Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Félagsfælni

Félagsfælni er þegar fólk finnur fyrir miklum ótta eða kvíða í félagslegum aðstæðum. Oftast tengist kvíðinn áhyggjum um að aðrir séu að dæma mann, að maður komi illa fyrir eða að maður muni segja eða gera eitthvað sem öðrum þykir asnalegt. Dæmi um félagslegar aðstæður eru að eiga samtal við einhvern, fara í partý, kynnast nýju fólki, halda fyrirlestur, borða eða skrifa fyrir framan einhvern eða að tala við yfirmenn. Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða í sumum félagslegum aðstæðum og langflestum þykir til dæmis stressandi að halda fyrirlestur eða að koma fram opinberlega. Ef við værum ekki með neinn kvíða tengdan félagslegum aðstæðum þá væri okkur alveg sama um hvernig við komum fyrir og hvað öðru fólki finnst. Flest erum við félagsverur og því fylgir að upplifa kvíða í tengslum við sumar félagslegar aðstæður.

Þeir sem eru með félagsfælni upplifa meiri kvíða í félagslegum aðstæðum og kvíðinn verður svo mikill að hann veldur erfiðleikum í daglegu lífi eða verulegri vanlíðan. Oft leiðir félagsfælni til þess að fólk forðast algjörlega félagslegar aðstæður eða þraukar rétt svo í gegnum þær og upplifir mikinn kvíða og vanlíðan á meðan. Það getur verið áberandi þegar fólk forðast aðstæður, eins og að mæta ekki í partý eða neita að fara í skólann, en stundum getur hegðun fólks með félagsfælni verið minna áberandi, til dæmis þegar fólk æfir sig mjög mikið fyrir fyrirlestur eða takmarkar augnsamband. Sumir hafa félagsfælni bara við ákveðnar aðstæður, eins og kynningar fyrir framan fólk og er það kallað frammistöðukvíði. Félagsfælni getur haft verulega mikil áhrif á líf og ákvarðanatöku fólks. Hann getur leitt til félagslegrar einangrunar, valdið því að fólk mætir ekki í afmæli, veislur eða atburði sem væru ánægjulegir án kvíðans og stundum veldur hann því jafnvel að fólk velur sér nám þar sem lítið er um kynningar eða hópastarf eða þiggur ekki stöðuhækkun ef henni fylgja aukin samskipti.

Sumir með félagskvíða drekka áfengi eða neyta fíkniefna til að auðvelda félagsleg samskipti og geta jafnvel ekki mætt í partý án þess. Skammtímalausn í formi vímuefna lagar ekki félagsfælnina en getur leitt til enn fleiri vandamála og jafnvel þróast út í fíknivanda. Því ættu einstaklingar sem finna fyrir félagsfælni eða vægari kvíða í aðstæðum af þessu tagi að fylgjast vel með eigin neyslu og jafnvel draga úr eða hætta þar til þeir sigrast á félagsfælninni. Félagsfælni getur líka leitt til þunglyndis og þá er einnig mikilvægt að leita sér aðstoðar.

Líkamleg einkenni sem eru algeng í félagsfælni eru meðal annars að roðna, svitna, skjálfa eða stama. Algengt er að þessi líkamlegu einkenni ýti undir enn meiri kvíða því oft óttast fólk að aðrir munu taka eftir þeim og dæma það fyrir einkennin. Þessar áhyggjur eru oftast óraunhæfar og roðinn eða svitinn ekki nægur til að aðrir taki eftir því, auk þess sem flestir myndu ekki spá mikið í þessum líkamlegu einkennum ef þeir tækju eftir þeim. Í félagslegum aðstæðum geta einstaklingar með félagsfælni einnig upplifað mikið óöryggi eða að hugurinn tæmist. Fólk sem upplifir þessi einkenni og á erfitt í félagslegum aðstæðum, hvort sem þær eru margar eða fáar, ætti ekki að hika við að leita sér aðstoðar.