Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Hvernig lýsir Orthorexía

Orthorexía er átröskun sem hefur ekki verið eins áberandi í umræðunni og t.d. lystarstol og lotugræðgi, enda nýrri af nálinni. Orthorexíu má lýsa sem þráhyggju fyrir hollu og hreinu mataræði. Einstaklingar með orthorexíu verða oft helteknir af ákveðnu mataræði og gæðum matarins, þeir leggja mikið upp úr því að undirbúa máltíðir og oft myndast ákveðin mynstur í áthegðun. Ólíkt einstaklingum með lystarstol eða lotugræðgi eru einstaklingar með orthorexíu ekki eingöngu með það markmið að grennast og léttast, þó svo það geti vissulega verið tilfellið, heldur er markmiðið oft að reyna að hámarka líkamlega heilsu og vellíðan en það fer út í öfgar.

Einstaklingar með orthorexíu einblína á hollt og hreint matarræði, svo mikið að það fer út í öfgar. Þeir forðast mat sem þeir telja vera óhollan t.d. mat sem inniheldur fitu, sykur, rotvarnarefni eða gervibragðefni. Sumir leita upplýsinga um ýmsar matategundir og uppruna þeirra t.d. hvort grænmeti hafi komist í tæri við meindýraeitur eða hvort mjólkurvörur hafi komið frá kúm sem hafa fengið fóður blandað með hormónum. Einnig skoða þeir pökkun vörunnar t.d. hvort matvælin geti mögulega innihaldið plastagnir og hvort umbúðir matvæla gefi nógu greinargóðar upplýsingar svo hægt sé að meta gæði ákveðins innihaldsefnis. Þessi þráhyggja fyrir gæði matarins er ekki vegna trúarlegra ástæðna, umhverfisástæðna eða vegna velferð dýra. Einstaklingar með orthorexíu geta eytt gríðarlegum tíma í að flokka mat, vigta mat, skrá niður hvaða mat þau hafa borðað í gegnum daginn og skipuleggja næstu máltíðir. Mikill ótti fylgir því að líkamleg og andleg heilsa muni versna ef borðaður er óhollur matur eða mataræði sem er ekki hreint.

Einstaklingar með orthorexíu sniðganga oft ákveðnar matartegundir. Það getur leitt til næringar- og/eða vítamínskorts. Ef þeir fara út af sporinu og borða mat sem þeir telja óhollan eða ekki hreinan, fyllast þeir oft skömm, hefja enn strangari matarvenjur eða byrja að fasta. Einstaklingar með orthorexíu eru í áhættu að einangrast félagslega þar sem margir þeirra trúa því að þeir geti aðeins viðhaldið matarvenjum sínum í einrúmi, þá verða þeir ekki fyrir utanaðkomandi áhrifum og þannig haft fullkomna stjórn.