Geðklofi

Geðklofi er jafnan talinn vera alvarlegasti geðsjúkdómurinn, en hann leiðir til mikilla breytinga á hugsunum og hegðun. Geðklofi einkennist af tímabilum þar sem einstaklingar eiga erfitt með að gera greinarmun á eigin hugmyndum og raunveruleikanum. Algengi geðklofa er talið vera á bilinu 0,3% – 0,7%. Rannsóknum ber þó ekki saman hvort kynið sé líklegra til að þróa með sér sjúkdóminn. Hinsvegar er munur á kynjunum eftir því hvenær einkenni sjúkdómsins koma fyrst fram, en hann kemur fyrr fram hjá körlum (fyrri hluta tvítugsaldursins) heldur en konum (á síðari hluta tvítugsaldursins til þrítugs).

Einkennamynd geðklofa getur verið misjöfn meðal einstaklinga og misjafnt hvaða einkenni koma fram hjá hverjum og einum. Til þess að einstaklingur greinist með geðklofa þarf hann þó að uppfylla tvö af eftirtöldum einkennum í verulegan tíma á eins mánaðar tímabili og þarf eitt þeirra einkenna að tilheyra einkenniflokki 1, 2 eða 3:

  • Ranghugmyndir
  • Ofskynjanir
  • Trufluð hugsun eða tal
  • Trufluð hegðun
  • Neikvæð einkenni (t.d. minnkuð tilfinnatjáning)

Til þess að átta sig betur á því hvað þessi einkenni fela í sér er gott að gera greinarmun á ranghugmyndum og ofskynjunum.

Ranghugmyndir fela í sér rangtúlkun á einhverju sem þú skynjar í umhverfi sínu eða bjögun á skynjuninni. Einstaklingur með geðklofa getur skynjað þyt í laufi sem hvísl eða skilaboð frá einhverjum. Ákveðið ranghugmyndakerfi er einnig algengt hjá einstaklingum með geðklofa og getur það verið allt frá því að einstaklingurinn telur sig vera frægan eða einhverjum ákveðnum hæfileika gæddur eða jafnvel að einhver sé á eftir sér og vilji sér illt.

Ofskynjun hinsvegar vísar til þess sem þú skynjar sem er ekki raunverulega fyrir hendi. Skynjunin er skýr fyrir einstaklingnum, líkt og um venjulega upplifun sé að ræða. Algengasta ofskynjunin í geðklofa er að heyra raddir, efni þeirra getur verið misjafnt allt frá því að verið sé að vara einstaklinginn við einhverju öðru fólki eða atburðum, eða að raddirnar séu að skipa einstaklingnum fyrir eða hæðast að honum.

Trufluð hugsun felur í sér að hugsanir einstaklings með geðklofa víkja frá því sem eðlilegt getur talist og hugsanir geta komið og farið og virðast oft á tíðum án allra tengsla. Hið truflaða tal getur falið í sér að einstaklingar tala í rími, tali í kringum hlutina eða noti bullorð. Trufluð hegðun getur komið fram á ýmsa vegu, til dæmis er algengt að einstaklingar eigi í miklum erfiðleikum við að skipuleggja sig og eigi í erfiðleikum við athafnir daglegs lífs.

Þau einkenni sem eru talin upp hér að ofan eru jafnan kölluð “jákvæð einkenni geðklofa” en þá er átt við einkenni sem bætast við venjulega upplifun fólks. Á hinn bóginn er talað um “neikvæð einkenni geðklofa” og þá er átt við eitthvað sem einstaklingurinn missir. Þar er um að ræða til dæmis erfiðleikar við einbeitingu og athygli, skort á tjáningu tilfinninga, frumkvæði eða framtakssemi. Þessum einkennum má lýsa sem svo að einstaklingurinn verður sljór eða flatur. Þetta framtaksleysi getur orðið til þess að einstaklingurinn tekur ekki þátt í þeirri dagskrá sem honum er falin og gerir ekkert.

Við greiningu á geðklofa metur sálfræðingur, læknir eða hjúkrunarfræðingur alvarleika einkenna einstaklingsins. Hægt er að leita sér aðstoðar á heilbrigðisstofnunum en sé alvarleikinn mikill eða tengsl við raunveruleikann verulega skert er mælt með því að leita sér aðstoðar á Bráðamóttöku geðsviðs á Landspítalanum. Bráðamóttakan er opin milli 12 og 19 á virkum dögum og milli 13 og 19 um helgar. Einnig er hægt að fá samband í gegnum síma 543-2050.

Höfundur texta er Ingibjörg Johnson M.Sc. í réttarsálfræði og cand.psych nemi við Háskóla Íslands.