Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Meira um lágt sjálfsmat.

Neikvæð reynsla er nokkuð sem við öll verðum fyrir á lífsleiðinni. Lífið er víst ekki alltaf dans á rósum en fólk verður fyrir miserfiðri reynslu og það er breytilegt hvernig fólk túlkar reynsluna sem það verður fyrir. Neikvæð reynsla getur til að mynda verið erfitt uppeldi og lítill stuðningur, lærdómserfiðleikar (t.d. dyslexia eða annars konar námsraskanir), erfið sambönd (rifrildi, andlegt eða líkamlegt ofbeldi), höfnun af hendi fjölskyldumeðlima, kærasta/kærustu eða vina, fötlun ýmis konar, athugasemdir annarra eða önnur áföll.

Sjálfsmatið er í mótun alla okkar tíð en sér í lagi í bernsku og á unglingsárum. Á þeim tíma er heimsmynd okkar, viðhorf og skoðanir að mótast og við um leið að finna okkar stað í lífinu. Neikvæð reynsla hefur áhrif á skoðanir okkar og það hvernig við túlkum og skynjum lífið og tilveruna.

Lífsreglur eru leiðir okkar til að takast á við kjarnahugsanirnar. Þær eru meðal annars leið til að minnka kvíða og koma okkur frá aðstæðum þar sem líklegt er að kjarnahugsanirnar virkjast. Ef við höfum kjarnahugsunina „Ég er leiðinleg“ þá væri ein leið til að ekki komist upp um okkur að forðast félagsleg samskipti eða eyða miklum tíma í að ofhugsa hvað við segjum eða gerum í samskiptum við aðra. Ef kjarnahugsunin er „Ég er heimsk/ur!“ þá væru líklegar lífsreglur annað hvort að eyða óhemju tíma í námið og kunna allt utanbókar, eða að hætta hreinlega að reyna almennilega við námið því við höfum sannfært okkur um að það hafi ekkert uppá sig. Ef við reynum ekki þá getur okkur ekki mistekist!

Óhjálpleg hegðun er afleiðing þess að hafa óhjálplegar lífsreglur. Dæmi um óhjálplega hegðun er að forðast krefjandi aðstæður (taka ekki þátt, hætta námi snemma, taka ekki þátt í félagslífinu), gera miklar varúðarráðstafanir (kunna utanbókar, æfa fyrirlesturinn óhóflega, leita almennt samþykkis annarra fyrir ákvarðanatöku), vera mjög sjálfsgagnrýnin á eigin frammistöðu („tónleikarnir voru glataðir hjá mér því ég spilaði feilnótu“) og gera lítið úr eigin árangri („Æji, þau hrósuðu mér bara því þau vorkenna mér, ekki af því ég raunverulega stóð mig vel“).

Samfélagsmiðlar geta haft mikil áhrif á sjálfsmatið. Þar sjáum við glansmynd sem við virðumst of gjarnan trúa án þess að gagnrýna. Hins vegar veltum við of sjaldan fyrir okkur hinni hliðinni, eins og hvernig viðkomandi leit út kl. 07 fyrir make-up og photoshop/filtera, að þessi tiltekna manneskja glími hugsanlega líka við erfiðleika stundum. Eins virðist virði okkar sem manneskju á samfélagmiðlum fara eftir fjölda læka og „followers“. Svo eru miklar kröfur sem eru gerðar til okkar á samfélagsmiðlum sem við virðumst líka leggja á herðar annarra. Slíkt getur valdið óhjálplegar neikvæðum hugsunum svo sem: „Hann seen-aði mig bara“, „Sigga vinkona lækaði ekki myndina mína, henni líkar ekki jafn vel við mig og ég hélt“, „Ég fékk bara þumal, ekkert svar!“. Stefnumótaforrit líkt og Tinder eru ekki síður líkleg til að valda slíkum hugsunum („það super-lækar mig aldrei neinn!“, „Hún svarar mér ekki, sennilega er ég ekki nógu myndarlegur/áhugaverður eða verðugur“). Fyrir utan þá staðreynd að slík forrit lifa á hlutlægu mati á útliti en ekki á öllum hinum eiginleikunum sem við viljum hafa í tilvonandi kærustu/kærasta.

Saga Eiríks:

Eiríkur er 16 ára strákur og hann var að byrja í menntaskóla. Lífið hefur ekki alltaf verið Eiríki auðvelt. Hann var lagður í einelti í fyrstu bekkjum grunnskóla og var helsta stríðnin tengd því að hann væri rauðhærður og fremur lágvaxinn. Hann upplifði lítinn stuðning heima fyrir því foreldrar hans eiga við áfengisvanda að stríða. Vegna þessa hefur honum ekki gengið neitt sérstaklega vel í skóla hingað til, bæði var erfitt að einbeita sér þegar það var sífelld hætta á stríðni og foreldrar hans höfðu lítinn áhuga á skólagöngu hans. Eiríkur hefur mótað með sér kjarnahugsnirnar að hann sé heimskur, leiðinlegur og ljótur. Hann valdi sér menntaskóla sem eineltisseggirnir ætluðu ekki í. Núna langar hann að eignast vini og „byrja upp á nýtt“. Hann er búinn að spjalla við strák sem situr með honum í stærðfræði og hann langar að kynnast honum betur. Hins vegar sækja sífellt að honum kjarnahugsanir sem segja honum að hann sé heimskur og leiðinlegur og því spyr hann sig: „Af hverju ætti hann að vilja kynnast mér betur, ég hef ekkert að bjóða!“.

Það er misjafnt hvernig lágt sjálfsmat kemur fram hjá fólki, allt eftir reynslu þess í lífinu og túlkun. Sjá dæmisöguna um hana

Helgu:

Helga er fyrirmyndar nemandi og henni hefur alltaf gengið mjög vel í skóla. Nú er hún komin í menntaskóla og námið er orðið strembnara og það er ekki jafn auðvelt fyrir hana að læra allt efnið utanbókar, sem hefur annars reynst henni vel hingað til. Foreldrar hennar eru góð við hana og hana hefur aldrei skort neitt, en þau hafa alltaf gert miklar kröfur til hennar. Hún gleymir seint deginum í 8.bekk þegar hún kom heim eftir að hafa fengið 6 í líffræði en yfir 9 í öðrum fögum. Mamma hennar hrósaði henni lítið sem ekkert fyrir fögin sem gengu vel en skammaði hana fyrir sexuna. Helga lærði líka á fiðlu í grunnskóla og hún á minningu um að hafa spilað á tónleikum í 4.bekk en „frosnað“ í miðju lagi. Mamma hennar varð fúl og sýndi litla hlýju og skilning í þeim aðstæðum. Það hafa sótt að henni kjarnahugsanir um að hún sé almennt ekki nógu góð, t.d. námsmaður og tónlistarnemandi. Hún hefur fundið út að ef hún gerir ekki mistök þá sækja hugsanirnar síður að henni og foreldrar hennar eru ánægðir. Lífsreglan er því: „Ég má ekki gera mistök!“. Þetta hefur gert það að verkum að hún hætti á fiðlunni í 5.bekk og hún forðast almennt að byrja í nýjum tómstundum. Hún á að baki ótal svefnlausar nætur þar sem hún les yfir glósur fyrir próf eða skilaverkefni aftur og aftur. Hún er líka mjög kvíðin í prófum og þegar hún þarf að koma fram s.s. að halda fyrirlestur.