Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Persónuleikaraskanir

Persónuleikaraskanir

Reynsla okkar í lífinu ræður miklu um það hvernig við bregðumst við aðstæðum okkar. Til að hjálpa okkur að skilja heiminn búum við okkur til ákveðin handrit sem hjálpa til við að spá fyrir um hvað gerist í lífi okkar og hvernig best er að bregðast við þeim aðstæðum.

 

Sem dæmi um handrit er til dæmis að fara út að borða. Með reynslu höfum við komið okkur upp „vitneskju” um hvað gerist á veitingastöðum. Handrit flestra er líklega einhvern veginn á þennan hátt: Við göngum inn og annað hvort finnum okkur sæti eða bíðum þar til þjónninn kemur og vísar okkur til sætis. Við lesum matseðilinn og þjónninn tekur við pöntun hjá okkur. Maturinn kemur og við borðum. Svo annað hvort stöndum við upp til að borga eða þjónninn kemur með reikninginn til okkar og við borgum hann við borðið. Flest allar veitingahúsaferðir eru eitthvert afbrigði af þessu og þetta gefur okkur ákveðnar væntingar um hvað mun gerast þegar við förum á veitingastað og hjálpar okkur að vita hvernig best er að haga sér.

 

Ef við svo myndum flytja í annan menningarheim, þar sem allt aðrar reglur væru við lýði, yrðum við fyrst mjög rugluð og vissum ekki hvernig við ættum að haga okkur. Ákveðnir árekstrar og vandræðalegar uppákomur myndu koma upp. Með tíð og tíma myndi reynsla okkar verða til þess að við læra nýtt handrit.

 

Því handriti sem við höfum komið okkur upp af heimsókn á veitingastað snertir í flestum tilvikum ekki við því hver við erum, okkar innsta kjarna. En hugsum okkur að við höfum á einhverjum tímapunkti lært leikreglur og komið okkur upp handriti um mannleg samskipti sem valda núna endurteknum árekstrum. Það er erfiðara að takast á við því það hefur að gera með hver við erum, hvers konar manneskjur við erum. Og það getur verið erfitt að viðurkenna að eitthvað í manns eigin fari, manns eigin persónuleika, getur valdið okkur erfiðleikum í samskiptum við aðra. Þannig er það með mynstrin sem stjórna því hvernig við bregðumst við heiminum.

 

Persónuleiki mannanna samanstendur af meðfæddri skapgerð, atlæti í uppvexti og reynslu yfir lífið. Það er í bernsku sem við lærum að þekkja okkur sjálf, hverju við getum búist við af öðru fólki, og hvernig heimurinn „er”. Persónuleikaraskanir geta þróast þegar handritin okkar, sem kannski hafa hjálpað okkur og verið nytsamleg á einhverjum tímapunkti ævinnar, eru það ekki lengur, heldur eru okkur til trafala í samskiptum við annað fólk.

 

Við sjáum heiminn á ákveðinn hátt og það hversu fastmótuð handritin okkar og væntingar eru gerir það að verkum að fólk sem þjáist af persónuleikaröskunum áttar það sig oft ekki á því að hegðun þess sjálfs, viðbrögð þeirra við handritum sem kannski eiga ekki lengur við, geta verið að spila inn í samskipti við aðra. Með öðrum orðum upplifir fólk með persónuleikaröskun annað fólk bregðast þeim aftur og aftur, en hefur oft ekki innsæi inn í eigin röskun. Ítrekaðir árekstrar þeirra við annað fólk eru afleiðing handrita sem passa illa við raunveruleikann og gera það að verkum að kröfur þeirra til annarra og túlkun á aðstæðum er oft ósanngjörn og óraunhæf. Manneskja með persónuleikaröskun er því líkleg til að lenda í samskiptaerfiðleikum, eða eiga erfitt með að mynda tengsl við aðra, og báðir þessir hlutir eru gríðarlega mikilvægir fyrir heilsu okkar og lífsfyllingu.

 

Tíu mismunandi persónuleikaröskunum er lýst í ICD-10, sem er yfirlit yfir sjúkdóma, notað af heilbrigðisstarfsfólki innan Evrópu. Ein sú algengasta er svokölluð jaðarpersónuleikaröskun (e. borderline personality disorder). Fólk sem þjáist af þeirri röskun á oft erfitt með að stjórna tilfinningum sínum, sem geta sveiflast frá því að vera í hæstu hæðum (sæluvíma) og niður í kjallara (alger örvilnan) á aðeins örfáum mínútum. Reiði, hræðsla, kvíði, hamingja og allt þar á milli getur komið á einum degi, jafnvel á sama klukkutímanum. Ennfremur lýsir fólk með jaðarpersónuleikaröskun oft tómleikatilfinningu og lélegri sjálfsmynd, sem getur oft litast af því fólki sem manneskjan er í samskiptum við hverju sinni. Röskuninni fylgir hvatvísi og oft áhættuhegðun eða sjálfskaðandi hegðun, einmanaleiki og hræðsla við að verða yfirgefin. Fólk með persónuleikaröskun á oft í sveiflukenndum og öfgakenndum samböndum við annað fólk og á erfitt með að sjá öfganna á milli þegar kemur að öðru fólki. Þeir sem fólk með jaðarpersónuleikaröskun umgangast verða því annað hvort að englum eða djöflum, eftir því hvernig manneskjan með röskunina túlkar aðstæður. Oft á fólk með þessa röskun mjög erfitt með að viðhalda stöðugum nánum samskiptum við annað fólk.

 

Til að hægt sé að læra nýtt mynstur og ný handrit er mikilvægt að átta sig á því hvað maður getur sjálfur gert til að breyta aðstæðum sínum. Því er eitt grundvallaratriði í meðferð á persónuleikaröskunum að auka innsæi fólks í eigin vanda – því það gefur fólki á sama tíma frelsið til að breyta því sem áður var séð sem óbreytanlegt. Að auka stjórn og vald á eigin lífi með því að læra nýjar aðferðir og ný verkfæri til að takast á við lífið.

 

Höfundur: Lilja Sif Þorsteinsdóttir, sálfræðingur