Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Áfallastreituröskun

Áfall er erfið eða þungbær reynsla sem eðlilegt er að hafi áhrif á fólk og tekur oft tíma að jafna sig eftir. Áföll eru misalvarleg og fólk er misviðkvæmt fyrir þeim en sum áföll eru svo alvarleg að þau myndu valda lang flestu fólki erfiðleikum. Þegar fólk lendir í alvarlegu áfalli þar sem lífi þeirra, lífi annara, velferð þeirra eða velferð annara er ógnað og það upplifir mikla hræðslu, hrylling eða vanmátt á meðan á áfallinu stendur er algengt að fólk fá einkenni áfallastreitu eða jafnvel þrói með sér áfallastreituröskun.

Áfallastreita stuttu eftir áfall er ekki endilega merki um áfallastreituröskun heldur getur verið um að ræða eðlileg viðbrögð við erfiðri lífsreynslu. Ef einkenni áfallastreitu eru enn til staðar, trufla líf og valda vanlíðan, og meira en mánuður er liðinn frá áfalla atburðinum er mögulegt að um sé að ræða áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun er algeng og talið er að um 10% fólks fái hana einhvern tímann á ævinni.

Einkenni áfallastreituröskunar eru fjölmörg og það þarf alltaf að greina hana hjá fagaðila. Eftirfarandi eru helstu flokkar einkenna en fagaðilar líta til margra þátta, svo sem fjölda einkenna, við greiningu auk þess sem einkennin eru mun fleiri en talin eru upp hér.

  • Endurupplifun áfalls á einhvern hátt (t.d. minningar, “flash-backs” eða draumar)
  • Forðast aðstæður, áreiti, hugsanir og fleira sem minnir á áfallið
  • Neikvæðar breytingar á hugarfari eða versnandi líðan (t.d. sektarkennd, minni áhugi á mikilvægum athöfnum, erfiðleikar við að muna atriði tengd áfallinu og erfiðleikar við að upplifa jákvæðar tilfinningar)
  • Breytt örvunarstig og viðbrögð (t.d. pirringur, sjálfsskaði, kæruleysi, bregða auðveldlega og svefntruflanir)

Mikilvægt er að einstaklingar með áfallastreituröskun leiti sér aðstoðar. Fólk sem hefur lent í áfalli en uppfyllir ekki viðmið fyrir áfallastreituröskun getur líka haft mikið gagn af því að vinna úr þeim. Það getur verið verulega erfitt að komast yfir áföll og það ætti ekki að hunsa erfiðleika og vanlíðan tengd áfalli, jafnvel þó langt sé liðið.