Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Geðrof

Hvernig lýsir geðrof sér?

Geðrof er ekki röskun í sjálfu sér heldur einkenni eða ástand sem getur komið fram af margvíslegum ástæðum. Geðrof getur komið fram í geðröskunum en getur líka komið fyrir án þess að um röskun sé að ræða. Geðrof er ástand í heila þar sem tengslin við raunveruleikann rofna að einhverju leyti. Þannig getur orðið erfitt fyrir einstakling með geðrof að greina á milli ímyndunar og raunveruleikans. Til að um geðrof sé að ræða þurfa ofskynjanir og/eða ranghugmyndir að vera til staðar sem orsakast ekki vegna áhrifa vímuefna. Ásamt ofskynjunum og ranghugmyndum er algengt að komi fram hugsanatruflun eða truflun í hegðun.

Ofskynjanir geta komið frá öllum skynfærum okkar (sjón, heyrn, lykt, bragð og snertiskyn). Heyrnarofskynjanir eru algengastar og þar má helst nefna rödd eða raddir. Einnig er hægt að upplifa rangskynjun þar sem skynjun er mistúlkuð, til dæmis að heyra í vindi og túlka það sem að einhver er að hvísla.

Ranghugmyndir eru hugmyndir sem fólk trúir að séu sannar en þær standast ekki raunveruleikann og aðrir í þeirra samfélagi og menningarheim trúa ekki á hugmyndina. Algeng þemu ranghugmynda eru til dæmis:

  • Ofsóknarhugmyndir (persecutory delusions)

Dæmi: FBI er að elta mig

  • Tilvísunarhugmyndir (delusions of reference)

Dæmi: Fréttirnar eru með skilaboð sérstaklega til mín

  • Stórmennskuhugmyndir (grandiose delusions)

Dæmi: Ég á að bjarga mannkyninu

  • Hugmyndir um hugsanaútsendingu eða ísetningu (thought broadcasting/insertion)

Dæmi: Allir geta lesið hugsanir mínar

Hugsanatruflun

Í geðrofi er algengt að truflun verði á flæði hugsunar sem birtist sem truflun í tali. Tal verður þá oft samhengislaust, of hratt eða of hægt. Manneskjan getur verið lengi að svara spurningum, svarar með tilbúnum orðum og fer hratt á milli efna sem eru aðeins lauslega tengd og verður því oft erfitt að skilja einstaklinginn.

Trufluð hegðun

Trufluð hegðun getur oft tengst ofskynjunum og ranghugmyndum sem einstaklingurinn er að upplifa. Einnig getur það lýst sér sem óreiða í hegðun, óróleiki, óviðeigandi félagsleg hegðun og stjarfa (halda sömu líkamsstellingu í langan tíma).