Áfallastreituröskun

Áfallastreituröskun

Eðlilegt er að áföll hafi áhrif á fólk og að það taki tíma að jafna sig. Áfallastreituröskun er því aðeins greind jafni fólk sig ekki með tíð og tíma. Hér að neðan er áfallastreitustreituröskun lýst en fólk getur haft gagn af því að vinna úr áföllum sem það hefur ekki fyllilega komist yfir, þótt það uppfylli ekki viðmið um áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun er nokkuð algeng og fær um 10% fólks hana einhvern tímann á ævinni.

Áfallastreituröskun er röskun sem hlotist getur af alvarlegu áfalli sem fólk verður fyrir, þar sem lífi eða velferð þess, eða einhvers annars, er ógnað. Á meðan á áfallinu stendur upplifir fólk mikla hræðslu, hrylling eða vanmátt. Í kjölfarið verða einhverjar af eftirfarandi breytingum á atferli, hugarfari og tilfinningalífi fólks og þurfa einkennin að vera til staðar í a.m.k. mánuð til að greining sé gerð. Fólk leitast við að forðast allt sem minnir á áfallið svo sem hugsanir og tilfinningar tengdar áfallinu, tiltekna staði eða athafnir. Það endurupplifir atburðinn með einum eða öðrum hætti, fær martraðir eða sér hann ljóslifandi fyrir sér. Fólk fer yfirleitt í uppnám þegar eitthvað minnir það á atburðinn. Fólk verður daufara og áhugalausara en það á að sér og á almennt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum.  Það finnur hins vegar oft fyrir líkamlegri spennu, svefntruflunum, pirringi eða reiði, einbeitingarerfiðleikum, er eilíflega á varðbergi og því bregður auðveldlega. Það upplifir sig einangrað frá öðrum og á erfitt með að sjá framtíð sína fyrir  sér. Áfallastreituröskun getur leitt til þunglyndis og misnotkun vímugjafa.

Ert þú haldinn áfallastreituröskun?

Til að teljast vera haldinn áfallastreituröskun þarf einstaklingur að uppfylla ákveðin viðmið fyrir mismunandi flokka áfallastreituröskunar. Best er að leita til sálfræðings/fagaðila liggi grunur um að einstaklingur sé haldinn áfallastreituröskun.

Við Kvíðameðferðarstöðina er áfallastreita ýmist meðhöndluð með aðferð sem nefnist CPT (Cognitive Processing Therapy) eða EMDR (Eye Movement Desensitisation Processing). Mælt er með báðum aðferðunum til meðhöndlunar á afmörkuðum áföllum af breskum heilbrigðisyfirvöldum (NICE guidelines). Sú fyrrnefnda er hrein atferlismeðferð en sú síðarnefnda sameinar eiginleika ýmissa meðferðarforma, svo sem hugrænnar atferlismeðferðar, dýnamískrar meðferðar, interpersonal meðferðar og líkamsmiðaðrar (body centered) meðferðar. Nánari upplýsingar á EMDR má finna á www.emdr.is. Í báðum meðferðunum fær fólk aðstoð við að vinna úr áfallinu og áhrifum þess á sjálfsmyndina.

Texti fenginn frá Kvíðameðferðarstöðinni

 

Lesefni um áfallastreituröskun

Herberg, C. og Wetmore, A. (1999). Overcoming Traumatic Stress: A self-help guide using cognitive behavioral techniques.  London: Robinson.

Freedman, K. L. (2014). One hour in Paris: A true story of rape and recovery. Chicago: The University of Chicago Press