HUGUÐ

Tryggvi

Í grunninn tilfinningaflækja sem þarf að leysa

Læknaneminn og glímukappinn Tryggvi Ófeigsson er 26 ára og deilir upplifun sinni sem fíkill. Eftir mörg ár í neyslu sem einkenndust af lágu sjálfstrausti var hann við það að kasta lífi sínu á glæ. Eftir meðferð varði Tryggvi heilu ári í mikla sjálfsvinnu þar sem hann byggði líf sitt upp frá grunni. Án fjölskyldu sinnar og þeirra úrræða sem honum buðust væri Tryggvi ekki á þeim stað sem hann er í dag.

„Þegar ég byrjaði í menntaskóla var þungt yfir mér, ég var kvíðinn og mjög óttasleginn unglingur. Þetta kom út sem lítið sjálfstraust og hungur í samþykki frá jafnöldrum mínum. Ég byrjaði að drekka þegar ég var 16 ára og fann strax hvað það gerði mikið fyrir mig. Ég fann fyrir miklu sjálfsöryggi undir áhrifum áfengis sem var andstæðan við það hvernig ég var í daglegu lífi. Öll vandamálin hurfu þegar ég var í vímu; ég upplifði engan kvíða og gat verið alveg ég sjálfur. Fljótlega eftir að ég byrjaði að drekka fór ég að neyta fíkniefna: e-pillna, amfetamíns, kókaíns, grass og seinna meir læknadóps. Á endanum var það bara hvað sem ég gat komist í hverju sinni. Menntaskólaárin einkenndust af algjöru rugli og á þriðja árinu mínu var ég rekinn úr skóla.“

Fyrsta meðferðin skildi eftir fræ

Það var fjölskyldan hans Tryggva sem greip inn í og sendi hann á Vog í sína fyrstu meðferð þegar hann var tvítugur. „Ég fór ekki í meðferð fyrir sjálfan mig heldur til að friða allt heima fyrir. Fræðsluprógrammið á Vogi skildi samt eitthvað eftir hjá mér. Ég fræðist um það hvað það þýðir að vera fíkill, út á hvað sjúkleikinn gengur. Ég var samt ekki að fara að hætta. Ástæðan var sú að það var einfaldara að hætta ekki. Þannig að ég kem heim, flyt svo stuttlega eftir það inn í einbýlishús með fimm vinum sem voru í sama standi og ég. Það gefur að skilja að það endaði ekki vel. Við tók ár þar sem ég keyrði mig gersamlega í rusl. Ég var að henda lífinu mínu á glæ. Ég vissi það alveg en mér var í rauninni bara skítsama. Mér fannst lífið mitt ekki vera neins virði lengur, fannst ekkert skipta máli. Mér datt ekki í hug að gjörðir mínar hefðu áhrif á aðra líka. Ég læri seinna að það er svo sannarlega ekki rétt. Allt sem ég var að gera sjálfum mér hafði mikil áhrif á líf annarra. Getu þeirra til að lifa og starfa eðlilega.“

„Mér fannst lífið mitt ekki vera neins virði lengur, fannst ekkert skipta máli. Mér datt ekki í hug að gjörðir mínar hefðu áhrif á aðra líka.“

Trúði ekki að þetta væri lífið hans

Það var ekki fyrr en einn morgun, snemma sumars 2012, að Tryggvi vaknar allslaus og þunglyndur, hringir í vonleysi sínu á Vog og bókar pláss fyrir sig. „Ég man eftir þessum morgni. Ég var sjúklega bugaður, í fráhvörfum og átti engan pening. Ég er bara að gefast upp svo ég hringi á Vog. Það er eðli sjúkdómsins að vakna, timbraður eða búinn að gera eitthvað hræðilegt kvöldið áður með mesta móral sem manneskja getur ímyndað sér. En síðan færðu þér bara og þetta gleymist. Ég gleymdi því að ég hafi hringt, að ég hafi ætlað að breyta lífinu mínu.“

Rúmlega tveimur mánuðum eftir að Tryggvi hringir sig inn fær hann símtal frá Vogi um að hann sé kominn með pláss. Þá hafði hann legið heima heila helgi kaldsveittur í fráhvörfum að eigin sögn. „Þetta var mánudagurinn eftir verslunarmannahelgi sem ég fæ símtalið. Ég hafði legið einn heima heila helgi því ég átti engan pening til að fara á hátíð með vinum mínum. Allir dópsalar voru úr bænum og ég átti ekkert til að geta fengið mér. Ég lá í rúminu og hugsaði: Vá, ég trúi ekki að þetta sé líf mitt.

„Ég lá í rúminu og hugsaði: Vá, ég trúi ekki að þetta sé líf mitt.“

„Ég fer inn í seinni meðferðina mína með það í huga að ég þurfi bara að rétta líf mitt aðeins við svo ég geti byrjað að nota aftur sem fyrst. Ég var einbeittur að því að búa til pottþétt plan um hluti sem ég þyrfti að redda áður en ég gæti byrjað að nota. Hvar ætlaði ég að vinna? Hvernig færi ég að því að borga skuldir? En ég enda alltaf á sömu niðurstöðunni. Ég hef reynt þetta allt áður og það gekk ekki upp. Allt í einu hellist yfir mig sú sannfæring að ég muni aldrei aftur getað notað eiturlyf eða drukkið áfengi, mér eða öðrum að skapi.“

null

Heilt ár af sjálfsvinnu

Eftir seinni meðferðina tók við heilt ár af sjálfsvinnu, stofnunarfundum og endurhæfingu. Tryggvi segir að þetta ár hafi búið til grunninn að því lífi sem hann býr að í dag.

„Það tekur tíma að núllstilla sig. Það hljómar eins og ótrúlega mikill tími að eyða heilu ári en það var nauðsynlegt til að koma mér yfir þetta upprunalega vandamál sem var ótti og kvíði. Þessa tilfinningaflækju sem er fíkn og alkóhólismi. Eftir þessa endurhæfingu er ég búinn að gera það sem mér sýnist. Ég er enn að vinna markvisst að því að gera mig betri. Ég var rosalega heppinn að fjölskyldan mín ríghélt við bakið á mér. Það eru alls ekki allir sem búa að því. Þau voru tilbúin að gera allt til þess að koma mér aftur á lappir.“

„Ég byrjaði meðferðina með það hugarfar að ég gæti aldrei nokkurn tímann menntað mig aftur. Ég held að við ölumst öll upp haldandi það að okkur sé ætlað eitthvað magnað, að okkur sé ætla að afreka eitthvað. Ég var rosalega öflugur nemandi fram af því að ég fór að standa í einhverju rugli. Ég fékk mikið lof fyrir það, bæði í grunnskóla og í fyrri stigum framhaldsskóla, að mér gæti gengið mjög vel ef ég lagði eitthvað á mig. Svo þegar ég byrjaði að mennta mig aftur þá tók ég bara hænuskref – tók fyrst 10 einingar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og smám saman gekk þetta upp. Á seinustu önninni minni var ég að kenna krökkum sem áttu erfitt með að læra og ég útskrifast með fína einkunn og stóð uppi sem læknanemi. En það var klárlega erfitt að taka þetta skref, að fara aftur út í heilbrigt líferni. Takast á við eitthvert venjulegt verkefni sem ég var bara búinn að gefast upp á.“

null

Léleg sjálfsmynd stærsta vandamálið

Tryggvi segir að meiri vitneskju þurfi í samfélaginu um þennan sjúkdóm. Í stað þess að hugsa um fíkla sem aumingja og dópista þurfum við að líta á þá sem sjúklinga.

„Umræðan í samfélaginu miðast út frá því að fíklar séu bara dópistar. Vissulega erum við fólk sem notar eiturlyf en það er ekki þar með sagt að það sé það eina sem við erum. Hafandi þessa mynd af sjálfum sér, farandi inn í meðferð er stærsta vandamálið. Að fara eitthvert og reyna að vera betri hugsandi það að þú sért bara aumingi. Það er það sem umræðan segir þér, það sem bíómyndir segja þér, það sem allt samfélagið segir þér. Þessu þurfum við að breyta.“

“Í stað þess að hugsa um fíkla sem aumingja og dópista þurfum við að líta á þá sem sjúklinga.“

„Fíkn er samansafn af meinsemdum sem ekki er hægt að skilgreina sem eitthvað eitt. Í öllum þeim tilfellum sem ég veit af, þar með talið mínu eigin, þá þarf að leysa einhverja innri tilfinningaflækju til þess að leysa raunverulega vandamálið.“

null

Glíman besta hugleiðslan

Í dag samanstendur lífið hans Tryggvi af læknisfræðinámi, starfinu sínu upp á geðdeild Landspítalans og glímuæfingum hjá Mjölni.

„Hreyfing er lykilatriði að andlegri vellíðan. Hugleiðsla og almenn núvitund hafa líka hjálpað mér mjög mikið og gera enn í dag. Þegar ég hugleiði þá upplifi ég engar áhyggjur yfir því sem ég er að fara að gera á morgun og ekki sektarkennd yfir því sem ég gerði í gær. Ég er ekki kvíðinn yfir verkefnum dagsins. Eitt besta form hugleiðslu fyrir mig er glíman. Það er ótrúlega erfitt að hafa áhyggjur af skólanum á meðan einhver er að reyna að kyrkja mig. Ég finn það, í hvert skipti sem ég fer á æfingu í Mjölni, að ég fer oft þangað inn með allar mínar áhyggjur og eftir æfingu labba ég út án þeirra.“

„Fyrir einhvern sem er að pæla í að leita sér hjálpar myndi ég segja að númer eitt, tvö og þrjú er að bíða ekki með það. Fyrir fólk eins og okkur, sem er langt leitt, þá veistu ekkert hvort þú verður lifandi eftir viku. Hvort sem það verður of stór skammtur eða þú bara gefst upp og keyrir fram af klett. Umkringdu þig fólki sem er á sömu leið og sérstaklega fólki sem er lengra komið og lærðu af því.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni fíknar til boða hér.

Hrefna Huld

Það koma betri tímar

Lesa meira