Geðhvörf

Geðhvörf eru geðsjúkdómur sem einkennist af óvenjumiklum sveiflum í líðan og lífskrafti sem standa yfir í vikur og mánuði og hafa truflandi áhrif á daglegt líf. Einkenni sjúkdómsins koma oftast fram á aldrinum 15-25 ára en hann greinist einnig síðar. Geðhvörf eru jafn algeng hjá konum og körlum og um 1 af hverjum 100 eru með sjúkdóminn í vestrænum þjóðfélögum. Einkenni sjúkdómsins geta verið óljós og væg í byrjun og í fyrstu getur birtingarmyndin verið endurteknar geðlægðarlotur, jafnvel það vægar að viðkomandi sér ekki ástæðu til að leitar sér aðstoðar. Þegar á líður geta farið að koma fram dýpri sveiflur og á einhverjum tímapunkti getur sjúkdómsmyndin breyst skyndilega og viðkomandi farið í oflætisástand (maníu ). Í þannig sveiflum getur viðkomandi jafnvel fengið ranghugmyndir og/eða ofskynjanir. Þegar svo er komið fer yfirleitt ekki á milli mála hvers eðlis er og sjúkdómurinn er greindur. Í oflætisástandi eða djúpri geðlægð er ekki óalgengt að viðkomandi þurfi að leggjast inn á geðdeild, oft undir þrýstingi frá fjölskyldu og heilbrigðisstarfsfólki því ástandið getur verið þess eðlis að viðkomandi missi innsæi (skynjar ekki hvað hann er veikur) og getur komið sér í erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður.

Á milli veikindalota hafa þeir sem eru með geðhvörf oft lítil eða engin sjúkdómseinkenni og ef vel gengur, geta þeir jafnvel verið einkennalausir langtímum saman. Þunglyndiseinkenni eru yfirleitt þau einkenni sem eru mest áberandi. Flestir með geðhvörf þurfa að taka lyf til að viðhalda góðum bata.

Orsök geðhvarfa eru ekki þekkt með vissu en líklegt er að eins og með flesta geðsjúkdóma sé um að ræða samspil erfða og umhverfis. Geðhvörf eru sá geðsjúkdómur sem hefur hvað sterkastan erfðaþátt af öllum geðsjúdómum (þú erfir genin sem bera sjúkdóminn), en vissulega hafa umhverfisþættir líka sitt að segja. Hlutfall erfða í áhættunni fyrir að veikjast af sjúkdómnum eru 60-80%.

Þrátt fyrir að geðhvörf séu alvarlegur geðsjúdómur sem hefur áhrif á heilsu og líf viðkomandi farnast einstaklingum með sjúkdóminn yfirleitt vel, sérstaklega ef þeir taka ábyrgð á veikindum sínum og leitar sér aðstoðar, fræðast um sjúkdóminn og þá þætti sem hafa áhrif á gang hans. Þar skiptir reglusemi, góður svefn og heilbrigt líferni miklu máli. Almennt er talið að lyfjameðferð hafi jákvæð áhrif á gang sjúkdómsins, bæði í veikindalotum og milli lota til að viðhalda bata.

Eftirfarandi eru algeng einkenni sem geta komið fram í veikindalotum:

Þunglyndi:

Lækkað geðslag eða depurð marga daga í röð

Þreyta og orkuleysi

Finnast lífið tilgangslaust og jafnvel ekki þess virði að lifa

Einbeiting léleg og það verður erfitt að byrja á og ljúka verkefnum

Svefnerfiðleikar, stundum of mikil svefnþörf

Minni matarlyst

Sektarkennd, þér finnst þú hafa gert fleiri mistök en aðrir og jafnvel að þú sért einskis virði

 

Oflæti:

Hækkað geðslag – þér líður vel

Aukin orka og kraftur

Hugsunin verður hröð og nýjar hugmyndir hrannast upp,

Ofur bjartsýni, jafnvel óraunhæfar hugmyndir um eigin getu

Þú gætur farið að eyða peningum í óhófi

Það getur borið á pirringur, óróleika, eirðarleysi

Þú þarft minni svefn en ert samt fullur orku

Getur fengið óraunhæfar hugmyndi um sjálfan þig, jafnvel að þú búir yfir sérstökum/yfirnáttúrulegum hæfileikum, sért mikilvægari en aðrir og getur jafnvel heyrt raddir sem tala til þín

 

Höfundur: Birna Guðrún Þórðardóttir, geðlæknir á geðdeild LSH og Kvíðameðferðarstöðinni

 

 

.