Sonja Björg
Þú átt rétt á þínum tilfinningum
Formaður stúdentafélags Háskólans í Reykjavík, Sonja Björg Jóhannsdóttir, deilir upplifun sinni að alast upp með móður sem glímir við þunglyndi. Erfiðast var að sættast við þá raun að þú neyðir engan til þess að leita sér hjálpar. Hún segir mikilvægt fyrir aðstandendur að vera til staðar en einnig að finna sín mörk. Það skyggir ekki á vandamál annarra að ræða eigin vandamál, allir eiga rétt á aðstoð og samfélagið þarf að bregðast við með auknu aðgengi óháð efnahag.
„Þegar ég er 18 ára þá reynir mamma að svipta sig lífi. Það er eins og tjöldin hafi fallið eða dregið hafi verið frá gardínum fyrir augunum á mér. Það var mikið áfall en á sama tíma vissi ég að það var eitthvað sem horfðist ekki í augu við. Ég upplifði mikið brot á trausti, mikla reiði og biturð í langan tíma,“ segir Sonja Björg Jóhannsdóttir sem deilir upplifun sinni sem aðstandandi einstaklings með þunglyndi.
Sonja ólst upp á Akureyri ásamt foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Hún hefur alla tíð verið mikil félagsvera, sótt í nemendafélagsstörf og sinnt áhugamálum sínum af kappi. Í dag er hún nýútskrifuð úr sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Þar gegnir hún formennsku stúdentafélags háskólans. Stærsta baráttumál félagsins var að koma á ókeypis sálfræðiþjónustu fyrir nemendur og gekk stefnumál þeirra eftir í byrjun árs. „Þetta var áherslumál okkar í stjórn SFHR frá því að við tókum við embættum og erum við rosalega stolt af því að hafa komið þessu í gegn,” segir Sonja.
Vildi hafa mömmu góða
„Mamma var ung þegar hún átti mig og veiktist snemma af þunglyndi. Það var allt annar tíðarandi þá og miklir fordómar fyrir því að leita sér geðhjálpar. Hún tók allt á hörkunni og var ótrúlega dugleg, útskrifaðist úr viðskiptafræði, sjúkraliðanum og gerðist síðan framhaldsskólakennari,“ segir Sonja sem tók snemma mikla ábyrgð á heimilinu. „Ég var mikið ein heima að sjá um bræður mína og gekk í öll hlutverk heimilisins. Ég man að ég vildi alltaf hafa mömmu góða og vera til staðar fyrir hana svo hún leitaði mikið til mín. Ég bauð vinum mínum ekki heim ef hún var að eiga slæman dag og það komu dagar þar sem hún var mjög skapill, sem er hluti af sjúkdómnum. Mér datt þó aldrei í hug á þeim tíma að mamma væri veik eða að hún gæti sótt hjálp.“
„Mér datt þó aldrei í hug á þeim tíma að mamma væri veik eða að hún gæti sótt hjálp.“
Sonja á eina minningu frá því hún var níu ára sem lýsir hennar upplifun á æskuárunum. „Mamma var að gefa yngsta bróður mínum brjóst og ég kom að henni grátandi að biðja mig um að skilja sig ekki eftir eina, ég tók við bróður mínum og hjálpaði honum að ropa og lagði hann niður. Á sama tíma var ég að passa eldri bróðir minn, þá sex ára, og sjá til þess að hann væri inni í stofu á meðan að horfa á spólu. Á þeim tíma þótti mér þetta ekkert óeðlilegt en litið til baka sé ég að þetta var of mikil ábyrgð á herðar lítillar stelpu.“
Skortur á fræðslu
„Það skortir gríðarlega fræðslu um veikindi af andlegum toga. Hefði ég þekkt til einkennanna og hefðu verið skýr úrræði um hvert ég gæti leitað þá hefði það breytt miklu. Ég var orðin 18 ára og mamma komin inn á geðdeild þegar ég fyrst veit að hún er þunglynd. Það kom alveg flatt upp á mig eins skringilega og það hljómar.“
Við tóku ár mikillar vanlíðanar. Sonja upplifði mikla reiði og vanmátt gagnvart aðstæðum. Mörg ár af meðvirkni og bældum tilfinningum tóku sinn toll. „Ég var mjög neikvæð gagnvart öllu sálfræðiferlinu sem mamma var að ganga í gegnum. Mér þótti hún of snemma útskrifuð, ég var reið út í sálfræðinga og lífið almennt. Eftir á að hyggja var það besta sem gat komið fyrir mömmu að fara á geðdeild. Þetta var einungis mín útrás fyrir óuppgerðum tilfinningum og vandamálum. Ég fann ég gat ekki verið til staðar fyrir neinn nema sjálfa mig og ég átti eftir að brjóta mig niður fyrir það.“
Eigum öll rétt á aðstoð
Sonja segist hafa fundið til sektarkenndar gagnvart þeim hugsunum sem spruttu. Hún segir þörf á aukinni umræðu um aðstandendur þeirra sem veikir eru á geði. „Þetta er svolítið eins og í flugvélunum. Fyrst þarftu að setja súrefnisgrímuna á sjálfa þig áður en þú setur hana á annan. Sem aðstandandi þá er mikilvægt að muna að þú neyðir engan til þess að leita sér hjálpar. Einstaklingurinn þarf að vilja það sjálfur og það getur verið erfiðasti parturinn. Að sjá þú gerðir allt sem þú gast og finna hvar þín mörk liggja.“
„Sem aðstandandi þá er mikilvægt að muna að þú neyðir engan til þess að leita sér hjálpar.“
Aðspurð um hvað hún myndi ráðleggja fólki í sömu stöðu segir hún mikilvægast að muna að allir eigi rétt á sínum tilfinningum. „Lengi leið mér eins og mín depurð væri óviðkomandi. Það er hættulegt að bera sig saman við áföll annarra og gera lítið úr sinni upplifun og byrgja tilfinningarnar inni.“ Hún segir þetta eiga við um lífið almennt. „Við eigum ekki að metast við hvort annað, hvorki vini né fjölskyldu. Við eigum öll rétt á aðstoð þegar okkur líður illa og okkur má líða illa. Þú skyggir ekki á vandamál annarra með því að ræða þín eigin.“
Mikilvægt að tjá tilfinningar
Sonja flutti til Reykjavíkur að stunda nám við Háskólann í Reykjavík árið 2014. Hún taldi tímabært að vinna í sjálfri sér og leitaði til sálfræðings. „Ég greindist með þunglyndi og þá hjálpaði mikið að grípa inn í með sálfræðimeðferð. Það eru margir þættir sem hafa hjálpað mér í gegnum tíðina en allir eiga þeir það sameiginlegt að tjá sig um tilfinningar. Ég leitaði til vinkvenna og kennara míns, ég yrkti ljóð, fór til sálfræðings og skráði mig á Dale Carnegie námskeið.“ Þar sagði Sonja fyrst sögu sína opinberlega. „Ég fann að eitthvað small innra með mér. Ég upplifði einskonar æðruleysi og sátt gagnvart aðstæðum. Mér tókst að loka á þessa biturð, sem ég bar svo lengi.“
Vill vinna með börnum
Sonja segir þær mæðgur nánar í dag og að þær leiti til hvor annarrar. „Mér þykir svo vænt um hana og hún er uppáhalds manneskjan mín í lífinu. Í dag er samfélagsumræðan mun opnari og það hefur hjálpað mér og mömmu. Til að mynda hvatti ég hana til þess að leita til Stígamóta, mikilvæg samtök þar sem jafnræði ríkir og ekkert kostar að leita sér aðstoðar. Því miður er sálfræðiþjónusta mjög dýr og ekki allir sem hafa kost á henni.“
Aðspurð hvað framtíðin beri í skauti sér segist Sonja hafa áhuga á að starfa með börnum í framtíðinni. „Uppeldi og aðstæður móta okkur sem einstaklinga og skýra gjarnan hegðun okkar. Mín ástríða í lífinu eru að öll börn fái jöfn tækifæri til menntunar og hafi aðgengi að allri þeirri aðstoð sem þurfa þykir. Skólasálfræðingar á öllum skólastigum er eitthvað sem verður að innleiða. Ég sé fyrir mér að starfa með börnum sem barnasálfræðingur eða í öðru starfi því tengdu. Ég vil taka þátt í að móta samfélag það sem við tölum opinskátt um tilfinningar okkar, upplifun og upprætum fordóma. Við höfum öll rétt á okkar tilfinningum og þurfum að læra að ráða úr vandamálum okkar í stað þess að bera skömmina.“
Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.
Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni þunglyndis til boða hér.
Það er hægt að fá hjálp