Fíknisjúkdómar

Fólk notar áfengi og önnur vímuefni eða lyf af mörgum ástæðum. Talað er um vandamál þegar neysla áfengis, vímuefna og/eða lyfjaneysla er óviðeigandi þ.e. endurtekin notkun til að upplifa vímu, fást við streitu, og/eða til að breyta eða forðast aðstæður sínar. Óviðeigandi notkun getur líka einkennst af því að nota lyfseðilskyld lyf á annan hátt en læknir mælir með. Talað er um fíkn þegar fólk getur ekki lengur haft stjórn á hvötinni til að nota vímuefni eða lyf þrátt fyrir neikvæðar afleiðingar neyslunnar.

Fíknisjúkdómur er skilgreindur sem langvinnur heilasjúkdómur vegna þess að áfengi og vímuefni breyta heilanum og starfsemi hans og þessar breytingar geta verið langvarandi og leiða til stjórnleysis og breytinga á áhugahvöt og geðslagi.

Fíknisjúkdómur einkennist af:

  • Stjórnleysi þ.e. meira er notað af vímuefninu eða notað lengur en ætlað var, endurteknar tilraunir til að draga úr eða hafa stjórn á neyslunni án árangurs, og mikill tími fer í neysluna (að verða sér úti um áfengi/vímuefni, að nota áfengi/vímuefni, eða jafna sig eftir neyslu) og getuleysi til að halda viðvarandi bindindi
  • Fíkn/sterkri löngun
  • Alvarlegum afleiðingum þar neyslan veldur skertri getu til að sinna skyldum sínum, viðvarandi vandamála í samskiptum, dregið er úr félagslegum samskiptum og ástundun áhugamála, auk þess sem neyslu er haldið áfram þrátt fyrir að hún valdi truflun á heilsu, bæði á líkama og sál.
  • Erfiðleikum með að sjá veruleg vandamál í hegðun sinni og samskiptum við aðra

Líkt og í öðrum langvinnum sjúkdómum, skiptast gjarnan á tímabil bata og falla í fíknsjúkdómnum. Án meðferðar eða skuldbindingar í bataferli, er fíknisjúkdómurinn stig versnandi og getur leitt til fötlunar eða ótímabærs dauða.

Góðu fréttirnar eru þær að til er árangursrík meðferð.  Flestir sem leita aðstoðar og horfast í augu við vandann ná góðum árangri. Meðferðin getur verið mjög mismunandi, allt frá einu viðtali yfir í viðamikla meðferð sem stendur í vikur, mánuði eða ár. Rétta leiðin fer eftir því hversu alvarlegur vandi einstaklingsins er. Ef þú heldur að þú eða einhver sem þér þykir vænt um þurfi aðstoð vegna áfengis- eða vímuefnavanda talaðu þá getur þú leitað til göngudeildar SÁÁ og pantað þér viðtal eða haft samband í síma 530-7600 (sjá www.saa.is).

Texti unninn af Dr. Ingunni Hansdóttur yfirsálfræðingi hjá SÁÁ