HUGUÐ

Vala Kristín

Frelsi að vera ekki með líkamann á heilanum

Þáttagerðar- og leikkonan Vala Kristín segir frá sinni upplifun af átröskun. Hún deilir því hvernig hún varð háð því að vera með fullkomna stjórn á eigin líkama sem leiddi út í þunglyndi og kvíða. Í dag er henni að batna og segir að með góðu sambandi við veiku hliðina sína hafi hún komist á þann stað sem hún er í dag.

„Alveg frá því ég man eftir mér hefur mig langað til að vera leikkona. Ég var alltaf með einhver djöfulsins læti í boðum og vildi helst leika skrítna karakterinn í skólaleikritunum: Grýlu eða jólasveininn. Eftir að ég útskrifaðist úr Verzlunarskólanum bauðst mér vinna í Borgarleikhúsinu þar sem ég aðstoðaði við uppsetninguna á Galdrakarlinum í Oz. Ég var búin að skrá mig í lífefnafræði því mér fannst ég þurfa annað plan til öryggis. Eftir að ég byrjaði að vinna hjá Borgarleikhúsinu vissi ég að það væri ekki aftur snúið. Ég var bara sátt við að hafa styrkt HÍ um 40.000 krónur það árið með innritunargjöldunum.“

Stjórnleysið skapaði fullkomnunaráráttu

Vala ólst upp í Garðabæ með fjölskyldu sinni og bjó alla sína grunnskólagöngu þar. „Ég var svona A-týpa, alltaf með toppeinkunnir og gerði allt til þess að standa mig vel. Á þeim tíma var nákominn ættingi veikur af alkóhólisma og greindist með geðsjúkdóm þegar hann var í neyslu. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en seinna að þetta bjó til erfitt fjölskyldumynstur heima. Fjölskyldan mín er frábært fólk en í svona aðstæðum skapast svo mikil meðvirkni og stjórnsemi. Hver og einn meðlimur tekur sér eitthvert hlutverk í sjúku ástandi. Ég tók að mér hlutverk bjargvættarins.“

null

„Að reyna að stjórna aðstæðum í mörg ár skapar mikinn kvíða. Með svona mikið stjórnleysi í lífi mínu ákvað ég að gera allt til þess að hafa stjórn á því sem ég gat. Þar byrjaði ég að veikjast. Ég hef aldrei á ævinni kastað vísvitandi upp og hef aldrei farið í gegnum heilan dag án þess að borða heldur skapaði ég með mér fullkomnunaráráttu gagnvart mat og líkamsrækt.“

„Hver og einn meðlimur tekur sér eitthvert hlutverk í sjúku ástandi. Ég tók að mér hlutverk bjargvættarins.“

„Ég varð háð þeirri tilfinningu að sjá áþreifanlegan árangur á líkama mínum. Ég upplifði fullkomna stjórn og sú tilfinning var eins og víma. En svo fór það að vinna á móti mér. Partýið kláraðist og allt í einu gat ég ekki tekið þátt í samræðum ef það var nammiskál á borðinu. Ég varð svo upptekin af því að halda mér frá namminu að ég var ekki til staðar í samræðunum. Það sem gerist þegar líkaminn fær of litla næringu er að tilfinningastöðin í heilanum dofnar og þú finnur miklu minni tilfinningar. Þetta er efnafræðilegt, ef það er eitthvað erfitt í gangi í kringum þig þá er eðlilegt að langa bara að hætta að finna til.“

Átröskun er stjórnunarfíkn

Það var þó ekki fyrr en eftir að Vala gekk í gegnum sín fyrstu sambandsslit sem hún ákvað að leita sér hjálpar.

„Þegar maður á í nánum samskiptum er erfitt að fela eitrið sem býr innra með manni. Ég gat ekki tekið við ástinni því ég hafði misst áhugann á sjálfri mér. Það fór að grafa undan nándinni og getunni til að vera frjáls í ástinni. Ég fór að upplifa mikinn kvíða og þunglyndi og allt í einu gafst ég upp, tók upp símann og spurði BUGL: Hvað geri ég ef ég held að ég sé með átröskun?“

Við tóku tvö ár af vinnu hjá sálfræðingi sem tókst á við átröskunina eins og fíkn. „Átröskun er í raun stjórnunarfíkn. Ég faldi það fyrir fjölskyldu og vinum, fékk þráhyggju fyrir viðfangsefninu, upplifði skömm og sjálfshatur. Eftir alla þessa vinnu kom ég út alveg jafn rugluð en síðan þá hafa púslin verið að leggjast saman.“

null

Fullorðna Vala sér um litlu Völu

Þegar Vala er spurð hvernig henni líði í dag segir hún að eins og með alla sem eru með fíknsjúkdóm að henni sé aldrei batnað en hún sé í stöðugum bata.

„Þegar ég mæti vissum aðstæðum, ef mér er hafnað eða gengur illa í vinnunni, þá fara þessar hugmyndir af stað. „Okkur liði nú örugglega aðeins betur ef við færum bara tvisvar sinnum meira í ræktina. Þessi löngun til að stjórna aðstæðum.“

„En ég er ekki í vondu sambandi við þessa hlið af mér. Ég þarf bara að tala upphátt eins og við séum tvær, litla Vala er í samtali við fullorðnu Völu. Þá þarf fullorðna Vala að hlusta á litlu Völu sem er sár. Taka utan um hana og segja: „Ókei, þér líður illa núna og ég skil það en ég er fullorðin þannig að ég get séð um okkur báðar.“ Eins og ég væri að tala við litlu frænku mína. Og hvað myndi ég gera fyrir hana? Fara í mat til mömmu og pabba, fara í sund eða kaupa eitthvað fallegt. Allir þessir litlu hlutir skipta svo miklu máli. Að eiga góðan tíma með sjálfri sér.“

„Ég var að gera allt sem ég gat en það var samt efnafræðilegt ójafnvægi í mér. Og lyfin lyftu mér yfir núllið.“

„Bataferlið tekur tíma og það tekur á en það er þess virði. Núna er ég til staðar í lífinu mínu, með vinum mínum í einhverju hláturskasti eða í vinnunni að skapa. Ég er ekki með mat, líkamsrækt eða líkamann minn á heilanum. Það er mesta frelsi sem ég hef upplifað.“

Lyfin lyftu mér yfir núllið

Fyrir rúmu ári síðan var Vala búin að ná miklum bata en eftir alla þessa sjálfsvinnu var hún enn að upplifa kvíða, þunglyndi og þráhyggju. Eitt kvöld, upp úr þurru, hringdi hún grátandi í pabba sinn og spurði til hvaða geðlæknis hún ætti að fara.

„Foreldrar mínir höfðu stungið upp á því fyrir mörgum árum en ég þvertók fyrir það. Ég var með svo mikla fordóma og var hrædd um að vera stimpluð geðveik. En þegar ég fékk tíma hjá geðlækninum mínum þá tók ekkert við nema yndislegheit. Hann sá að ég var búin að gera allt sem ég gat. Hreyfa mig, borða reglulega og hollt, vinna mikið í sjálfri mér. Allt eftir bókinni. Ég fékk væg kvíða- og þunglyndislyf. Það var punkturinn yfir i-ið í mínum bata. Það hefur bjargað lífinu mínu. “

„Ég var að gera allt sem ég gat en það var samt efnafræðilegt ójafnvægi í mér. Og lyfin lyftu mér yfir núllið.“

null

„Þetta snýst líka um það að stundum þarf maður hjálp sem snýst ekki um að maður sjálfur átti sig á einhverju meiru eða fari í jóga. Ég geri í því, þrátt fyrir að mér finnist það óþægilegt, að tala opinskátt um geðlækninn minn eða lyfin mín. Ég reyni eins og ég lifandi get að fela þetta ekki. Þessi mál verða að vera jafnmikið uppi á borðum og aðrir heilsukvillar. Feluleikurinn viðheldur skömm sem er eins og olía á eld í bland við andleg veikindi. Skömmin lifir ekki sólarljósið af.“

Innri klukka líkamans

„Það eru svo margir í þessari stöðu og það eru til fullt af úrræðum. Ég var hrædd við að fara í bata af því að ég var búin að reikna það út í hausnum á mér að ef ég myndi slaka á reipinu þá myndi ég byrja að bæta á mig og svo myndi ég bara halda áfram að bæta á mig út í hið óendanlega. Ég myndi bara enda með offituvandamál. Og af tvennu illu þá hugsaði ég að það væri betra að vera of mjó. En þegar maður lærir að hlusta á sjálfan sig, borða þegar ég er svöng og hætta þegar ég er södd, þá finnur líkaminn mína kjörþyngd. Ég þarf ekki að stjórna öllu. Við erum með þennan magnaða líkama með innri klukku.“

„Ef það er einhver sem les þetta og hugsar: „Já en Guð minn góður, ég vil ekki bæta á mig fimm kílóum.“ Frelsið sem fylgir því að vera í bata frá þessu er bara ómetanlegt og fimm kíló verða að engu. Ég get ekki einu sinni lýst því hvað það er ómerkilegt miðað við allt það góða sem þú færð með því að vera í bata.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni átröskunar til boða hér.

Tryggvi

Í grunninn tilfinningaflækja sem þarf að leysa

Lesa meira