HUGUÐ

Ragnar

Lærði að taka ábyrgð á sjálfum mér

Ragnar Jón Ragnarsson hefur glímt við geðhvarfasýki frá tvítugsaldri. Löng tímabil maníu og þunglyndis einkenndust af ranghugmyndum og sjálfsvíghugsunum. Samtöl við geimverur og brottflutningur til Hríseyjar með fjölskyldunni fylgdu oflætinu en alvarlegt þunglyndi knúði hann til þess að leita sér hjálpar. í kjölfar mikillar sjálfsvinnu hefur Ragnar lært inn á geðsjúkdóminn og með góðri rútínu fylgdi ást og ný sýn á fegurð hversdagsleikans.

„Ég heiti Ragnar en er alltaf kallaður Humi, af öllum nema mömmu,“ segir Humi og hristir hausinn við tilhugsunina um uppruna gælunafnsins. „Þetta var einhver fíflaskapur sem festist.“

Humi lýsir sér sem hefðbundnum náunga í Hlíðunum þar sem hann býr ásamt konunni sinni Hólmfríði Helgu og börnunum sínum tveimur, Höskuldi Sölva og Snæfríði Eddu. Áhugamál hans snúa að tónlist og smíðum. „Góðu leifarnar af maníu er að ég get verið afkastamikill þegar ég fæ áhuga á einhverju. Ég hef tamið mér að fylgja eftir þeim hugmyndum sem ég fæ,“ segir Humi og viðurkennir að hann sé kannski ekki svo hefðbundinn, hann hefur glímt við geðhvarfasýki frá tvítugsaldri.

Þrátt fyrir löng veikindi þá fékk Humi fyrst greiningu fyrir fjórum árum síðan, eða svo áætlar hann. „Ártöl og tímalínur eru ekki mín sterkasta hlið. Þetta rennur allt í eitt. Með geðhvarfasýki þá eru langir kaflar sem maður man lítið eftir og ég á erfitt með staðsetja hlutina á tímalínu.“

null

Þunglyndið kom snemma fram

Humi ólst upp í norðurbænum í Hafnarfirði og á hlýjar minningar þaðan. „Það var gott að alast upp en grunnskólinn var ekki dans á rósum. Ég var lagður í einelti og var rosalega inni í mér sem krakki. Kannski tengdist það því að ég var veikur á geði. Yfirleitt er talað um að geðsjúkdómar komi fram á bilinu 20 til 25 ára. Ég held þeir greinist bara þá en einkennin koma fram fyrr. Mér líður stundum eins og ég þurfi að réttlæta slíkar staðhæfingar en þetta eru mínar tilfinningar og mín upplifun. Það komu löng tímabil sem mér leið illa og ég vildi ekki taka þátt í neinu.“ Það sem hjálpaði Huma var góð félagsmiðstöð og frábærir vinir. „Gildi félagsmiðstöðva er svo miklu meira en því er gefið. Þarna vann yndislegt fólk sem ég fæ hlýtt í hjartað við að sjá enn í dag.“

„Á tímabili fór ég í bíltúra austur í Heiði að tala við geimverur en sagði konunni minni ekkert frá því.“

Lærði að fela tilfinningar sínar

Humi þróaði snemma með sér hæfileikann að fela tilfinningar sínar. Það var hans varnarleið til þess að ráða við aðstæðurnar í samfélagi þess tíma. „Ég hafði ekki hugmynd um hvað geðsjúkdómar voru og eins kjánalegt og það hljómar þá vissi ég ekki að mér mætti líða illa. Það er svo inngróið í mann að taka allt á hörkunni.“

„Á einhverjum tímapunkti, örugglega mörgum, þá hefði ég haft gott af því að svara hreinskilið þegar einhver spurði hvernig mér líði. Það komu svo löng tímabil sem ég vissi ekkert hvað var að gerast. Ég fæ kökk í hálsinn við að tala um það,“ segir Humi og bætir við að lítil umræða hafi verið um geðsjúkdóma á hans uppvaxtarárum. „Í menntaskóla frétti ég af skólafélaga sem glímdi við þunglyndi og féll af eigin hendi. Það var afar sorglegt mál. Ekkert í þeirri sögu small þó hjá mér, að ég gæti verið eins, þó svo hugsanir um að svipta mig lífi væru farnar að láta á sér kræla.“

null

Talað við geimverur í Vaðlaheiði

Geðhvarfasýki í tilfelli Huma lýsir sér í syrpum af maníu og þunglyndi. Sjálfur hafði hann miklar ranghugmyndir um sjúkdóminn. „Þetta er ekki svo einfalt að þú farir niður í þunglyndi og upp í maníu. Stundum er ég þunglyndur en samt manískur á sama tíma. Þá er ég mjög inni í mér og vil ekki vera á meðal fólks. Á sama tíma er ég með miklar ranghugmyndir í gangi og sjálfsblekkingu.“ Hæfileikinn að fela sjúkdóminn var orðinn partur af honum. „Það er talað um fúnkerandi alkóhólista og ég var fúnkerandi geðsjúklingur. Ég mætti til vinnu en gerði það á hnefunum. Á tímabili fór ég í bíltúra austur í Heiði að tala við geimverur en sagði konunni minni ekkert frá því.“

Humi segist eiga margar maníusögur líkt og hann kallar þær. Sumar fyndnar, aðrar ekki. „Ég hef gert hræðilega hluti í maníu sem höfðu slæmar afleiðingar. Mér tókst einhvern veginn að sigla naumlega undir ratarinn að vera ekki lagður inn á geðdeild. Til þess að vera lagður inn þarftu að vera kominn mjög langt inn í veruleikafirringu, það stafi ógn af þér eða þú hreinlega brjótir lögin. Þú ert ekki sviptur sjálfræði svo auðveldlega.“

„Utan frá þá kom ég fyrir sem mjög duglegur og ævintýragjarn náungi.“

Lengsta og alvarlegast manía Huma hófst þegar þau Hólmfríður áttu von á sínu fyrsta barni árið 2009. „Ég stóð í þeirri trú að manía og þunglyndi triggeruðust bara af slæmum áföllum, þá eðilega sveiflast geðið. Ég áttaði mig ekki á því að jákvæð áföll, eins og þær fréttir að þú eigir von á barni, sveiflar geðinu ekkert síður. Því fylgdi svo ofboðsleg gleði og spenna og ég fór að missa tökin. Manían sem þá tók við stóð yfir í um tvö ár og geðrof fylgdi í kjölfarið.“

Flutti til Hríseyjar í maníu

„Skömmu eftir að dóttir mín fæðist fæ ég þá hugmynd að flytja til Hríseyjar, við fjölskyldan. Mér hefur oft tekist að sannfæra Hólmfríði í alls kyns vitleysu, en ætli það sé ekki ástin?“ segir Humi og hlær. „Í Hrísey vaknaði ég klukkan 6 á morgnana og svaf almennt bara tvær til þrjár klukkustundir á nóttunni. Ég vaknaði og fór að baka, og ég bakaði og bakaði. Ég fór í göngutúra, ég gerði við húsið, ég smíðaði. Utan frá þá kom ég fyrir sem mjög duglegur og ævintýragjarn náungi.“

Fjölskyldan bjó í Hrísey í eitt ár og segir Humi ástandið fara versandi þaðan. Löng tímabil þunglyndis og sveiflukenndrar maníu leiddu til geðrofs. „Það fór allt að fjara undan, fjölskyldan, háskólinn og vinirnir. Ég fór í raun í geðrof sem varði í langan tíma,“ segir Humi en áður hafði hann ákveðna staðalímynd á hvað geðrof væri. „Mín hugmynd um geðrof var að standa í slopp á Miklubrautinni og segja: „Ég er Napóleon!“. En geðrof er í raun það að missa tengslin við raunveruleikann. Það myndast rof á þínum veruleika og allra hinna. Ég fór að byggja allar mínar ákvarðanir út frá mínum hugarórum sem ég hafði skapað.“

„Það tók mig langan tíma að komast úr geðrofinu. Heilinn er búinn að búa sér til heim, taka ákvarðanir út frá honum. Þú segir ekki skilið við hann svo auðveldlega né viðurkennir fyrir sjálfum þér að þú hafir rangt fyrir þér. Það er margt sem gerðist á þessum tíma sem ég er ekki tilbúinn til þess að tala um. Ég hef eytt löngum tíma í að hugsa um hvað ég hefði getað gert öðruvísi. Ég sit samt eftir með sjálfum mér og þarf að taka ábyrð á mér og því sem ég er. Sættast við það sem ég ekki fæ breytt en á sama tíma axla ábyrgð á því. Ferlið að fyrirgefa sér er það veigamesta.“

null

Greindist með þunglyndi

Það var þunglyndið sem dreif Huma til þess að leita sér hjálpar. „Ég leitaði til heimilislæknis sem í góðri trú setti mig á þunglyndislyf en þau eru fyrir þunglynda, ekki geðhvarfasjúka. Við tók hörmulegur tími þar sem ég var algjörlega flatur og sýndi engar tilfinningar.“

Huma grunaði aldrei að um geðhvarfasýki væri að ræða. Það var ekki fyrr en þau hjónin horfðu saman á heimildamynd um Stephen Fry og hans geðhvarfasýki sem kviknar á einhverjum bjöllum hjá Hólmfríði. „Í lok myndarinnar snýr hún sér að mér og spyr hvort ég gæti mögulega verið með geðhvarfasýki. Þá kom fram skömmin í mér. Ég væri nú kannski þunglyndur en ekki með geðsjúkdóm.“

„Þá kom fram skömmin í mér. Ég væri nú kannski þunglyndur en ekki með geðsjúkdóm.“

Orðin sátu þó eftir í Huma svo hann leitaði sér sálfræðihjálpar skömmu síðar. „Hann greinir mig með geðhvarfasýki en setur mig af einhverjum ástæðum ekki á lyf. Á þessum tímapunkti var ég svo djúpt sokkinn að það þurfti verulega að grípa inn í, sálfræðimeðferðin náði einfaldlega ekki til mín. Það var ekki fyrr en ég var alvarlega að íhuga að svipta mig lífi sem ég hringi örvæntingarfullur upp á geðdeild og spyr hvort eitthvað sé hægt að gera fyrir mig, hvað sem er.“

Geðdeildin markaði þáttaskil

Svörin sem Humi fékk voru að án tilvísunar væri ekkert hægt að gera, eða í minni hans er það svo. Í samtalinu má greina fyrir óöryggi á köflum um hvenær og hvernig ákveðin atvik áttu sér stað. „Ég mætti í opinn tíma á læknavaktinni á Akureyri og lét allt gossa. Ég væri alvarlega að íhuga að svipta mig lífi og það þyrfti að gera eitthvað núna. Karlgreyið sem tók á móti mér tafsaði og sagði mér að koma aftur á morgun. Daginn eftir var ég kominn með tilvísun og tíma hjá geðlækni tveimur vikum seinna.“

Humi segir léttinn gríðarlegan að vera kominn með lækni og greiningu en mikil sjálfsvinna var fram undan. „Það urðu þáttaskil í lífi mínu að hefja rétta meðferð, fá geðlækni og hefja mitt bataferli. Það var vel haldið utan um mig þegar ég komst að,“ útskýrir Humi en segir kerfið hafa mátt grípa fyrr í taumana. „Kannski á einhverjum tímapunkti hefðu þeir aðilar sem ég leitaði til mátt senda mig til geðlæknis. En hluti af sjúkdómnum mínum er hversu góður ég er í að fela hann. Ég vildi ekki viðurkenna maníuna mína, bara þunglyndið. Ástæðan var einföld: þegar ég fer upp þá er svo gaman og mikil orka. Ég er hrókur alls fagnaðar, ótrúlega duglegur og afkastasamur. Partur af mér vildi halda í þær.“

null

Daglegar ferðir í Kringluna

„Í dag fer ég nánast ekki í maníu, nema litlar hypo-maníur. Þá kannski vaki ég lengur og horfi á myndbönd á netinu um hvernig á smíða eitthvað, alvarlegra er það ekki. “ Á tveggja til þriggja mánaða fresti upplifir Humi þunglyndi sem varir í nokkra daga. Hann segist farinn að þekkja inn á sjálfan sig og veit oftast hvenær von er á þeim. „Ég mæti ekki til vinnu þessa daga. Ég er ótrúlega þakklátur vinnuveitanda mínum sem sýnir mér umburðarlyndi. Styrkleikar mínir fá að njóta sín og veikleikum mínum sýndur skilningur.“

Humi á sér góða rútínu þegar á depurðinni stendur. Hún þjónar sem einskonar prófraun á því hvar hann stendur. „Ég fer á hverjum degi í göngutúr í Kringluna og fæ mér kaffi. Ég fer þá með heyrnartól, húfu og kannski hettu á höfðinu og kanna hvaða áhrif það hefur á mig að vera í kringum fólk. Það góða við Kringluna og margmennið er að þú ræður hversu félagslyndur þú ert. Ef ég er kominn á þann stað að vilja heilsa fólki og horfa í augun á þeim þá veit ég að ég allur að braggast.“

Þurfum að ræða sjálfsvíg

Í dag er Huma umhugað að auka umræðuna um geðsjúkdóma. „Þegar ég lít til baka þá er ég þakklátur fyrir að vera á lífi. Við verðum að ræða meira um sjálfsvíg og við þurfum að geta talað um tilfinningar okkar. Það var rosalega stór biti fyrir mig að læra að svara með sanni hvernig mér líður án þess að finnast ég vera að ýta áhyggjum mínum á einhvern annan. Við þurfum að viðurkenna ferlið en ekki bara afleiðingarnar, gráa svæðið á milli þess að líða vel og vera hreinlega í sjálfsvígshugleiðingum. Ég held að margir óttist viðbrögð fólksins í kringum sig við að ræða þessa hluti, þú verðir sendur á geðdeild og megir ekki umgangast hnífa og skæri. Það gerir engum gagn að skapa dramatík.“

„Ég get tekið ábyrgð á því að hvernig pabbi ég er í dag og verið faðirinn sem börnin mín eiga skilið, ég sé til staðar og yfir höfuð með.“

„Í mínu tilfelli þá er sjálfsvíg eins og svartur hundur á öxlinni á mér sem ég hef lært að lifa með. Stundum heyri ég ekkert í honum en stundum lætur hann á sér kræla. Þegar það gerist þá ræði ég við mína nánustu, geri þeim grein fyrir líðan minni og það sé engin þörf á að hafa áhyggjur en ég láti vita ef svo þróast.“

Fegurðin í hversdagsleikanum

„Ég hef lært að taka ábyrgð á sjálfum mér í dag. Það er mikilvægt fyrir mig að muna að ég sé lasinn eins leiðinlegt og það hljómar. Ég þarf að muna að taka lyfin mín og passa að sveifla ekki geðinu í burtu frá mér. Þess vegna held ég strangri rútínu, vakna alla daga á sama tíma, drekk ekki áfengi eða fer út að djamma. Ég hélt alltaf að líf í reglu yrði leiðinlegt og ég yrði leiðinlegur gaur en fegurðin er í hversdagsleiknum. Ég get tekið ábyrgð á því að hvernig pabbi ég er í dag og verið faðirinn sem börnin mín eiga skilið, ég sé til staðar og yfir höfuð með. Fegurðin er í lífinu með börnunum mínum og konunni minni sem ég á allt að þakka.“

Viðmælendur komu fram í viðtölunum á sínum eigin forsendum. Viðtalið byggist á þeirra reynslu og upplifun. Vert er að minnast á að reynsla eru persónubundin og ekki allir upplifa sömu einkenni.

Einnig vill Hugrún benda á þau úrræði sem standa þeim sem telja sig upplifa einkenni geðhvarfasýki til boða hér.

Sonja

Þú átt rétt á þínum tilfinningum

Lesa meira