Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Fyrir foreldra

Fyrir foreldra

Geðfræðsla eykur vitneskju um geðheilsu og geðræn vandamál og getur dregið úr fordómum. Geðfræðsla getur þannig aukið líkur á því að fólk leiti sér aðstoðar og dregið úr alvarleika vandans. Geðræn vandamál koma oftast fram á aldrinum 14-24 ára, þó þau geti hafist hvenær sem er á lífsleiðinni. Það er gífurlega mikilvægt að ungt fólk á þessum aldri hafi einhvern sem þau geta leitað til þegar þau upplifa erfiðar tilfinningar eða einkenni geðröskunar.

Eftirfarandi leiðbeiningar eru ætlaðar fyrir foreldra, forsjáraðila eða umönnunaraðila ungs fólks á aldrinum 14-18 ára. Þær útlista hvernig hægt er að nota fræðsluefni á síðunni til að auka vitneskju og opna á umræðuna um geðheilbrigði og geðraskanir heima fyrir. Þær geta átt erindi við annan aldur en 14-18 ára en fræðsluefnið sem þær vísa til er sérstaklega gert með það aldursbil í huga.

Lesið þessar leiðbeiningar áður en farið er yfir fræðsluefnið með ungmenni.

  1. Takið frá kvöldstund eða annan hentugan tíma til að fara yfir fræðsluefnið saman.
  2. Segið frá því sem þið eruð að fara að gera, þið ætlið að spjalla um geðheilsu og kynna ykkur geðraskanir sem eru algengar á þeirra aldri.
  3. Svaraðu spurningum eftir bestu getu. Það er eðlilegt að vita ekki svörin við öllu og þá er betra að segja það hreint út, frekar en að giska eða segja eitthvað sem gæti verið rangt. Ef mikill áhugi er fyrir því að komast að svari væri ráðlagt að reyna að finna það saman, leita til fagaðila eða finna áreiðanlegt svar með traustum heimildum.
  4. Opnið texta um geðheilsu og tilfinningar og lesið í gegnum hann saman (Geðheilsa).
  5. Því næst ætti að lesa saman í gegnum texta um sjálfsmat. Sjálfsmat).
  6. Algengustu raskanir ungs fólks eru þunglyndi og kvíðaraskanir. Það eru því þær raskanir sem mælt er með að allir lesi yfir saman. Kvíðaraskanir eru margar og því mikið kvíðafræðsluefni að finna á síðunni. Til að einfalda þá yfirferð er lagt til að lesa saman í gegnum almenna kynningu á kvíða sem og upplýsingar um félagskvíða þar sem hann er algengur á þessum aldri. (Þunglyndi, almennt um kvíða, félagskvíði).
  7. Allir ættu að lesa í gegnum efni um sjálfsskaða og sjálfsvígshugsanir. Það er mikil mýta að það sé skaðlegt að tala um sjálfsvígshugsanir, opin og hreinskilin umræða um sjálfsvígshugsanir getur bjargað lífum. (Sjálfsskaði og sjálfsvígshugsanir).
  8. Ef saga er um aðrar geðraskanir í fjölskyldunni, þá sérstaklega nærfjölskyldu, væri ráðlagt að lesa einnig saman í gegnum samsvarandi fræðsluefni.
  9. Fræðsluefni um átraskanir á erindi við marga og einnig er mælst til þess að lesa saman í gegnum almenna kynningu á þeim. Þá sérstaklega ef mikið er um megranir hjá ungmenninu eða í nærumhverfi þess. Íþróttaiðkun getur líka verið áhættuþáttur fyrir þróun átraskana. Tíðni átraskana er hæst í íþróttum á borð við fimleika, dans og bardagaíþróttir þar sem keppt er í þyngdarflokkum. (Átraskanir).
  10. Mikilvægt er að þekkja helstu úrræði og vita hvað er í boði þegar leita þarf aðstoðar. Eftirfarandi eru grunnupplýsingar um úrræði á Íslandi og mælst er til þess að lesa í gegnum þau saman. Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.
  11. Að lokum er gott að ítreka að ungmennið megi leita til þín ef því líður illa, er að upplifa erfiðar tilfinningar eða einhver af þeim einkennum sem þið eruð búin að ræða. Takið sérstaklega fram að ekki bara sé hægt að leita til þín heldur viljir þú að það leiti til þín í þessum aðstæðum.

Hvert skal leita? Grunnupplýsingar

  1. Til einhvers sem þú treystir. Fyrsta skrefið er yfirleitt að segja einhverjum sem þú treystir frá, hvort sem það er vinur, fjölskyldumeðlimur, námsráðgjafi, sálfræðingur eða annar fagaðili.
  2. Til heilsugæslu í þínu hverfi. Heilsugæslan er yfirleitt fyrsti viðkomustaður þegar fólk leitar sér aðstoðar við sálrænum vanda. Fyrsta skrefið er að bóka tíma hjá lækni sem getur hafið lyfjameðferð eða vísað máli þínu til annarra fagaðila. Á fjölmörgum heilsugæslustöðvum eru sálfræðingar sem læknir getur vísað máli þínu til.
  3. Á einkastofur sálfræðinga. Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands sal.is er leitarvél sem nota má til að finna sálfræðinga út frá staðsetningu, tungumáli, sérhæfingu og fleiri þáttum.
  4. Á einkastofur geðlækna. Fjöldi geðlækna veita lyfja- og samtalsmeðferð á einkastofum sínum.
  5. Til bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala. Þar starfa sálfræðingar, geðlæknar og hjúkrunarfræðingar sem eru sérmenntaðir í meðferð geðrænna vandamála. Bráðamóttaka er opin frá 12:00-19:00 á virkum dögum og frá 13:00-17:00 um helgar. Símanúmer bráðamóttöku geðsviðs er 543-4050. Í neyðartilvikum utan þessa tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. Utan höfuðborgarsvæðisins er ein sérhæfð geðdeild, á Akureyri. Geðdeild sjúkrahússins á Akureyri er með bráðalegurými og dag- og göngudeild. Sími sjúkrahússins er 463-0100. Einnig má hringja í neyðarnúmerið 112 í neyð.