Í tilefni af opnun vefsíðunnar gedfraedsla.is vilja Hugrún geðfræðslufélag háskólanema, Landssamtök íslenskra stúdenta og Samband íslenskra framhaldsskólanema biðla til foreldra og forráðamanna að ræða geðheilsu við ungmenni, kynna fyrir þeim einkenni helstu geðraskana og þau úrræði sem standa til boða á Íslandi.
Aukin umræða síðustu ár um geðheilsu hefur leitt til hugarfarsbreytinga sem voru löngu tímabærar. Umræðan hefur teygt sig víða um samfélagið en það er sérstaklega mikilvægt að hún nái inn á heimili og til eyrna ungs fólks. Fræðsla veitir ungmennum réttu verkfærin til að huga að andlegri heilsu og eykur umburðarlyndi þeirra gagnvart aðstæðum annarra.
Hugrún geðfræðslufélag hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði sem standa þeim til boða, sem og að auka samfélagslega vitund. Háskólanemar í sjálfboðaliðastarfi á vegum félagsins heimsækja framhaldsskóla landsins árlega og flytja geðfræðslufyrirlestra fyrir nemendur. Fræðslan er mikilvæg en dugar þó ekki til. Fræðslan nær ekki til allra þar sem ekki allir fara í framhaldsskóla auk þess sem ljóst er að einn fyrirlestur dugar skammt til að fræða ungmenni um eitthvað jafn viðamikið og mikilvægt og geðheilsu. Leita þarf annarra leiða til þess að tryggja að hvert og eitt ungmenni fái viðeigandi fræðslu. Fræðsla um geðheilsu er ekki fastur liður af skólastarfi á neinu skólastigi á Íslandi og því algjörlega tilfallandi hvort einhver umræða um geðheilbrigði á sér stað í skólum.
Til að auka líkur á því að sem flest ungmenni á Íslandi fái fræðslu um geðheilsu hvetjum við, undirrituð, foreldra til að ræða þessi mál heima og nota til þess leiðbeiningar fyrir foreldra á vefsíðu Hugrúnar, gedfraedsla.is. Slíkt samtal heima fyrir opnar á nauðsynlega umræðu og eykur líkur á því að ungmenni treysti sér til að ræða vandamál sem geta komið upp. Vefsíðan er aðgengileg á íslensku, ensku og pólsku.
Geðraskanir geta átt upptök sín á unga aldri og því er mikilvægt að bregðast við snemma. Með opinni umræðu um geðheilsu og geðraskanir er hægt að draga úr ótta og skömm þeirra sem finna fyrir einkennum geðraskana og auka líkurnar á því að þau sæki sér aðstoð.
Tryggjum geðfræðslu fyrir alla.
Eftirfarandi félög, sem skipuð eru ungu fólki, biðla til foreldra að veita ungmennum fræðslu af þessu tagi, vera huguð og ræða geðheilsu heima.
Hugrún geðfræðslufélag
Samband íslenskra framhaldsskólanema
Landssamtök íslenskra stúdenta, sem er í forsvari fyrir:
Nemendafélag Háskólans á Bifröst
Stúdentaráð Háskóla Íslands
Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands
Stúdentafélag Háskólans á Akureyri
Nemendaráð Listaháskóla Íslands
Stúdentafélag Hólaskóla
Samband íslenskra námsmanna erlendis
Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík