Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

GEÐHVÖRF

HVERNIG LÝSIR SÉR?

Geðhvörf skiptast í undirflokka sem einkennast þó af sveiflum í líðan og lífskrafti.

Bipolar I

Geðhvörf I fela alltaf í sér að minnsta kosti eina maníulotu og langflestir upplifa einnig tímabil þunglyndis. Hypómanía getur líka komið fram en hvorki hún né þunglyndi eru nauðsynleg fyrir þessa greiningu. Hægt er að lesa um hvernig þunglyndi lýsir sé HÉR og á sú lýsing líka við um þunglyndi í geðhvörfum. Manía er ótrúlega ólík á milli einstaklinga því einkennin eru ekki alltaf þau sömu og fólk sýnir mismörg einkenni. Einkenni geta líka verið þau sömu en komið fram með eðlislega ólíkum hætti. Til dæmis einkennist manía oft af aukinni marksækinni hegðun (þegar fólk vinnur að markmiðum) og það gæti verið allt frá því að skrifa bók og að því að reyna að finna lækningu á krabbameini. Helstu einkenni maníu, sem eru notuð til hliðsjónar við greiningu geðhvarfa, eru þessi:

 • Að vera í rosalega góðu skapi og líða vel, oft kallað hækkað geðslag.
 • Aukin orka og kraftur.
 • Óhófleg bjartsýni, uppblásið sjálfsálit eða trú á eigin mikilfengleika (jafnvel mikilmennskubrjálæði). Til dæmis er algengt að fólk sem upplifir þetta einkenni haldi að það sé með sérstök tengsl við einhvern frægan einstakling eða að það hafi eitthvert gífurlega mikilvægt hlutverk.
 • Minni svefnþörf, í maníu sefur fólk oft lítið sem ekkert og upplifir sig úthvílt og orkumikið eftir mjög lítinn svefn (2-3 klukkutíma jafnvel).
 • Mikið tal og meiri þörf til að halda áfram að tala, fólk verður jafnvel óviðræðuhæft því það hleypir öðrum ekki að og veður úr einu í annað þannig erfitt getur verið að fylgjast með. Stundum talar fólk hærra en vanalega, samhengislaust eða segir verulega óviðeigandi hluti.
 • Verulega hröð hugsun sem getur verið erfitt fyrir einstaklinginn sjálfan að halda í við. Hugsanir og hugmyndir hrannast upp. Þetta er oft ástæða þess að tal getur orðið samhengislaust og mjög hratt flæðandi.
 • Að truflast auðveldlega, eiga erfitt með að halda þræði og beina athygli sinni auðveldlega að hlutum í umhverfi sem skipta ekki máli.
 • Marksækin hegðun, þegar fólk vinnur gagngert að einhverju ákveðnu markmiði eða markmiðum. Markmiðin geta verið í skóla, vinnu eða persónulegu lífi.
 • Pirringur, óróleiki eða eirðarleysi. Pirringurinn getur verið tilfinningalegur eða líkamlegur. Fólk er oft mikið á iði og sýnir mikla virkni sem þjónar ekki neinum tilgangi (til dæmis að hreyfa fæturnar upp og niður stanslaust).
 • Aukin áhættuhegðun, til dæmis að keyra alltof hratt, spilað fjárhættuspil eða að halda framhjá.
 • Óraunhæfar hugmyndir um eigin getu og hæfileika, þegar þetta einkenni er mjög alvarlegt getur það jafnvel komið fram með geðrofseinkennum á borð við ranghugmyndir til dæmis þar sem fólk telur sig búa yfir yfirnáttúrulegum hæfileikum eða ofskynjanir, til dæmis að heyra raddir.

Bipolar II

Geðhvörf II fela alltaf í sér að minnsta kosti eina hypomaníu og eina þunglyndislotu. Ef einstaklingur er greindur með geðhvörf II og fær svo maníu sem er ekki hypomanía þá breytist greiningin yfir í geðhvörf I. Sumir halda að geðhvörf II séu eins og væg útgáfa af geðhvörfum I, þar sem hypomanía veldur ekki jafn mikilli truflun og er vægari en manía. Það er þó ekki hægt að líta á það þannig þar sem þunglyndisloturnar í geðhvörfum II geta verið mjög alvarlegar og valdið mikilli truflun. Ólíkt geðhvörfum I þá er þunglyndislota nauðsynleg fyrir greiningu á geðhvörfum II, þunglyndi er þannig meira einkennandi fyrir geðhvörf II og oft lengri og tíðari lotur en í geðhvörfum I. Í geðhvörfum II er algengt að fólk upplifi þunglyndiseinkenni samtímis hypómaníu og birtingarmynd þess getur verið þunglyndi með aukinni orku og pirring sem er mjög erfitt og jafnvel hættulegt ástand. Númerin I og II tákna því ekki mismikinn alvarleika heldur bara tvær mismunandi raskanir sem eru að sumu leyti líkar. Hægt er að lesa um hvernig þunglyndi lýsir sér HÉR og á sú lýsing líka við um þunglyndi í geðhvörfum. Einkenni hypomaníu eru þau sömu og í maníu en þau koma ekki fram með jafn ýktum hætti og vara oftast í skemmri tíma. Einkennin eru ekki nægilega alvarleg til að trufla verulega daglegt líf fólks, þeim fylgir aldrei geðrof og ekki þarf að leggjast inn á geðdeild vegna þeirra. Þó er um verulega breytingu á virkni og líðan að ræða og fólk er ekki endilega með sjálfu sér að öllu leyti.