Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

HVERT SKAL LEITA?

Ef þú telur þig vera að upplifa þunglyndi er gott fyrsta skref að láta einhvern vita sem þú treystir. Til dæmis vin, fjölskyldumeðlim, námsráðgjafa eða skólasálfræðing. Oft á tíðum hjálpar heilmikið að létta af sér og ef ekki getur viðkomandi jafnvel aðstoðað þig við að leita þér hjálpar. Það er aldrei of seint eða of snemmt að leita sér hjálpar. Dæmi um þær meðferðir sem standa til boða við þunglyndi á Íslandi eru hugræn atferlismeðferð (HAM), atferlisvirkjun, meðferð sem einblínir á sátt og að lifa eftir lífsgildum (ACT), samskiptameðferð og lyfjameðferð. Stundum þegar fólk leitar sér aðstoðar finnur það sig ekki hjá fyrsta meðferðaraðilanum sem það prófar. Þá er ekkert mál að prófa aðra, og margir sem gera það.

Heilsugæslan: Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

Námsráðgjafar og skólasálfræðingar: Í mörgum skólum eru starfandi námsráðgjafar eða sálfræðingar sem hægt er að leita til.

1717 - Hjálparsími og netspjall Rauða krossins: Ef þú treystir þér ekki til að tala við einhvern sem þú þekkir er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauðakrossins: 1717, eða fara inn á 1717.is og tala við þau á netspjallinu. Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir hjálparsímann eða netspjallið. raudikrossinn.is

Bráðamóttaka geðsviðs: Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. landspitali.is

Neyðarsími: 112

Einkastofur sálfræðinga: Á heimasíðu sálfræðingafélagsins er hægt að leita eftir sálfræðingum sem sinna margvíslegum vanda, til dæmis þunglyndi. sal.is

Einkastofur geðlækna: Fjöldi geðlækna sinnir lyfja- og samtalsmeðferð við þunglyndi á einkastofum sínum.

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.