HUGUÐ

Hrefna Huld

Það koma betri tímar

Líf Hrefnu Huld Jóhannesdóttur tók óvæntum breytingum þegar hún greindist með geðklofa. Fyrrum landsliðskonan í fótbolta lagði skóna á hilluna þegar svefnleysi og raddir í höfðinu á henni leiddu til greiningar. Hún segir mikla fordóma í samfélaginu gagnvart geðsjúkdómum og öryrkjum; það skortir fræðslu og viðurkenningu á fjölbreytileikanum.

„Þegar maður veikist andlega þá herjar það á þig líkamlega. Það eru ekki allir sem átta sig á því. Þegar þú nærð ekki að festa svefn eitt augnablik en þarft að vakna í vinnuna, eða í mínu tilviki að mæta á æfingar, þá bitnar það á þér líkamlega,“ segir fyrrverandi landsliðskonan Hrefna Huld Jóhannesdóttir sem síðla árs 2008 fór að finna fyrir einkennum geðklofa.

Hrefna Huld Jóhannsdóttir á farsælan fótboltaferil að baki með landsliðinu. Hún var atvinnumaður í Noregi og er sjötta markahæsta knattspyrnukona efstu deildar á Íslandi frá upphafi. Það einkennir Hrefnu afslöppun og hláturmildi. Hún er á góðum stað í dag og tilbúin til þess að deila reynslu sinni af geðklofa.

null

Lagði skóna á hilluna

„Ég var farin að geta hlaupið minna, ég kom verr út á þolprófum og einfaldari hlutir líkt og að teygja voru orðnir erfiðir fyrir mig. Þetta er fylgifiskur andlegra veikinda,“ segir Hrefna sem í kjölfarið tók þá ákvörðun að færa sig niður í fyrstu deild og hlusta á líkamann. „Ég þurfti að slaka á og huga að mér. Það var auðvitað leiðinlegt og sárt. Ég hefði viljað enda ferilinn öðruvísi en ég gerði það sem ég þurfti og því fylgir engin eftirsjá.“

„Það er mjög persónubundið hvernig sjúkdómurinn birtist og því engin ein ákveðin birtingarmynd af geðklofa.“

Í tilviki Hrefnu lýsir geðklofi sér í röddum sem hún fór að heyra. „Ég svaf ekki í marga daga og vissi að það væri ekki allt með felldu. Mér leið mjög illa og ég skammaðist mín. Ég var heppilega mjög fljót að átta mig á því að ég þyrfti að gera eitthvað í málinu. Það er mjög persónubundið hvernig sjúkdómurinn birtist og því engin ein ákveðin birtingarmynd af geðklofa. Bróðir minn fór með mig á geðdeild og ég er honum gríðarlega þakklát í dag. Hann er einstakur strákur sem var til staðar fyrir mig og hughreysti, sagði það kæmu betri tímar og allt yrði í lagi. Í kjölfarið tóku við fleiri heimsóknir á geðdeildina sem leiddu til greiningar á geðklofa árið 2009.“

null

Hafði ekki orku í daginn

Í gegnum árin hefur Hrefna margoft leitað á geðdeild að eigin frumkvæði. Yfirleitt vegna raddanna sem hún heyrir og svefnleysinu sem því fylgir. „Ég hafði ekki orku í venjulegan dag og átti erfitt með að sjá um sjálfa mig og koma mér fram úr rúminu. Það er kannski eitthvað sem ekki allir skilja, hvernig það er að hafa hreinlega ekki orku í að takast á við nýjan dag.“

Aðspurð segist hún finna fyrir fordómum í garð veikinda sinna og að samfélagið þurfi að sætta sig við að við séum ekki öll eins. „Þó ég sé með geðsjúkdóm þá þýðir það ekki að allir aðrir falli undir þann flokk að vera venjulegir. Þannig sé ég það allavega, við þurfum að taka fólki eins og það er. Það eru gríðarlegir fordómar í samfélaginu, fólk forðast þig og er hrætt við þig. Þú ert ekki spurður um skoðun og öllum er sama um þitt álit, það telur ekki.“

null

Margir bera skömm

„Það skiptir máli að umkringja sig fólki sem sem talar ekki öðruvísi við þig þó þú sért með geðsjúkdóm. Það skortir verulega á fræðslu um þessi málefni og að fleiri stígi fram og deili sinni reynslu.“ Viljinn til þess að hjálpa öðrum dreif Hrefnu til þess að deila sögu sinni í Morgunblaðinu í fyrra. „Ég vildi opna umræðuna og fá fólk til þess að vakna til lífsins. Það er ótal mikið af fólki sem ber skömm af geðsjúkdómum sínum vegna þeirra fordóma sem það mætir. Það einangrar sig vegna hræðslu og þar liggur misskilningurinn. Það er ekki fylgifiskur andlegra veikinda að loka sig af heldur óttinn við viðbrögð annarra. Við verðum að geta rætt þessi málefni opinskátt.“

null

Fordómar gagnvart öryrkjum

Í dag er Hrefna búsett í Danmörk ásamt manninum sínum og yngri dóttur sinni, en sú eldri býr í Englandi hjá föður sínum. Nýverið tók hún að sér sjálfboðavinnu í bakaríi og áhuginn fyrir að æfa aftur er kviknaður. „Ég er reyndar bara búin að mæta þrisvar,“ segir Hrefna hlæjandi. „Í rólegheitunum er ég að skoða að koma mér aftur á vinnumarkað.“

„Það er ekki fylgifiskur andlegra veikinda að loka sig af heldur óttinn við viðbrögð annarra.“

„Það tók mig langan tíma að finna réttu lyfin og þeim fylgja gjarnan slæmar aukaverkanir. Ég hef aldrei verið betri en í dag og er nánast einkennalaus. Ég fæ reglulegar heimsóknir frá geðhjúkrunarfræðingi og hef fundið réttu lyfin sem henta mér. Það er vel haldið utan um mig og góð eftirfylgni.“

null

Í dag er Hrefna öryrki og hefur verið síðastliðin 10 ár. „Það kennir þér að vera sjálfum þér nóg og þú kynnist sjálfum þér á nýjan hátt. Þú lærir að þurfa ekki að vera alltaf í kringum alla eða í öllu. Það versta eru líklegast fordómarnir sem öryrkjar mæta og Íslendingarnir standa þar verr en Danir. Þeir eru opnari fyrir fjölbreytileikanum en á Íslandi, þar sem viðhorfið er gjarnan að maður nenni ekki að vinna eða sé að svindla á kerfinu. Eins og það sé eftirsóknarvert að geta ekki unnið og ekki gerir maður það fyrir kjörin.“

Láttu í þér heyra

Það tók tíma fyrir Hrefnu að taka veikindin í sátt en í dag stendur hún vel að vígi og lítur björtum augum til framtíðar. „Ég hef verið að æfa á fullu og get ímyndað mér að fara að þjálfa eða vinna aftur. Ég hef aldrei verið betri andlega og líður vel. Ef ég á að ráðleggja einhverjum í sömu sporum þá get ég sagt það koma alltaf betri tímar. Leitaðu þér hjálpar og nýttu þér öll þau úrræði sem bjóðast. Ef þú ert ósáttur með hjálpina sem þú færð leitaðu þá annað. Láttu í þér heyra. Ég veit það er ekki alltaf hlustað á mann en þú átt þinn rétt og sæktu hann. Ekki loka þig af. Mér var farið að finnast bara gaman á geðdeild, ég leit á það sem afslöppun. Stundum snýst þetta bara um viðhorf.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni geðklofa til boða hér.

Ragnar

Lærði að taka ábyrgð á sjálfum mér

Lesa meira