Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Tilfinningar

Tilfinningar

Geðheilbrigði skiptir alla máli og góð geðheilsa er nauðsynleg til að fólk geti notið sín sem best. Góð geðheilsa felur ekki í sér stanslausa hamingju og gleði heldur snýst hún um jafnvægi; að geta upplifað bæði góðar og erfiðar tilfinningar, að geta tekist á við mótlæti og að geta tekist á við áskoranir dagslegs lífs. Fólk þarf ekki að upplifa gleði allan daginn, alla daga til að vera með góða geðheilsu en því á að geta liðið vel að jafnaði og geta upplifað jákvæðar og neikvæðar tilfinningar.

Það ætti ekki bara að huga að geðheilsunni þegar manni líður illa eða þegar erfiðleikar steðja að. Geðheilsa, líkt og líkamleg heilsa, er eitthvað sem ætti að hlúa að alla daga og það er mikilvægt að læra á sjálfa/n/t sig og þekkja hvaða aðstæður valda mismunandi líðan hjá hverjum og einum. Þættir sem skipta almennt miklu máli fyrir geðheilsu eru til dæmis svefn, hreyfing og mataræði en mikil óregla á þessum atriðum getur haft verulega slæm áhrif á líðan. Aðrir þættir sem gott er að hafa í huga í tengslum við geðheilsu eru að vera ekki undir of mikilli streitu eða álagi, neysla vímuefna, að hitta vini sína, sinna áhugamálum, gefa sér tíma fyrir sjálfa/n/t sig auk þess sem margir nýta tól eins og hugleiðslu eða núvitund til að hlúa að eigin geðheilsu.

Allar tilfinningar eru eðlilegar og tengjast yfirleitt því sem er í gangi í lífinu okkar. Gleði, sorg, reiði, hamingja, kvíði, kærleikur, depurð, samkennd og allar aðrar tilfinningar eru eðlilegur hluti af því að vera til. Stundum dveljum við lengi í tilfinningum en stundum vara þær bara í stutta stund. Stundum hafa þær mikil áhrif á það hvernig við hegðum okkur en stundum hafa þær lítil áhrif og við bregðumst ekki við þeim með neinum sérstökum hætti. Sumir eru með mikið tilfinninganæmi og flakka auðveldlega og oft á milli mismunandi tilfinninga en aðrir hafa minna næmi. Við leitum yfirleitt alltaf aftur í jafnvægi, þar sem okkur líður bara nokkuð vel eða finnum fyrir frekar hlutlausum tilfinningum. Við þurfum ekki að vera hrædd við erfiðar tilfinningar eða reyna að hunsa þær, þær eru oftast eðlilegar og stundum þarf að leyfa þeim að vera til að ná að vinna úr þeim. Stundum vara erfiðar tilfinningar óvenju lengi, verða verulega íþyngjandi eða hafa mikil áhrif á það hvernig fólki líður og hegðar sér. Þá getur verið að fólk sé að glíma við sálrænan vanda eða geðröskun og þá ætti að leita sér aðstoðar. Til að skilja betur hvenær tilfinningar geta verið orðnar að vandamáli er mikilvægt að þekkja einkenni geðraskana. Opin umræða í nærumhverfi og samfélaginu um andlega líðan getur líka aukið skilning á því hvað er eðlilegt og hvenær um vanda er að ræða, auk þess að draga úr fordómum. Það er mikilvægt að tala opinskátt um eigin tilfinningar, vanlíðan og hvers kyns geðræn vandamál.