Upplýsingar um geðheilbrigði > Þunglyndi
2024-08-30 06:03:54

Þunglyndi

Þunglyndi

 

Það finna allir fyrir vanlíðan af og til og það er eðlilegt. Það breytist mikið á unglingsárunum, líkamlega, tilfinningalega og félagslega og algengt er að þeim breytingum fylgi sveiflur í skapi og líðan. Þegar andleg vanlíðan er farin að hafa veruleg hamlandi áhrif á daglegt líf getur það þó gefið til kynna að um þunglyndi sé að ræða og þá er mikilvægt að grípa inn í.

 

Þunglyndi er geðröskun sem hefur áhrif á hugsun, líðan og hegðun. Það einkennist meðal annars af depurð, gleðileysi, áhugaleysi og þreytu. Þunglyndi er mjög algengt og er talið vera fjórða stærsta heilbrigðisvandamál heims. Allir geta fengið þunglyndi og getur það komið fram hvenær sem er á lífsleiðinni. Þunglyndi er röskun sem kemur venjulega fram í lotum, þar sem einkenni eru til staðar í afmarkaðan tíma en svo tekur við einkennalítið eða einkennalaust tímabil. Þegar fólk hefur einu sinni upplifað þunglyndi eru auknar líkur á því að það muni aftur fara í þunglyndislotu, þó það sé ekki víst að það gerist aftur. Það er mikilvægt að leita sér aðstoðar til að læra að takast á við þunglyndi.

 

Margir þættir geta haft áhrif á það hvort einstaklingur þróar með sér þunglyndi. Í sumum tilvikum kemur það fram í kjölfar atburðar eða áfalls, til dæmis við skilnað, ástvinamissi, ástarsorg eða einelti. Það hvernig fólk hugsar og viðhorf þess til sjálfsins, framtíðar og heimsins getur einnig ýtt undir þunglyndi. Aðrir þættir sem geta haft áhrif eru líkamlegt ástand, streita, vímuefnaneysla, aðrar geðraskanir, líkamlegir sjúkdómar og aukaverkanir lyfja. Þegar þunglyndi þróast er það þó líklega vegna blöndu af mörgum af þessum þáttum og ekki endilega hægt að benda á einhverja eina augljósa skýringu.

 

Algengur misskilningur um þunglyndi er að þeir sem líta út fyrir að vera hamingjusamir geti ekki verið þunglyndir. Hegðun fólks getur verið mjög mismunandi út á við og birtingarmyndin ólík. Þunglyndi getur verið svo hamlandi að viðkomandi getur ekki sinnt grunnþörfum eða daglegum verkefnum á borð við að mæta í vinnu eða skóla. Aðrir geta verið virkir í vinnu, skóla, sinnt félagslífi, íþróttum eða öðru og bera það því ekki endilega með sér að þeir glími við þunglyndi. Þá er mögulegt að þeir sem eiga samskipti við viðkomandi geri sér ekki grein fyrir einkennum hans. Það getur verið mjög hættulegt því þá er ólíklegra að þeir sem standa viðkomandi næst átti sig á því að vandi sé til staðar og hjálpi viðkomandi að leita sér aðstoðar.

 

Þegar einstaklingur glímir við þunglyndi getur verið erfitt fyrir hann að ímynda sér að ástandið geti batnað en fagleg meðferð við þunglyndi er árangursrík og getur bætt líðan til muna.

 

Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við þunglyndi bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð

 

Hvernig lýsir þunglyndi sér?

 

Flestir upplifa einhvern tímann einkenni þunglyndis og það er fullkomlega eðlilegt, sérstaklega á unglingsaldri. Hvert einkenni eitt og sér getur skýrst af alls konar þáttum og þarf ekki að vera vegna þunglyndis. Til að um þunglyndi sé að ræða þurfa mörg einkenni að vera til staðar næstum allan daginn, næstum alla daga. Margir halda að þunglyndiseinkenni þurfi að vera til staðar lengi svo um sé að ræða þunglyndislotu en það er nóg að hafa upplifað einkenni í 2 vikur. Þunglyndi getur birst með mjög ólíkum hætti, þannig geta tveir einstaklingar báðir verið með nógu mörg og alvarleg einkenni til að greinast með þunglyndi jafnvel þó þeir eigi bara eitt einkenni sameiginlegt. Það þarf alltaf fagaðila til að greina þunglyndi og einkenni geta verið merki um að eitthvað annað sálrænt sé í gangi. Fjöldi einkenna og hversu langvarandi þau eru segja til um hvort þunglyndi sé að ræða.

 

Mest einkennandi fyrir þunglyndi eru eftirfarandi tvö einkenni, annað eða bæði þessara einkenna eru alltaf til staðar í þunglyndi:

 

  • Depurð: að vera með niðurdregið skap stærstan hluta dags, oft erfitt að finna gleði. Depurð er það einkenni sem flestir tengja við þunglyndi en það er þó ekki alltaf til staðar. Sumir finna ekki fyrir mikilli depurð og enn aðrir upplifa tilfinningalega flatneskju þar sem lítið er um tilfinningar, hvorki jákvæðar né neikvæðar.
  • Áhuga-eða ánægjuleysi: að hafa minni áhuga á hlutum sem voru áður spennandi eða að fá minni gleði og ánægju frá hlutum sem veittu manni áður ánægju. Það getur verið eðlilegt að missa áhuga, sérstaklega á unglingsaldri þegar áhugamál breytast, en það getur það verið merki um þunglyndi ef ekkert annað tekur við sem áhugamál eða ef mjög fáir hlutir vekja áhuga fólks. Það sem er áhugavert og ánægjulegt veitir okkur lífsfyllingu og ef fátt eða ekkert vekur áhuga/ánægju getur verið um þunglyndi að ræða.

 

Önnur þunglyndiseinkenni og birtingarmyndir sem gott er að fylgjast með bæði hjá sjálfum sér og öðrum:

 

  • Trufluð matarlyst: algengt er að matarlyst minnki og það að borða lítið eða sjaldan getur verið hluti af skertri virkni í þunglyndi. Hjá sumum eykst matarlyst í þunglyndi og borða þeir þá meiri eða kaloríuríkari mat en vanalega.
  • Truflaður svefn: að eiga í svefnerfiðleikum, til dæmis erfitt að sofna, vakna oft um miðja nótt, vakna og eiga erfitt með að sofna aftur, vakna eldsnemma eða að sofa of mikið. Þreyta eða orkuleysi fylgir gjarnan í þunglyndi og er ein af ástæðum þess að oft dregur úr virkni.
  • Eirðarleysi eða að hreyfa sig hægar en vanalega.
  • Sektarkennd eða að finnast maður einskis virði: þunglyndir einstaklingar eru margir með samviskubit sem getur verið yfir alls konar hlutum, oft tengt ástandinu og afleiðingum þess. Þá fylgja líka gjarnan hugsanir um að einstaklingurinn sé lítils eða einskis virði.
  • Erfiðleikar með einbeitingu: fylgja oft með þunglyndi og geta líka komið fram í gleymsku. Til dæmis þegar fólk gleymir því sem það ætlaði að gera yfir daginn, leggur eitthvað frá sér og man ekki hvar og fleira.
  • Vonleysi: þunglyndi fylgir oft mikil vantrú á að ástandið, aðstæður og líðan geti nokkurn tímann batnað. Þá á fólk erfitt með að trúa því að framtíðin gæti verið bjartari en núverandi ástand.
  • Minnkuð þátttaka í skóla, vinnu og/eða félagslífi: algengt er að virkniskerðing komi fram með þessum hætti, þegar fólk dregur úr þátttöku í því sem það sinnir vanalega
  • Framtaksleysi, skortur á frumkvæði: getur komið fram í skóla, vinnu, félagslífi eða á hvaða sviði lífsins sem er.
  • Erfiðleikar við að hugsa skýrt eða taka ákvarðanir
  • Viðkvæmni: tilfinningaviðbrögð breytast oftast í þunglyndi og því getur fylgt viðkvæmni. Það getur verið stutt í grátur eða fólk getur komist í uppnám eða liðið illa af litlu tilefni eða af ástæðum sem áður hefðu ekki vakið þau viðbrögð.
  • Endurteknar hugsanir um dauðann, sjálfsvígshugsanir eða sjálfsvígstilraunir: það er algengt þegar fólki líður illa að því fylgi hugsanir af þessu tagi. Þó þær séu algengar þá eru þær alltaf eitthvað sem á að taka alvarlega og það er mjög mikilvægt að segja einhverjum frá þegar slíkar hugsanir koma upp. Hægt er að lesa meira um sjálfsvígshugsanir hér

 

Þetta myndband var gefið út í samstarfi við Alþjóða Heilbrigðisstofnunina og er af mörgum talið gefa góða myndlíkingu við þunglyndi. Í myndbandinu er þunglyndi líkt við svartan hund sem fylgir manni.

 

HVERT SKAL LEITA?

 

Ef þú telur þig vera að upplifa þunglyndi er gott fyrsta skref að láta einhvern vita sem þú treystir. Til dæmis vin, fjölskyldumeðlim, námsráðgjafa eða skólasálfræðing. Oft á tíðum hjálpar heilmikið að létta af sér og ef ekki getur viðkomandi jafnvel aðstoðað þig við að leita þér hjálpar. Það er aldrei of seint eða of snemmt að leita sér hjálpar. Dæmi um þær meðferðir sem standa til boða við þunglyndi á Íslandi eru hugræn atferlismeðferð (HAM), atferlisvirkjun, meðferð sem einblínir á sátt og að lifa eftir lífsgildum (ACT), samskiptameðferð og lyfjameðferð. Stundum þegar fólk leitar sér aðstoðar finnur það sig ekki hjá fyrsta meðferðaraðilanum sem það prófar. Þá er ekkert mál að prófa aðra, og margir sem gera það.

 

Heilsugæslan:Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

 

Námsráðgjafar og skólasálfræðingar:Í mörgum skólum eru starfandi námsráðgjafar eða sálfræðingar sem hægt er að leita til.

 

1717 - Hjálparsími og netspjall Rauða krossins:Ef þú treystir þér ekki til að tala við einhvern sem þú þekkir er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauðakrossins: 1717, eða fara inn á 1717.is og tala við þau á netspjallinu. Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir hjálparsímann eða netspjallið. raudikrossinn.is

 

Bráðamóttaka geðsviðs:Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. landspitali.is

 

Neyðarsími:112

 

Einkastofur sálfræðinga:Á heimasíðu sálfræðingafélagsins er hægt að leita eftir sálfræðingum sem sinna margvíslegum vanda, til dæmis þunglyndi. sal.is

 

Einkastofur geðlækna:Fjöldi geðlækna sinnir lyfja- og samtalsmeðferð við þunglyndi á einkastofum sínum.

 

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.