Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Sorg

Sorg

Sorg er eðlileg en erfið tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni. Fólk upplifir sorg við missi, til dæmis ástvinamissi, gjaldþrot, alvarleg veikindi eða vegna tjóns af völdum náttúruhamfara. Sorgarferli er einstaklingsbundið og varir mislengi, ekki er hægt að setja tímamörk á sorg. Stundum getur sorgarviðbragð komið fram í kjölfar missis en stundum kemur sorgarviðbragð þó langt sé um liðið. Einnig getur verið dagamunur á því hversu sterkt fólk upplifir sorg. Gott er að horfast augu við þær erfiðu tilfinningar sem sorg getur haft í för með sér, leyfa sér að upplifa þær í stað þess að bæla þær niður og ræða þær við þá sem standa manni næst – það getur veitt einstaklingum mikinn styrk.

Sorg fylgja tilfinningaleg og líkamleg einkenni. Einstaklingur getur fundið fyrir tilfinningum eins og reiði, kvíða, einmannaleika, sektarkennd, depurð eða óraunveruleikatilfinningu. Einnig geta líkamleg einkenni líkt og lystarleysi, þreyta, vöðvaspenna, ógleði og breytingar á svefni fylgt sorginni. Hegðun getur líka breyst í sorgarferlinu og algengt er að fólk finni þörf til að draga sig í hlé eða einangra sig þegar það er sogmætt. Hjá ungmennum geta meðal annars skapsveiflur, eirðarleysi eða hvatvísi í ákvarðanatökum verið partur af sorgarferli.

Sorg minnir oft á þunglyndi og á mörg einkenni sameiginleg með því. Flest einkenni koma fram með sama hætti. Einn helsti munur á birtingarmynd einkenna er að einstaklingar sem eru í sorgarferli upplifa oftast ekki tilfinningar um að vera einskis virði eða fá sjálfsvígshugsanir með sama hætti og einstaklingar með þunglyndi geta fundið fyrir. Einstaklingar sem upplifa andlát ástvinar geta fengið hugsanir um að þeir vilji ekki lifa lengur til að geta verið með þeim látna en þessar hugsanir vara yfirleitt í stuttan tíma. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir því ef einkenni sorgar verða yfirþyrmandi, eru til staðar alla daga og vara yfir mjög langt tímabil. Það er eðlilegt að líða illa eftir missi en sorg getur verið full ástæða til að leita sér aðstoðar, jafnvel hjá fagaðila.