Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

GEÐHVÖRF

HVAÐ ER?

Geðhvörf er geðröskun sem einkennist af tímabilum þar sem fólk sveiflast í líðan og lífskrafti, eða fer í svokölluð geðhæðartímabil (manía) og þunglyndislotur. Geðhvörf kallast bipolar á ensku sem vísar til þess að ástandið sem myndast er eins og tveir andstæðir pólar í líðan. Annað íslenskt heiti yfir geðhvörf er tvískautaröskun, þar sem skaut hefur sömu merkingu og fyrir norður- og suðurheimskautin og táknar algjörar andstæður (efsta og neðsta punkt jarðarinnar. Einkenni röskunarinnar koma oftast fyrst fram á aldrinum 15 til 25 ára. Áður en fólk greinist með geðhvörf hefur það stundum fengið endurteknar þunglyndislotur án þess að hafa farið í maníu. Sumir fá því fyrst greiningu á þunglyndi en um leið og fyrsta maníulotan á sér stað breytist greiningin í geðhvörf. Þó eru ekki allir sem eru með geðhvörf sem fara í þunglyndislotur. Þrátt fyrir að geðhvörf séu alvarleg geðröskun sem hefur áhrif á líf fólks, sýnir fólk með geðhvörf oft engin eða fá einkenni á milli veikindalota og er oft einkennalaust langtímum saman. Þar með farnast fólki með geðhvörf oft vel, sérstaklega ef fólk leitar sér aðstoðar og fræðist um veikindin og þætti sem hafa áhrif á þau. Þar skiptir reglusemi, góður svefn og heilbrigt líferni miklu máli. Lyfjameðferð er almennt talin hafa góð áhrif, bæði í lotum og á milli þeirra. Geðhvörf skiptast í nokkrar raskanir sem eru allar ólíkar en eiga þessar sveiflur í líðan sameiginlegar. Hægt er að lesa um mismunandi tegundir geðhvarfa HÉR.

MANÍA.

Manía eða geðhæð er tímabil í geðhvörfum sem einkennist af mikilli orku og lífskrafti. Geðhvörf einkennast af öfgakenndum sveiflum í líðan og manía er hái punkturinn í sveiflunum. Þegar einstaklingur er í maníu er hann orkumeiri og kraftmeiri en vanalega, hjá sumum getur manían þó komið fram sem aukinn pirringur. Einstaklingur í maníu hefur óvenju mikla og stöðuga virkni og orku, sem dæmi er algengt að sofa lítið og vinna nótt og dag að einhverju verkefni án þess að finna til þreytu eða orkuleysi. Manía hefur verulega truflandi áhrif á getu fólks til að sinna daglegu lífi, skyldum og félagslífi. Oft þarf fólk að leggjast inn á geðdeild því þegar manían er mikil er hætt við því að fólk komi sér í erfiðar og jafnvel hættulegar aðstæður og hefur verulega truflandi áhrif á líf og tilveru fólks. Manía kemur fram með stigvaxandi hætti, einkennum fjölgar og þau verða alvarlegri og meira áberandi þar til þau ná hámarki. Manía kemur því ekki fram líkt og kveikt væri á takka heldur getur hún læðst aftan að fólki og aðstandendum. Einföld lýsing á því að vera í maníu gæti hljómað eins og þetta sé eftirsóknarvert ástand, fullt af orku og lífskrafti. Raunin er þó sú að í maníu er fólk ekki með sjálfu sér og gerir og segir hluti sem það meinar ekki eða myndi vanalega ekki segja eða gera. Algengt er að í maníu sýni fólk meiri áhættusækni en vanalega, sem dæmi getur það keyrt alltof hratt, spilað fjárhættuspil eða haldið framhjá. Það getur jafnvel komið fyrir að fólk í maníu missi verulega tengsl við raunveruleikann og sýni geðrofseinkenni (GEÐROF).

Þegar fólk kemur úr maníu upplifir það oft mikla eftirsjá og samviskubit yfir því sem það sagði eða gerði í maníunni. Það er mikilvægt að flestir geri sér grein fyrir því að það sem fólk gerir í maníu segir ekki til um hver manneskja er í raun og að það er ósanngjarnt að dæma fólk út frá því sem gerist í því ástandi. Margir halda að manía sé einhverskonar hömlulaust ástand þar sem fólk sýnir sinn innri mann, og segir og gerir það sem það myndi í raun vilja, en það er algjör misskilningur. Slíkt getur hent fólk eftir mikla áfengisdrykkju en á ekkert skylt við maníu, þar sem fólk hegðar sér jafnvel í algjörri andstæðu við raunverulegan karakter þess.

HYPOMANÍA.

Hypómanía eða örlyndi er ástand sem líkist maníu að miklu leyti en er vægara og varir oft í styttri tíma. Hypómanía einkennist þannig líka af meiri orku og krafti en hefur ekki verulega truflandi áhrif á getu fólks til að sinna daglegu lífi, skyldum og félagslífi. Einkenni hypómaníu eru ekki nógu alvarleg til að fólk í því ástandi þurfi að leggjast inn á geðdeild og hypómaníu fylgir aldrei geðrof. Nauðsynlegt er að um sé að ræða mikla breytingu í skapi, ekki bara að einstaklingur sé almennt orkumikill. Um hypómaníu gildir líka að ástandið er ekki eftirsóknarvert og getur haft leiðinleg áhrif bæði fyrir einstakling sem upplifir hypómaníu og fólkið í kring.

ÞUNGLYNDI Í GEÐHVÖRFUM.

Þunglyndislotur eru lági punkturinn í geðhvarfasveiflum. Í meirihluta tilvika fylgir þunglyndislota beint á eftir maníu. Þunglyndislota er tímabil þar sem mörg þunglyndiseinkenni koma fram á sama tíma, til dæmis depurð, áhuga- eða ánægjuleysi, breyting á matarlyst og svefni, eirðarleysi, erfiðleikar með einbeitingu og að finnast maður einskis virði. Lesa meira um þunglyndi HÉR. Þunglyndislotur í geðhvörfum eru gjarnan mjög alvarlegar og vara oft lengi, lengur en geðhæðarlotan. Þær eru oft alvarlegri en þegar fólk upplifir þunglyndi án þess að vera með geðhvörf. Það á sérstaklega við ef einstaklingur er nýkominn úr maníu og upplifir mikla eftirsjá yfir því sem hann sagði eða gerði á meðan á henni stóð. Þunglyndi í geðhvörfum getur fylgt mikil sjálfsvígshætta (SJÁLFSVÍG). Sérstaklega í tilvikum þar sem einstaklingur upplifir maníu og þunglyndi samtímis eða svokallað “mixed state”, þá er fólk oft orkumikið og framkvæmir hratt sem getur verið mjög hættulegt ástand þegar það blandast við sjálfsvígshugsanir.

HVERNIG LÝSIR SÉR?

Geðhvörf skiptast í undirflokka sem einkennast þó af sveiflum í líðan og lífskrafti.

Bipolar I

Geðhvörf I fela alltaf í sér að minnsta kosti eina maníulotu og langflestir upplifa einnig tímabil þunglyndis. Hypómanía getur líka komið fram en hvorki hún né þunglyndi eru nauðsynleg fyrir þessa greiningu. Hægt er að lesa um hvernig þunglyndi lýsir sé HÉR og á sú lýsing líka við um þunglyndi í geðhvörfum. Manía er ótrúlega ólík á milli einstaklinga því einkennin eru ekki alltaf þau sömu og fólk sýnir mismörg einkenni. Einkenni geta líka verið þau sömu en komið fram með eðlislega ólíkum hætti. Til dæmis einkennist manía oft af aukinni marksækinni hegðun (þegar fólk vinnur að markmiðum) og það gæti verið allt frá því að skrifa bók og að því að reyna að finna lækningu á krabbameini. Helstu einkenni maníu, sem eru notuð til hliðsjónar við greiningu geðhvarfa, eru þessi:

  • Að vera í rosalega góðu skapi og líða vel, oft kallað hækkað geðslag.
  • Aukin orka og kraftur.
  • Óhófleg bjartsýni, uppblásið sjálfsálit eða trú á eigin mikilfengleika (jafnvel mikilmennskubrjálæði). Til dæmis er algengt að fólk sem upplifir þetta einkenni haldi að það sé með sérstök tengsl við einhvern frægan einstakling eða að það hafi eitthvert gífurlega mikilvægt hlutverk.
  • Minni svefnþörf, í maníu sefur fólk oft lítið sem ekkert og upplifir sig úthvílt og orkumikið eftir mjög lítinn svefn (2-3 klukkutíma jafnvel).
  • Mikið tal og meiri þörf til að halda áfram að tala, fólk verður jafnvel óviðræðuhæft því það hleypir öðrum ekki að og veður úr einu í annað þannig erfitt getur verið að fylgjast með. Stundum talar fólk hærra en vanalega, samhengislaust eða segir verulega óviðeigandi hluti.
  • Verulega hröð hugsun sem getur verið erfitt fyrir einstaklinginn sjálfan að halda í við. Hugsanir og hugmyndir hrannast upp. Þetta er oft ástæða þess að tal getur orðið samhengislaust og mjög hratt flæðandi.
  • Að truflast auðveldlega, eiga erfitt með að halda þræði og beina athygli sinni auðveldlega að hlutum í umhverfi sem skipta ekki máli.
  • Marksækin hegðun, þegar fólk vinnur gagngert að einhverju ákveðnu markmiði eða markmiðum. Markmiðin geta verið í skóla, vinnu eða persónulegu lífi.
  • Pirringur, óróleiki eða eirðarleysi. Pirringurinn getur verið tilfinningalegur eða líkamlegur. Fólk er oft mikið á iði og sýnir mikla virkni sem þjónar ekki neinum tilgangi (til dæmis að hreyfa fæturnar upp og niður stanslaust).
  • Aukin áhættuhegðun, til dæmis að keyra alltof hratt, spilað fjárhættuspil eða að halda framhjá.
  • Óraunhæfar hugmyndir um eigin getu og hæfileika, þegar þetta einkenni er mjög alvarlegt getur það jafnvel komið fram með geðrofseinkennum á borð við ranghugmyndir til dæmis þar sem fólk telur sig búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum eða ofskynjanir, til dæmis að heyra raddir.

Bipolar II

Geðhvörf II fela alltaf í sér að minnsta kosti eina hypomaníu og eina þunglyndislotu. Ef einstaklingur er greindur með geðhvörf II og fær svo maníu sem er ekki hypomanía þá breytist greiningin yfir í geðhvörf I. Sumir halda að geðhvörf II séu eins og væg útgáfa af geðhvörfum I, þar sem hypomanía veldur ekki jafn mikilli truflun og er vægari en manía. Það er þó ekki hægt að líta á það þannig þar sem þunglyndisloturnar í geðhvörfum II geta verið mjög alvarlegar og valdið mikilli truflun. Ólíkt geðhvörfum I þá er þunglyndislota nauðsynleg fyrir greiningu á geðhvörfum II, þunglyndi er þannig meira einkennandi fyrir geðhvörf II og oft lengri og tíðari lotur en í geðhvörfum I. Í geðhvörfum II er algengt að fólk upplifi þunglyndiseinkenni samtímis hypómaníu og birtingarmynd þess getur verið þunglyndi með aukinni orku og pirring sem er mjög erfitt og jafnvel hættulegt ástand. Númerin I og II tákna því ekki mismikinn alvarleika heldur bara tvær mismunandi raskanir sem eru að sumu leyti líkar. Hægt er að lesa um hvernig þunglyndi lýsir sér HÉR og á sú lýsing líka við um þunglyndi í geðhvörfum. Einkenni hypomaníu eru þau sömu og í maníu en þau koma ekki fram með jafn ýktum hætti og vara oftast í skemmri tíma. Einkennin eru ekki nægilega alvarleg til að trufla verulega daglegt líf fólks, þeim fylgir aldrei geðrof og ekki þarf að leggjast inn á geðdeild vegna þeirra. Þó er um verulega breytingu á virkni og líðan að ræða og fólk er ekki endilega með sjálfu sér að öllu leyti.

HVERT SKAL LEITA?

Heilsugæslan: Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

Bráðamóttaka geðsviðs: Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. landspitali.is

Á einkastofur sálfræðinga: Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands sal.is er leitarvél sem nota má til að finna sálfræðinga út frá staðsetningu, tungumáli, sérhæfingu og fleiri þáttum.

Á einkastofur geðlækna: Fjöldi geðlækna veita lyfja- og samtalsmeðferð á einkastofum sínum.

Geðhvarfateymi Laugarássins: Teymið er sértækt og þverfaglegt úrræði á geðsviði fyrir einstaklinga sem hafa nýlega greinst með geðhvörf I, sérstaklega þá einstaklinga sem legið hafa á bráðageðdeild. Teymið býður upp á hópfræðslu og mikla eftirfylgni eftir útskrift og er markmið teymisins að fækka veikindalotum, innlögnum og hafa jákvæð áhrif á sjúkdómsgang. Beiðnir um þjónustu frá geðhvarfateyminu þurfa að vera sendar inn af fagaðila og skulu berast til matsteymis Laugarássins. Heimasíða

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.