HUGUÐ

Aron Már

Ný kynslóð af tilfinningaverum

Leiklistarneminn og nýbakaði faðirinn Aron Már, sem er flestum Íslendingum góðkunnur á samfélagsmiðlum, hefur tekist á við kvíða og þunglyndi síðan hann man eftir sér. Hann deilir sögu sinni af því hvernig hann lét grímuna falla eftir að hann byrjaði í leiklistarnámi og mikilvægi þess að tala um tilfinningar sínar við fólkið í kringum sig.

„Ég er þessi hefðbundni kvíðasjúklingur, sem ég held að við Íslendingar séum upp til hópa. Á sumrin erum við í þriggja mánaða gleðivímu og svo dettum við í sex mánaða skammdegisþunglyndi. Þetta er svona íslenska rútínan, myndi ég segja.“

„Æska mín einkenndist af stöðugum flutningum sem varð til þess að ég setti upp grímu og var því alltaf í hlutverki glaumgosans. Það var auðveldara að fitta inn þannig. Það kemur manni langt að vera opinn og hress en til lengri tíma litið gerir það engum gott.“

null

Aron varði miklum tíma hjá afa sínum þegar hann var yngri og síðar dvaldi hann í Svíþjóð eftir að mamma hans kynntist bandarískum manni sem hún bjó með. Saman eignuðust þau Evu Lynn, litlu systur hans. Þegar Aron var 18 ára missti hann litlu systur sína þegar hún varð undir bíl í fjölskylduferð. Sólarhringurinn eftir slysið varð þokukenndur í minningunni. Á leiðinni á spítalann hvarflaði ekki að honum að systir hans væri dáin.

Aron hefur áður komið fram í viðtali þar sem hann segir frá systurmissinum og þeim djúpstæðu áhrifum sem það hafði á hann.

“Það var ekki fyrr en ég algjörlega fríkaði út að fólkið í kringum mig sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum.“

„Ég hef alltaf fundið fyrir þunglyndi en eftir að ég missti systur mína þá sökk ég djúpt. Fyrst hafði ég ekki hugmynd um hvað var að gerast. Líkaminn setti upp einn heljarinnar varnarvegg. Ég var alveg tómur og ég vissi ekki hvernig ég átti að bregðast við umhverfi mínu. Mér leið svo rosalega illa að ég fór að skaða sjálfan mig með eiturlyfjum, drykkju og klámi. Það var ekki fyrr en ég algjörlega fríkaði út að fólkið í kringum mig sagði að ég þyrfti að gera eitthvað í mínum málum. Ég leitaði til sálfræðings sem hjálpaði mér að skilja hvað það væri sem ég var að upplifa. Ég var í tvö ár hjá honum og nýti mér þau verkfæri sem hann kenndi mér enn í dag, þau hjálpa mér mikið.“

null

Lét grímuna falla í leiklistinni

Það var í listaháskólanum sem Aron byrjaði að opna sig. Hann lét grímuna, sem hann hafði haldið þétt að sér, falla.

„Leiklistin neyddi mig til þess að opna mig. Þú þarft að vera samkvæmur sjálfum þér ef þú ætlar að taka þátt í þessu námi. Það þarf að vera 100% traust á milli einstaklinga í bekknum. Á þeim tíma var ég ekki tilbúinn til þess, sem varð til þess að ég féll um eitt ár. Ég fann að ég þurfti verulega að breyta einhverju. Ég sneri blaðinu algjörlega við og hætti að drekka, reykja gras og horfa á klám, sem var allt orðið vandamál á þessum tímapunkti.“

„Í dag einkennist kvíðinn minn af þessari hugsun að ég sé ekki nógu góður. Að ég sé ekki að gera nóg til að ná árangri í lífinu.“

Aron flutti á Flúðir og vann þar í liðveislu fyrir strák með tauga- og hrörnunarsjúkdóm.

„Það breytti mér helling að hugsa um einhvern annan en mig sjálfan. Ég þurfti að taka egóið mitt í burtu sem var ótrúlega auðmýkjandi. Eftir það fór ég með opið hjarta og hug í sex mánaða ferðalag til Suður- Ameríku. Ég kom til baka sem nýr maður.“

Þarf að æfa sig að slaka á

„Í dag einkennist kvíðinn minn af þessari hugsun að ég sé ekki nógu góður. Að ég sé ekki að gera nóg til að ná árangri í lífinu. Ég bý mér til fullt af verkefnum og er mjög upptekinn. Um leið og ég er ekki á fullu að vinna fer ég í lægð. Ég hugsa: „Vá, ég er ekki að gera neitt við líf mitt.“ Ég held alltaf að ég eigi að vera að gera eitthvað. Þegar ég er undir mikilli pressu þá er ég ekkert kvíðinn en þegar enginn ætlast til neins af mér þá finn ég fyrir þessum kvíða. Það er ótrúlega skrítið. Ég er búinn að vera að æfa mig að vera heima og slaka á, sem er mjög erfitt fyrir mig.“

null

Ný kynslóð af tilfinningaverum

Aron segir að sálfræðimeðferð hreyfing hafi hjálpað sér að líða betur. Hann segist líka vera heppinn með unnustuna sína, hana Hildi, en hún hafi staðið með honum sem klettur í gegnum súrt og sætt. Nýlega hafa Aron og vinir hans byrjað að tala um tilfinningar sínar og segir hann það mjög mikilvægt.

„Við erum allir með einhvers konar kvíða og látum hvor annan vita þegar okkur líður ekki vel. Það er mjög gott því þá þá getur einhver sem er ekki með kvíða á þeirri stundu róað hinn niður. Það er ótrúlega þægilegt, í staðinn fyrir að byrgja þetta allt inni. Maður kemst nær einstaklingum við það að opna sig.

„Ég held að það sé mikilvægt að tala við stráka um tilfinningar.“

Ég held að það sé mikilvægt að tala við stráka um tilfinningar. Við búum í svo góðu samfélagi í dag að ég held að næstu kynslóðir á eftir okkur verði allt öðruvísi tilfinningalega. Ég mun endalaust tala við son minn um tilfinningar. Ef honum líður illa mun ég reyna að vinna úr því í staðinn fyrir að gera ekkert í því og segja honum að harka bara af sér.“

Fyrir tveimur árum stofnaði Aron samtökin Allir gráta en markmið þess er að opna umræðuna um kvíða og þunglyndi meðal barna og unglinga.

null

„Fyrst voru samtökin aðallega ætluð strákum en nú miðum við þetta við alla unglinga, skiptir ekki máli hvaða kyn; stelpu, stráka, hán. Ég ákvað að nýta mér fylgið mitt á samfélagsmiðlum til að koma þessum málstað lengra út. Ég fór með fyrirlestra í skóla og deildi því hvað það væri mikilvægt að vera samkvæm sjálfum sér. Þegar ég var yngri vissi ég ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga og var ekkert að pæla í tilfinningum.“

Opnum okkur meira

„Ég þarf að minna sjálfan mig á að þetta er langt maraþon, jafnvel þríþraut, ekki spretthlaup. Ég er á góðum stað núna og eftir að barnið kom þá líður mér mun betur, er kominn með nýtt hlutverk og ábyrgð. Nýjar tilfinningar hjá mér sem eru að spretta, það er eins og hjartað sé að opnast meira. Það er ótrúlega fallegt að eiga barn.“

„Þetta hljómar sem klisja en hún er sönn: ef þér líður illa, leitaðu þér hjálpar. Um leið og þú talar upphátt við einhvern sem þú treystir mun þér strax líða töluvert betur. Hvort sem það er hjá sálfræðingi, góðum vini eða ættingja. Það er grunnurinn að þessu öllu saman, að tala meira saman um tilfinningar. Íslendingar eru oft þrjóskir á að segja hvernig þeim líður og reyna að sýna öllum hvað þeir hafa það ótrúlega gott, jafnvel þegar þeim líður illa innst inni. Við þurfum að opna okkur meira sem þjóð.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni þunglyndis eða kvíða til boða hér og hér.

Vala Kristín

Frelsi að vera ekki með líkamann á heilanum

Lesa meira