög óraunhæfan hátt. Í flestum bókum og bíómyndum þar sem geðrof kemur fyrir eru meðferðarúrræðin annað hvort forneskjuleg og eiga ekkert skylt við þær meðferðir sem beitt er í dag eða að þau eru mjög ómannúðleg og í raun ólögleg. Úrræði fyrir fólk með geðrofsraskanir eru mörg, fjölbreytileg og gjörólík því sem oft er sýnt í bókum og dægurmiðlum.

Geðrof kemur gjarnan fram hjá fólki í tengslum við vímuefnaneyslu en getur líka komið fram þegar fólk upplifir mjög alvarlegt þunglyndi eða er í maníu og missir tengsl við raunveruleikann. Sumum vímuefnum er hreinlega ætlað að framkalla ástand sem minnir á geðrof, samanber ofskynjunarlyf sem eiga að framkalla geðrofseinkennið ofskynjanir. Þegar fólk upplifir slík einkenni og er í vímu telst það ekki vera geðrof en hins vegar getur orðið neyslutengt geðrof þegar víman er liðin hjá og geðrofseinkenni eru enn til staðar eða koma fram.

Geðrofssjúkdómar eru nokkrir en þekktasti geðrofssjúkdómurinn er geðklofi eða schizophrenia. Geðklofi er heiti sem margir misskilja og halda að einstaklingur með geðklofa sé með klofinn persónuleika eða marga persónuleika, sem er ekki einkenni í geðklofa. Fólk með geðklofa upplifir að minnsta kosti eitt geðrof, þar sem einkennin eru til staðar nær alltaf í að minnsta kosti mánuð, auk einkenna sem vara í að minnsta kosti 6 mánuði. Geðklofa fylgja, ásamt geðrofseinkennum, svokölluð neikvæð einkenni. Þessi einkenni geta valdið erfiðleikum og skerðingu á færni, til dæmis samskiptafærni, að sinna athöfnum daglegs lífs, að sinna námi eða starfi og fleira. Stundum hefur fólk með geðklofa sem er í geðrofi eða hefur nýverið upplifað geðrof minni þörf fyrir samskipti við aðra, sem getur stuðlað að félagslegri einangrun. Fólk með geðklofa er ekki ofbeldishneigðara en annað fólk, þrátt fyrir að það sé oft birtingarmynd geðklofa í fjölmiðlum og bíómyndum. Í raun er fólk með geðklofa vanalega hlédrægt og skiptir sér lítið af öðrum. Ofbeldishneigð er persónueinkenni og sé einstaklingur með geðklofa ofbeldishneigður var hann það áður en röskunin kom fram og væri það óháð röskuninni.

Þrátt fyrir að geðklofi sé oft málaður upp sem erfið röskun sem nær ómögulegt er að sigrast á þá er raunin sú að margir ná fullum bata og flestir læra að lifa með röskuninni.

Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við geðklofa bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð