Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Hvernig lýsir þunglyndi sér?

Flestir upplifa einhvern tímann einkenni þunglyndis og það er fullkomlega eðlilegt, sérstaklega á unglingsaldri. Hvert einkenni eitt og sér getur skýrst af alls konar þáttum og þarf ekki að vera vegna þunglyndis. Til að um þunglyndi sé að ræða þurfa mörg einkenni að vera til staðar næstum allan daginn, næstum alla daga. Margir halda að þunglyndiseinkenni þurfi að vera til staðar lengi svo um sé að ræða þunglyndislotu en það er nóg að hafa upplifað einkenni í 2 vikur. Þunglyndi getur birst með mjög ólíkum hætti, þannig geta tveir einstaklingar báðir verið með nógu mörg og alvarleg einkenni til að greinast með þunglyndi jafnvel þó þeir eigi bara eitt einkenni sameiginlegt. Það þarf alltaf fagaðila til að greina þunglyndi og einkenni geta verið merki um að eitthvað annað sálrænt sé í gangi. Fjöldi einkenna og hversu langvarandi þau eru segja til um hvort þunglyndi sé að ræða.

Mest einkennandi fyrir þunglyndi eru eftirfarandi tvö einkenni, annað eða bæði þessara einkenna eru alltaf til staðar í þunglyndi:

 • Depurð: að vera með niðurdregið skap stærstan hluta dags, oft erfitt að finna gleði. Depurð er það einkenni sem flestir tengja við þunglyndi en það er þó ekki alltaf til staðar. Sumir finna ekki fyrir mikilli depurð og enn aðrir upplifa tilfinningalega flatneskju þar sem lítið er um tilfinningar, hvorki jákvæðar né neikvæðar.
 • Áhuga-eða ánægjuleysi: að hafa minni áhuga á hlutum sem voru áður spennandi eða að fá minni gleði og ánægju frá hlutum sem veittu manni áður ánægju. Það getur verið eðlilegt að missa áhuga, sérstaklega á unglingsaldri þegar áhugamál breytast, en það getur það verið merki um þunglyndi ef ekkert annað tekur við sem áhugamál eða ef mjög fáir hlutir vekja áhuga fólks. Það sem er áhugavert og ánægjulegt veitir okkur lífsfyllingu og ef fátt eða ekkert vekur áhuga/ánægju getur verið um þunglyndi að ræða.

Önnur þunglyndiseinkenni og birtingarmyndir sem gott er að fylgjast með bæði hjá sjálfum sér og öðrum:

 • Trufluð matarlyst: algengt er að matarlyst minnki og það að borða lítið eða sjaldan getur verið hluti af skertri virkni í þunglyndi. Hjá sumum eykst matarlyst í þunglyndi og borða þeir þá meiri eða kaloríuríkari mat en vanalega.
 • Truflaður svefn: að eiga í svefnerfiðleikum, til dæmis erfitt að sofna, vakna oft um miðja nótt, vakna og eiga erfitt með að sofna aftur, vakna eldsnemma eða að sofa of mikið. Þreyta eða orkuleysi fylgir gjarnan í þunglyndi og er ein af ástæðum þess að oft dregur úr virkni.
 • Eirðarleysi eða að hreyfa sig hægar en vanalega.
 • Sektarkennd eða að finnast maður einskis virði: þunglyndir einstaklingar eru margir með samviskubit sem getur verið yfir alls konar hlutum, oft tengt ástandinu og afleiðingum þess. Þá fylgja líka gjarnan hugsanir um að einstaklingurinn sé lítils eða einskis virði.
 • Erfiðleikar með einbeitingu: fylgja oft með þunglyndi og geta líka komið fram í gleymsku. Til dæmis þegar fólk gleymir því sem það ætlaði að gera yfir daginn, leggur eitthvað frá sér og man ekki hvar og fleira.
 • Vonleysi: þunglyndi fylgir oft mikil vantrú á að ástandið, aðstæður og líðan geti nokkurn tímann batnað. Þá á fólk erfitt með að trúa því að framtíðin gæti verið bjartari en núverandi ástand.
 • Minnkuð þátttaka í skóla, vinnu og/eða félagslífi: algengt er að virkniskerðing komi fram með þessum hætti, þegar fólk dregur úr þátttöku í því sem það sinnir vanalega
 • Framtaksleysi, skortur á frumkvæði: getur komið fram í skóla, vinnu, félagslífi eða á hvaða sviði lífsins sem er.
 • Erfiðleikar við að hugsa skýrt eða taka ákvarðanir
 • Viðkvæmni: tilfinningaviðbrögð breytast oftast í þunglyndi og því getur fylgt viðkvæmni. Það getur verið stutt í grátur eða fólk getur komist í uppnám eða liðið illa af litlu tilefni eða af ástæðum sem áður hefðu ekki vakið þau viðbrögð.
 • Endurteknar hugsanir um dauðann, sjálfsvígshugsanir eða sjálfsvígstilraunir: það er algengt þegar fólki líður illa að því fylgi hugsanir af þessu tagi. Þó þær séu algengar þá eru þær alltaf eitthvað sem á að taka alvarlega og það er mjög mikilvægt að segja einhverjum frá þegar slíkar hugsanir koma upp. Hægt er að lesa meira um sjálfsvígshugsanir hér

Þetta myndband var gefið út í samstarfi við Alþjóða Heilbrigðisstofnunina og er af mörgum talið gefa góða myndlíkingu við þunglyndi. Í myndbandinu er þunglyndi líkt við svartan hund sem fylgir manni.