HUGUÐ

Iðunn

Það er hægt að fá hjálp

Aðstoðarkona heilbrigðisráðherra, Iðunn Garðarsdóttir, deilir reynslu sinni af OCD, eða þráhyggju- og árátturöskun. Óþægilegar hugsanir líkt og þær áhyggjur að valda einhverjum skaða voru upptökin af kvíðaröskuninni. Hún segir miklar ranghugmyndir um eðli OCD sem þurfi að uppræta. Í tæp þrjú ár lifði hún í óvissu um hvað væri að gerast í höfðinu á sér.

„Ég byrjaði að finna fyrir þráhyggju- og árátturöskun þegar ég byrja í lögfræði árið 2012. Ég fór að hafa skrítnar áhyggjur. Áhyggjur af því að valda öðrum óvart skaða, að ég myndi til dæmis valda slysi. Það sem gerist með þráhyggju- og árátturöskun er að rökhugsunin, röddin sem róar mann og segir: „Engar áhyggjur þú ert ekki að fara valda neinum skaða,“ virkar ekki nógu vel,“ segir Iðunn Garðarsdóttir sem vorið 2014 greindist með þráhyggju- og árátturöskun, einnig þekkt sem OCD.

Iðunn starfar sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Að eigin sögn er hún lögfræðingur sem nýtir frítímann í að fara út að hlaupa, vera í kringum vini sína og drekka gott kaffi. Nýja starfið hefur reynst bæði krefjandi og skemmtilegt. „Þetta er algjört ævintýri, það gætu í raun verið tíu heilbrigðisráðherrar, umfang málaflokksins er svo mikið. Það má segja að ég sé hægri hönd Svandísar Svavarsdóttur og hennar aukaheili.“ Heilbrigðismál eru Iðunni hugleikinn. „Ég var formaður Röskvu á minni háskólatíð og fann hvaða málefni ég brenn fyrir: heilbrigðis-, mennta- og jafnréttismál. Stjórnmálin hafa heillað mig síðan þá og ég hef verið virk í starfi Röskvu og Vinstri grænum síðan um tvítugt.“

null

Sífelld þráhyggja

Samkæmt skilgreiningu þá er þráhyggja og árátta meðal annars kvíðaröskun þar sem fólk fær áleitnar hugsanir, hvatir eða ímyndir sem valda kvíða. Það finnur sig knúið til að endurtaka tilteknar athafnir í því augnamiði að draga úr kvíðanum og afstýra mögulegri hættu. Hugsanir um að gera eitthvað slæmt valda fólki sérstaklega miklu hugarangri. Þessar hugsanir, sem nefndar hafa verið þráhugsanir, eru frábrugðnar öðrum hugsunum að því leyti að þær eru í ósamræmi við skoðanir og sjálfsmynd.

„Ég þurfti aldrei að gera eitthvað ákveðið oft, eins og að þvo hendur, slökkva ljósin tíu sinnum eða hafa allt í röð og reglu.“

Í tilfelli Iðunnar voru það þráhugsanir sem höfðu áhrif á daglegt líf hennar. „Það kemur upp einhver hugsun, stundum mjög galin hugsun, sem ég festist í. Hún veldur kvíða sem maður bregst við með áráttuhegðun.Til dæmis sú hugsun að ég gæti valdið bílslysi, þá þarf ég í einhvern tíma að róa mig endurtekið og sannfæra mig með móthugsunum og að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur. Ég muni ekki valda bílslysi því ég fer varlega í umferðinni, ég hef verið með bílpróf í mörg ár og svo framvegis. Þetta segi ég mér, með því að hugsa ákveðnar hugsanir endurtekið, þar til ég næ að framkalla ákveðna tilfinningu sem segir mér að ég þurfi ekki að hafa áhyggjur. Tilfinningin er einskonar ofurléttir, sem ég veit núna að kallast just right feeling og er einkennandi fyrir OCD.“

Miklar ranghugmyndir um OCD

„Mig grunaði aldrei að um OCD væri að ræða. Ég þekkti aðeins til staðalímyndarinnar af OCD og þau einkenni pössuðu ekki mínum. Ég þurfti aldrei að gera eitthvað ákveðið oft, eins og að þvo hendur, slökkva ljósin tíu sinnum eða hafa allt í röð og reglu. Það eru miklar fyrirframgefnar skoðanir um OCD og margir sem halda þetta snúist um að síminn megi ekki vera skakkur á borðinu eða að maður þurfi að vera mjög skipulagður.“

Þráhyggjan fór versnandi og átti Iðunn orðið erfiðar með að bregðast við þeim. „Það leið skemmri tími milli þráhyggjuhugsana og ég átti orðið erfitt með að viðhalda léttistilfinningunni. Ég var farin að eyða mörgum klukkustundum á dag sitjandi að hugsa,“ útskýrir Iðunn en kvíðinn tók að hafa áhrif á sambönd hennar og námið. „Stærsta og erfiðasta skrefið var að viðurkenna fyrir sjálfri mér að ég gæti ekki tekist á við þetta ein. Ég var föst á því að vinna úr þessu sjálf. Í tvö og hálft ár upplifði ég vanlíðan og óvissu um hvað væri að gerast.“

null

Óttaðist afleiðingarnar

„Ég var orðin áhyggjufull en á sama tíma vildi ég ekki ræða við neinn um ástandið. Það var blanda af skömm og hræðslu við viðbrögð annarra. Ég var smeyk við afleiðingarnar og þrátt fyrir að vera þokkalega vel upplýst um geðheilbrigði var tilhugsunin, um að segja frá, ótrúlega erfið. Það var ekki fyrr en einn daginn sem ég var að lesa mér til um geðsjúkdóma á netinu og kynnti mér þá OCD. Ég trúði ekki mínum eigin augum því þarna var nákvæm lýsing á mér. Ég man ég hágrét við lesturinn og hafði aldrei verið jafn létt á ævinni. Þarna var mín greining.“

Iðunn leitaði sér sálfræðihjálpar með hvatningu vinkonu sinnar. „Ég var ótrúlega heppin með sálfræðing. Ég fór í gegnum hugræna atferlismeðferð sem ég nýti mér í dag til þess að takast á við einkennin og ég hitti enn þá sálfræðinginn minn reglulega, sem hjálpar mjög mikið.“ Iðunn tók þá ákvörðun fyrir ári síðan að byrja á lyfjum vegna nýrra einkenna. „Áður en ég byrjaði að taka lyfin hafði ég í svolítinn tíma fundið fyrir einkennum sem voru ekki bara þráhyggjuhugsanir. Ég var farin að þurfa að bregðast við kvíðanum með því að þurfa að gera eitthvað ákveðið. Ég átti til dæmis orðið erfitt með lærdóm því ég varð að lesa sömu setningarnar aftur og aftur. Það tók mig margar klukkustundir að komast í gegnum nokkrar síður. Lyfin slógu á einkennin og hafa hjálpað mér gríðarlega mikið.“

Tekst á við ný einkenni

Iðunn segir það krefjandi áskorun að læra inn á ný einkenni. Það krefst þolinmæði og vinnu. „Upp á síðkastið hef ég þurft að klóra mér kannski 20 til 30 sinnum á sama stað. Eða að laga fötin mín, eins og sauminn á buxunum mínum, ákveðið oft. Þetta er allt eitthvað sem er pínu fyndið en á sama tíma óþægilegt og tímafrekt. Ég er kannski að sitja og horfa á sjónvarpið en næ ekki að meðtaka neitt því ég þarf að laga mig aftur og aftur. Þráhugsanirnar voru mín helstu einkenni og ég lærði að bregðast við þeim en nú tekur við ný lærdómskúrfa.“

„Hefði ég setið einn fyrirlestur um þessa helstu kvíða- og geðraskanir þá hefði ég vitað hvað væri að hjá mér.“

Frá því kvíðaröskunin lét á sér kræla lýsir Iðunn erfiðum tímabilum í kringum álagstíma og áföll. Þá koma einkennin sérstaklega fram. „Öll upplifum við afleiðingar álags, sumir borða minna og aðrir meira, sumir eru kvíðnir. Ég lít á þetta sem mitt og hluta af mér. Við þurfum öll læra inn á okkur og finna hvað virkar.“ Iðunn segir ýmsa þætti stuðla að góðu jafnvægi í hennar tilfelli. „Hreyfing skiptir mig miklu máli en hún heldur einkennunum í skefjum. Ég hef tekið tímabil líkt og flestir, þar sem ég verð löt við að hreyfa mig. Ég hef lært að það er ekki í boði og ég verð að gefa mér tíma til að rækta líkamann. Einnig hefur hjálpað mér að tala um mína upplifun við mína nánustu.“

null

Ekkert feiminsmál í dag

Fyrst um sinn lét Iðunn lítið fara fyrir greiningunni og upplýsti aðeins sína nánustu. Hún óttaðist viðbrögð og fáfræði annarra á OCD. „Ég vildi taka minn tíma í að læra inn á sjúkdóminn. Með tímanum varð ég óhræddari við að tala um þetta og í dag reyni ég meðvitað að tala opinskátt um OCD,“ segir Iðunn en hún hefur talað opinberlega um reynslu sína á Twitter og Snapchat. „Fólk er gjarnan hrætt við að spurja og vill kannski sína tillitssemi en við þurfum að auka fræðsluna. Hefði ég setið einn fyrirlestur um þessa helstu kvíða- og geðraskanir hefði ég vitað hvað væri að hjá mér. Ég hefði ekki eytt tæplega þremur árum í óvissu.“

Iðunn segir fleiru ábótavant í geðheilbrigðismálum hérlendis. Sálfræðikostnaður er mikill og biðlistinn hjá geðlæknum langir. „Ég er blessunarlega í þeirri stöðu að geta greitt fyrir tímana mína en það búa ekki allir svo vel. Ég er á biðlista að komast að hjá geðlækni en hef nú þegar beðið í marga mánuði. Ég tel gríðarlega mikilvægt að efla geðheilbrigðisþjónustu á öllum vígstöðvum.“ Mikilvægt sé líka að vera meðvitaður um þau úrræði sem bjóðast í dag. „Mikilvægasti lærdómurinn minn er að það er hægt að fá hjálp. Þú þarft bara að þora að taka skrefið og leitast eftir henni. Játa fyrir sjálfum þér að þú getur ekki tekist á við alla erfiðleika einn, tala við fólkið í kringum þig og fá viðeigandi aðstoð. Því það er hægt.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni OCD til boða hér.

Aron Már

Ný kynslóð af tilfinningaverum

Lesa meira