Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Afmörkuð fælni

Afmörkuð fælni er mikill ótti eða hræðsla við ákveðna hluti eða fyrirbæri sem er ekki í samræmi við það sem vekur ótta eða hræðslu. Á ensku kallast þetta phobia en í daglegu tali er það orð oft notað yfir hræðslu sem er mun vægari en í raunverulegri fælni. Algeng dæmi um afmarkaða fælni eru fælni gagnvart köngulóm, hundum, geitungum, uppköstum, lyftum, flugvélum, óveðri eða því að vera hátt uppi. Fólk með fælni reynir að forðast þessi fyrirbæri eftir bestu getu eða þraukar í gegnum þau með miklum kvíða, ótta eða vanlíðan. Sem dæmi gæti einstaklingur með geitungafælni átt erfitt með að vera úti á sumrin, haldið öllum gluggum lokuðum, forðast útilegur eða hvers kyns aðstæður þar sem geitungar gætu verið. Það er þannig mikill stigsmunur á því að þykja óþægilegt að vera nálægt geitungum og að vera með geitungafælni, þó að fyrra dæmið sé oft ranglega kallað phobia.

Kvíðaeinkenni sem eru algeng í afmarkaðri fælni eru hraður hjartsláttur, aukin svitamyndun og að finnast maður ekki geta hreyft sig. Einnig fá sumir einstaklingar kvíðakast þegar þeir sjá það sem þeir hræðast. Í afmarkaðri fælni myndast vítahringur þar sem forðunarhegðun (til dæmis að fara ekki út á sumrin, koma aldrei nálægt hundum eða fara aldrei í lyftu) viðheldur kvíðanum og jafnvel eykur hann með tímanum. Með því að forðast aðstæðurnar eða fyrirbærin þá finnur fólk fyrir létti í stuttan tíma en áhyggjurnar og óttinn eru í raun enn til staðar. Ef fólk nær að þrauka í aðstæðunum þá áttar það sig oftast á því að það er ekkert að óttast og kvíðinn minnkar hægt og rólega. Þannig getur einstaklingur með vægan kvíða sem minnir á afmarkaða fælni, til dæmis gagnvar köngulóm, dregið úr kvíðanum með því að þrauka í kringum köngulær og venja sig á nálægð við þær. Oft þarf fólk að fá aðstoð við að draga úr kvíða, sérstaklega ef kvíðinn og óttinn er orðinn svo mikill að um afmarkaða fælni er að ræða. Meðferðin við afmarkaðri fælni er nokkuð einföld og oft þarf einungis örfáa tíma hjá sálfræðingi til að komast yfir hana.