Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Kvíðakast

Kvíðakast er þegar fólk finnur fyrir skyndilegum og yfirþyrmandi ótta án þess að raunveruleg hætta sé til staðar. Í kvíðakasti finnur fólk fyrir mjög sterkum líkamlegum kvíðaeinkennum sem magnast upp og ná hámarki á nokkrum mínútum. Kvíðaköst eru vanalega fljót að líða hjá og oftast hverfa einkennin á innan við hálftíma. Dæmi um þessi líkamlegu einkenni eru hraðari hjartsláttur, aukinn sviti, skjálfti, að finnast maður vera að kafna, brjóstverkir, doði, yfirliðs tilfinning og ógleði. Þá fylgja oft hugsanir og hræðsla um að missa stjórn, tapa vitinu, fá hjartaáfall eða deyja. Kvíðaköst geta komið fram óvænt og gerst í aðstæðum þar sem einstaklingur á ekki von á þeim en þau geta líka komið fram í aðstæðum sem valda einstaklingnum vanalega kvíða.

Kvíðaköst eru ekki röskun en þau eru verulega óþægileg og geta verið einkenni röskunar. Kvíðaköst geta komið fram í mörgum kvíðaröskunum, sem dæmi getur fólk með sprautu- og nálafælni fengið kvíðakast í nálægð við sprautur og nálar. Kvíðaröskunin ofsakvíðaröskun er þegar fólk fær endurtekin kvíðaköst, sem valda því mikilli vanlíðan, og það hefur stöðugar áhyggjur af því að fá annað kast. Þó kvíðaköst fylgi oft röskunum þá geta þau komið fyrir hvern sem er og það er hægt að fá kvíðakast án þess að vera með kvíðaröskun.

Í daglegu tali er oft talað um kvíðakast þegar fólk hefur miklar áhyggjur af einhverju í langan tíma eða finnur áhyggjur hellast yfir sig. Það er vissulega óþægilegt að lenda í slíku en tilfinningarnar og líkamlegu viðbrögðin sem fylgja kvíðakasti eru mun sterkari og meira yfirþyrmandi. Það er mikilvægt að þekkja einkenni kvíðakasts og vita muninn á þessu tvennu því þegar fólk fær kvíðakast og þekkir ekki einkennin heldur það gjarnan að það sé að deyja eða fá hjartaáfall og leitar jafnvel læknisaðstoðar vegna þess. Kvíðaköst einkennast af ofsafengnum ótta, miklum líkamlegum viðbrögðum og þau ná hámarki á nokkrum mínútum.

Sumir fá aðeins eitt kast en aðrir fá kast við og við án þess að það hafi mikil áhrif á daglegt líf. Þegar kvíðaköst eru regluleg, hluti af röskun eða helsta einkenni röskunarinnar (ofsakvíðaröskun) þá valda köstin miklum erfiðleikum og vanlíðan. Þegar kvíðaköst eru farin að hafa veruleg áhrif á líf og líðan ætti fólk að leita sér aðstoðar.