Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Hvernig lýsir Lotugræðgi (e. Bulimia nervosa)

Lotugræðgi er átröskun sem einkennist af endurteknum tímabilum ofáts ásamt sterkri tilfinningu fyrir því að vera búinn að missa stjórn á áthegðun. Hægt er að skipta tegundum ofáts í tvennt. Annars vegar er þegar einstaklingur hefur í raun borðað mjög mikið af mat (e. objective binge episode) og hins vegar þegar það er einungis tilfinning einstaklings að hann hafi borðað mjög mikið af mat þótt hann hafi ekki gert það (e. subjective binge episode). Eftir hverja lotu ofáts reynir einstaklingurinn að losna við þær hitaeiningar sem hann hefur innbyrt með því að nota ýmsar endurteknar og óhjálplegar losunaraðferðir til að koma í veg fyrir þyngdaraukningu. Algengi lotugræðgi er 1-3%. Lotugræðgi hefst oft á aldursbilinu 15 til 29 ára en upphaf röskunarinnar byrjar oft í kjölfar megrunatilrauna eða streitufullra atburða.

Einstaklingar með lotugræðgi borða innan ákveðins tíma (t.d innan tveggja klukkustunda) mikið magn matar sem er oft hitaeiningaríkur. Matarmagnið fer langt fram úr því sem flestir einstaklingar myndu almennt borða á sama tímabili við sambærilegar aðstæður. Einstaklingar finna fyrir stjórnlausri áthegðun á meðan á átkasti stendur og leiðir það oft til andstyggðar í eigin garð og þeir upplifa skömm. Ofát á sér oftar en ekki stað í einrúmi, jafnvel stundum að næturlagi þar sem einstaklingar með lotugræðgi skammast sín oft fyrir matavenjur sínar. Eftir ofát grípa einstaklingar með lotugræðgi til losunaraðferða til þess að hamla þyngdaraukningu. Aðgerðir á borð við framkölluð uppköst, óhóflega líkamsrækt eða ýktar föstur (t.d. að fasta í 24 klukkustundir) eru notaðar til þess að hreinsa út hitaeiningarnar. Átköstin og losunaraðferðir eiga sér stað að að minnsta kosti einu sinni í viku yfir þriggja mánaða tímabil. Sjálfsmat þeirra er óeðlilega háð líkamslögun og líkamsþyngd og þau upplifa oft mikinn ótta við að þyngjast.

Einstaklingar með lotugræðgi eru oft í eða yfir kjörþyngd en ekki í undirþyngd líkt og einstaklingar með lystarstol. Það getur því stundum verið erfitt fyrir aðra, sem umgangast einstaklinga með lotugræðgi, að sjá með berum augum að um átröskun sé að ræða. Einnkenni eða hegðun sem hægt að koma auga á er t.d. óhóflega mikil líkamsþjálfun, þegar einstaklingur fer reglulega á salernið eftir máltíðir og þegar keyptar eru brennslutöflur eða annað sem einstaklingur notar með það að markmiði að grennast. Lotugræðgi getur leitt til alvarlegs heilsubrests líkt og skemmda í vélinda, hjartsláttartruflana, nýrnasjúkdóma og tannskemmda.