Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

HVERT SKAL LEITA?

OCD teymi Kvíðameðferðarstöðvarinnar

Á Kvíðameðferðarstöðinni (KMS) starfar teymi sálfræðinga sem hafa fengið þjálfun í hugrænni atferlismeðferð/berskjöldunarmeðferð (Exposure and response prevention) við þráhyggju-árátturöskun. Þeir sinna bæði einstaklingsmeðferð og lotumeðferð (Bergenska 4 daga meðferðin).

Bergenska fjögurra daga meðferðin

Á KMS er boðið upp á Bergensku fjögurra daga meðferðina sem er lotumeðferð sem fer fram á fjórum dögum. Þetta er ný meðferðarnálgun sem byggir á þaulreyndum og gagnreyndum aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar/berskjöldunarmeðferðar við þráhyggju-árátturöskun. Í þessari meðferð læra þátttakendur aðferðir og tækni til að takast á við vandann ásamt því að fá góðan stuðning meðan þau æfa sig í að gera berskjöldunaræfingar. Í hverjum meðferðarhópi eru sex manns með OCD sem njóta aðstoðar sex sérþjálfaðra sálfræðinga. Þetta er því í raun einstaklingsmeðferð sem fer fram í hópumhverfi. Þátttakendum er fylgt eftir með símaviðtölum og eftirfylgdarviðtali í ár eftir meðferð.

Heilsugæslan: Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

Bráðamóttaka geðsviðs: Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi.

Á einkastofur sálfræðinga. Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands sal.is er leitarvél sem nota má til að finna sálfræðinga út frá staðsetningu, tungumáli, sérhæfingu og fleiri þáttum.

Á einkastofur geðlækna. Fjöldi geðlækna veita lyfja- og samtalsmeðferð á einkastofum sínum.

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.

Texti skrifaður af: Ólafíu Sigurjónsdóttur, Ph.d Sálfræðingur, Teymisstjóri OCD teymis Kvíðameðferðarstöðvarinnar