Þunglyndi

Alvarlegt þunglyndi (Major Depressive Disorder) hjá fullorðnum er tilfinningavandamál sem einkennist af þungu skapi, gleðileysi, áhugaleysi, þreytu, vonleysi og í alvarlegri tilfellum sjálfsvígshugsunum og/eða -tilraunum. Þetta vandamál telst algengasta staka geðröskunin í heiminum í dag með um 6,7% 12-mánaða algengi hjá fullorðnum samkvæmt faraldursfræðilegum rannsóknum [1]. Þar að auki er samsláttur þunglyndis við aðrar geðraskanir hár [2]. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (World Health Organization) metur þunglyndi ennfremur í fjórða sæti yfir þau vandamál (andleg eða líkamleg) sem valda hvað mestri sjúkdómabyrði í heiminum í dag (til dæmis mælt í töpuðum vinnustundum) [3]. Þunglyndi er því algengt, alvarlegt og dýrt vandamál.

Greining

Til að fá greiningu hjá sálfræðingi eða lækni þarf sjúklingur að uppfylla ákveðin greiningarskilmerki sem skilgreind eru samkvæmt greiningarkerfum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar [4] eða Ameríska geðlæknafélagsins [5], og þau má sjá í töflunni hér fyrir neðan.

1. Þungt skap eða gleðileysi

2. Ánægjumissir eða áhugaleysi

3. Trufluð matarlyst

4. Truflaður svefn

5. Hægagangur eða eirðarleysi

6. Þreyta eða orkuleysi

7. Sektarkennd

8. Einbeitingarskortur

9. Sjálfsvígshugsanir/-tilraunir

Til að hljóta greiningu þarf viðkomandi að hafa fundið fyrir að lágmarki 5 einkennum af þeim 9 sem talin eru upp í töflunni í að lágmarki 2 vikur, og einkennin þurfa að hafa valdið viðkomandi umtalsverðri truflun í daglegu lífi. Einkenni 1 og/eða 2 teljast til kjarnaeinkenna þunglyndis og þurfa því að vera fyrir hendi svo að greining geti átt sér stað (annað hvort annað eða bæði).

Auk þeirra greiningarskilmerkja sem nefnd voru hér að ofan horfir fagfólk til fleiri einkenna þegar þunglyndi er greint, því nær undantekningalaust finnur sá þunglyndi fyrir fleiri íþyngjandi einkennum en þessum 9. Þau eru:

a) Neikvæðar hugsanir þess þunglynda um eigin getu í daglegu lífi; hvernig hann kemur út í samanburði við aðra; og svartsýni á framtíðina: („…ég geri ekkert nógu gott!” eða „…af hverju klúðra ég hlutunum oftar en aðrir…” eða „…þetta breytist aldrei!”).

b) Neikvæðar tilfinningar eins og svartsýni og vonleysi, sem er algengur fylgifiskur þunglyndis.

c) Vanvirkni og félagsleg hlédrægni þegar viðkomandi vill ekkert fremur en að taka þátt, en getur það ekki vegna vanlíðunar.

d) Skert kynlöngun, sem er algengt einkenni alvarlegs þunglyndis.

Hvað er til ráða?

Fyrsta og besta ráðið til að hefja meðferð, ef þunglyndi er að íþyngja þér, er að láta einhvern sem þú treystir vita hvernig þér líður. Ekki bera þessa þungu byrði sem þunglyndi er ein/n. Bara að fá stuðning getur skipt sköpum við að leita sér frekari hjálpar. Þeir fagaðilar sem helst sinna meðferð þunglyndis eru sálfræðingar, geðlæknar og heimilislæknar. Til eru fjórar meðferðir hið minnsta sem reynst hafa gagnlegar í árangursrannsóknum og teljast því gagnreyndar samkvæmt klínískum gæðavísum [6]. Þær eru Hugræn atferlismeðferð (Cognitive behavior therapy), Athafnasemismeðferð (Behavioral activation therapy), Samskiptameðferð (Interpersonal psychotherapy), sem sálfræðingar beita, og svo þunglyndislyfjameðferð (Anti-depressive medications) sem læknar sinna.

Hvert skal leita?

1) Til heilsugæslu í þínu hverfi. Heilsugæsla á að vera fyrsti viðkomustaður allra þeirra sem þurfa á meðferð að halda vegna andlegra eða líkamlegra kvilla. Heimilislæknir þinn á að geta hafið meðferð telji hann slíkt skynsamlegt eða vísað máli þínu áfram til frekari meðferðar, kjósi hann svo.

2) Til bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þar starfa sálfræðingar, geðlæknar og hjúkrunarfræðingar sem eru sérmenntaðir í meðferð tilfinningavanda. Bráðamóttaka er opin frá kl.: 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl.: 12:00-17:00 um helgar. Sími þar er 543 4050.

3) Á einkastofur sálfræðinga. Töluverður fjöldi sálfræðinga sinnir þunglyndismeðferð á einkastofum sínum. Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands (www.sal.is) er leitarvél þar sem hægt er að leita eftir sálfræðingum sem sinna sértækum vandamálum eins og þunglyndi.

4) Á einkastofur geðlækna. Töluverður fjöldi geðlækna sinnir þunglyndismeðferð á einkastofum sínum.

 

Höfundur: Magnús Blöndahl Sighvatsson sálfræðingur.

___________

[1] Kessler et al., 2005a

[2] Brown et al., 2001

[3] Murrey og Lopez, 1997

[4] WHO (1994)

[5] APA (2013)

[6] NICE (2005)