Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Hvernig lýsir Átkastaröskun (e. Binge eating disorder)

Átkastaröskun eða lotuofát er átröskun sem einkennist af endurteknum átköstum. Átkast er þegar einstaklingur borðar mikið magn af mat á styttra tímabili en hann myndi venjulega gera. Á meðan á átkasti stendur upplifir einstaklingurinn stjórnleysi.

Orsök lotuofáts er óþekkt, hinsvegar eiga átköst sér oft stað eftir stífa megrun eða svelti. Einstaklingar með lotuofát nota að jafnaði ekki losunaraðferðir að loknum átköstum líkt og einstaklingar með lotugræðgi.

Helstu einkenni lotuofáts eru endurtekin stjórnlaus átköst. Einstaklingar með þessa röskun borða mjög mikið magn matar á stuttum tíma, yfirleitt í einrúmi, og upplifa mikið stjórnleysi á meðan á átkasti stendur. Einstaklingar verða gjarnan óþægilega saddir og eru oft ekki endilega svangir þegar þeir taka átkast. Þeir upplifa gjarnan andstyggð á sjálfum sér, sektarkennd og mikla vanlíðan. Einstaklingar með lotuofát nota að jafnaði ekki losunaraðferðir til þess að losa sig við matinn sem þeir innbyrtu í átkastinu.

Einstaklingar með lotuofát hafa yfirleitt lágt sjálfsálit og eru ósáttir við útlit sitt. Þeir nota gjarnan mat í þeim tilgangi að líða betur eða fá útrás fyrir neikvæðar tilfinningar.

Lotuofát getur haft mikil áhrif á líkamann en það getur leitt til sykursýki, hás blóðþrýstings, hjartasjúkdóma, hækkaðs kólesteróls og ýmissa krónískra verkja.