Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Almenn kvíðaröskun

Almenn kvíðaröskun felst í miklum og ítrekuðum áhyggjum af ýmsu tagi og alls konar hlutum Áhyggjur eru neikvæðar hugsanir sem snúast oft um að eitthvað slæmt muni koma fyrir mann sjálfan eða sína nánustu. Þær geta tengst hverju sem er eins og frammistöðu í vinnu eða skóla, framtíðinni, peningamálum, eigin heilsu eða heilsu annarra. Það er erfitt eða ómögulegt fyrir einstakling með almenna kvíðaröskun að hrista áhyggjurnar af sér og leiða hugann að öðru. Oft verða áhyggjurnar meiri og ýktari eftir því sem þær vara lengur, líkt og sífellt stækkandi snjóbolti sem rúllar niður hæð.

Fólk með almenna kvíðaröskun finnur oft fyrir eirðarleysi og mikilli þreytu, enda er erfitt fyrir líkamann að vera í langvarandi kvíðaástandi. Vöðvaspenna er mjög algeng meðal fólks með almenna kvíðaröskun og oft leitar það til læknis vegna slæmrar vöðvabólgu en ekki vegna kvíðans sjálfs. Önnur algeng einkenni eru erfiðleikar með einbeitingu, pirringur og svefntruflanir. Einstaklingar með almenna kvíðaröskun eiga oft erfitt með að sofna, gjarnan því áhyggjur koma upp í kollinn þegar þeir hafa lagst upp í rúm og fá næði til að hugsa.

Það fylgir því mikil óvissa að vera til, óvissan er í raun óumflýjanleg. Við getum aldrei vitað með vissu hvað gerist á morgun, hvernig aðrir muni haga sér eða hvað framtíðin ber í skauti sér. Talið er að einstaklingar með almenna kvíðaröskun eigi erfitt með að þola óvissu. Þess vegna reyna þeir oft að skipuleggja hér um bil allt sem hægt er að skipuleggja og athuga endurtekið hvort allt sé ekki nákvæmlega eins og það á að vera. Áhyggjurnar auka óvissuna og óvissan eykur áhyggjurnar og þannig skapast vítahringur sem erfitt er að losna úr. Þegar fólk upplifir miklar og íþyngjandi áhyggjur er mikilvægt að leita sér aðstoðar fagaðila.