Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Hvernig lýsir Lystarstol (e. Anorexia nervosa)

Lystarstol er átröskun sem einkennist af því að einstaklingar léttast meira en æskilegt er miðað við aldur og hæð. Einstaklingar með þessa röskun hræðast að þyngjast, jafnvel þegar þeir eru í undirþyngd. Þeir fara gjarnan í stífa megrun eða nota aðrar aðferðir til þess að léttast. Algengi lystarstols er 0,5% og upphaf algengast á aldrinum 14-18 ára.

Lystarstol einkennist af þremur meginatriðum.

  • Einstaklingur takmarkar fæðuinntöku sem leiðir til þess að einstaklingur verður léttari en æskilegt er miðað við kjörþyngd.
  • Einstaklingur óttast verulega að þyngjast eða verða feitur, jafnvel þó hann sé í undirþyngd.
  • Einstaklingur skynjar líkamsmynd eða þyngd sína á brenglaðan hátt. Hann byggir sjálfsmat sitt á þessari brengluðu líkamsmynd eða þyngd og hefur lítið innsæi í alvarleika lágrar líkamsþyngdar.

Til eru tvær tegundir lystarstols, takmarkandi gerð (e. Restricting type) og ofáts/hreinsandi gerð (e. binge-eating/purging type). Einstaklingar með takmarkandi gerð stunda ekki reglulega ofát eða hreinsunarhegðun (t.d. framkalla uppköst, misnota hægðalyf eða aðrar losandi aðferðir). Einstaklingar með ofáts/hreinsandi gerð stunda reglulega slíka hegðun.

Einstaklingar með lystarstol minnka matarskammta mikið og auka jafnvel hreyfingu til þess að léttast. Þrátt fyrir þyngdartap og lága líkamsþyngd snúast hugsanir þeirra nær eingöngu um að léttast áfram og hræðast þeir mjög að þyngjast. Þessar hugsanir verða að þráhyggju sem eykst eftir því sem sjúkdómurinn ágerist.

Lystarstol hefur alvarleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu. Algengir fylgikvillar eru m.a. hjartsláttartruflanir, beinþynning, vöðvarýrnun og máttleysi, ofþornun, yfirlið, þurr húð og hár og aukinn dúnkenndur hárvöxtur víðsvegar um líkamann. Einnig er algengt að einstaklingar með lystarstol upplifi þynglyndi, kvíða, áráttu- og þráhyggju o.fl.