Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Sjálfsskaði og sjálfsvíg

Nánari útskýringar

Sjálfsskaði er algengur vandi, sérstaklega hjá unglingum og ungu fólki. Um 10% ungmenna hafa einhverntímann skaðað sig á ævinni.

Sjálfsskaði byrjar oft sem leið til að fá útrás fyrir eða létta á erfiðum eða sársaukafullum tilfinningum. Viðkomandi upplifir þá tímabundinn létti. Mjög fljótlega koma svo aftur upp neikvæðar tilfinningar og sjálfsskaðanum fylgja líka oft tilfinningar eins og skömm eða sektarkennd. Þannig myndast vítahringur sem viðhelst með meiri sjálfsskaða.

Sjálfsskaði kemur fram í ýmsum myndum og er alls ekki bara þegar fólk sker sig í framhandlegg eins og margir halda. Sjálfsskaði getur líka verið hegðun eins og að brenna sig, rífa í hár, kýla eða sparka í veggi eða húsgögn, reyna vísvitandi að lenda í slagsmálum, kroppa í húð, lemja höfði sínu við veggi eða hluti, slá sig eða taka inn stóra skammta af lyfjum. Það getur líka verið mikilvægt að vita að sjálfsskaði kemur oft öðruvísi fram hjá stelpum en strákum. Strákar eru til dæmis líklegri en stelpur til að reyna að lenda í slagsmálum eða kýla í hluti eða veggi.

Af hverju skaðar fólk sig? Það geta verið margar ástæður fyrir því að fólk skaðar sig, til dæmis:

  • Til að reyna að losa spennu, slaka á eða trufla erfiðar minningar eða tilfinningar
  • Til að sýna öðrum hvað þeim líður illa, sækjast í samskipti eða hjálp
  • Tjá eitthvað sem er erfitt að koma í orð
  • Refsa sér fyrir ákveðnar tilfinningar eða hugsanir
  • Breyta andlegum sársauka í líkamlegan sársauka

Sjálfsskaði leysir aldrei ástæðurnar fyrir upprunalega sársaukanum og þess vegna er talað um sjálfsskaða sem óhjálplegt bjargráð við tilfinningavanda. Mikilvægt er að fá aðstoð bæði til að stöðva sjálfsskaðann og til að leysa úr undirliggjandi vandamálum sem komu sjálfsskaðanum af stað til að byrja með. Það er hægt að læra ný bjargráð við mikilli vanlíðan, erfiðum tilfinningum eða minningum sem eru hjálplegri og fela ekki í sér sömu hættu og sjálfsskaði. Sjálfsskaða fylgir líka alltaf ákveðin áhætta, til dæmis á sýkingum eða að sjálfsskaði gengur of langt svo hann verður lífshættulegur og getur jafnvel valdið dauða þrátt fyrir að það hafi ekki verið ætlun viðkomandi. Fyrsta skrefið í batanum er alltaf að segja einhverjum frá og biðja um aðstoð.

Dauðahugsanir eru hugsanir um að vilja ekki vera til lengur, óska þess að hafa aldrei fæðst eða von um að lenda í slysi eða veikindum sem leiðir til dauða. Þar eru ekki beinar hugsanir um að valda eigin dauða með einhverjum leiðum. Dauðahugsanir geta verið afleiðing langvarandi streitu, kvíða eða þunglyndis. Þær geta einnig komið upp við mikla erfiðleika í lífinu. Þeim fylgir oft ákveðið vonleysi, hugsanir um að ástandið muni aldrei batna og tilfinningar eins kvíði, pirringur eða reiði.

Sjálfsvígshugsanir eru hugsanir um að vilja deyja en þær eru öðruvísi en dauðahugsanir af því að þá hugsar fólk líka um að vilja valda eigin dauða. Slíkum hugsunum fylgja oft vangaveltur um ýmsar aðferðir sem það gæti notað og sumir fara að leita sér upplýsinga um aðferðir. Sumir byrja að búa til áætlanir um það hvernig best væri að framkvæma sjálfsvíg eða ákveða einhverja eina aðferð eða tímasetningu. Svo fer fólk jafnvel að skipuleggja aðferð, útvega sér það sem þarf eða kveðja ástvini. Sjálfsvígshugsanir eru stundum afleiðingar geðraskana og geta meðal annars verið einkenni þunglyndis. Líkt og með dauðahugsanir geta sjálfsvígshugsanir líka verið afleiðing langvarandi streitu, áfalla eða annarra erfiðleika. Þannig geta allir einhverntímann upplifað sjálfsvígshugsanir og stundum er það meira að segja eðlilegt viðbragð við mikilli vanlíðan eða miklum erfiðleikum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að segja einhverjum frá þegar slíkar hugsanir koma upp. Þó að sjálfshugsanir geti verið eðlilegt viðbragð eru þær alltaf merki um vanlíðan eða mikla erfiðleika og það er mikilvægt að vita að þær muni líða hjá og það er hægt að aðstoða við hvern þann vanda sem er að valda þessum hugsunum.