Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

adstandendur

Aðstandendur

Um helmingur fólks á höfuðborgarsvæðinu glímir við geðræn veikindi á einhverjum tímapunkti á ævinni (heimild). Ætla má að tölur séu svipaðar annars staðar á landinu auk þess sem fjöldi fólks glímir einhvern tíma við andlega erfiðleika án þess að þeir teljist geðröskun. Þetta þýðir að við munum líklega öll upplifa það að vera aðstandandi einstaklings með geðröskun. Það að horfa upp á einhvern sem okkur þykir vænt um ganga í gegnum veikindi, hvort sem þau eru andleg eða líkamleg, getur verið erfið upplifun. Þegar fólk glímir við andleg veikindi geta hegðun þeirra, hugsun og tilfinningar breyst. Þá geta skapast vandamál, til dæmis í samskiptum, og oft er erfitt að vita hvernig á að bregðast við þessum breytingum hjá einstaklingnum. Það er mikilvægt að muna að hegðun og vanlíðan vegna veikinda getur stundum bitnað á öðrum án þess að það sé endilega ætlunin.

Að vera aðstandandi getur verið streituvaldandi, falið í sér mikla óvissu og vakið upp margar erfiðar tilfinningar. Það er mikilvægt að átta sig á því að sem aðstandandi áttu rétt á þínum eigin tilfinningum og hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar eru þær allar eðlilegar. Tilhneigingin til að vilja hjálpa og vera til staðar fyrir þann sem er veikur er oft sterk en það mikilvægt er að huga að okkur sjálfum fyrst svo við eigum eitthvað eftir til að gefa. Aðstandendur ættu því alltaf að passa upp á eigin geðheilsu fyrst, áður en þeir reyna að bæta líðan annarra. Stundum geta aðstæður eða samskipti sem fylgja andlegum veikindum verið skaðleg aðstandendum og þá getur þurft að fjarlægja sig úr aðstæðunum eða draga verulega úr aðstoð eða stuðningi sem er veitt. Ef aðstæður eru þannig að það er ekki hægt að vera til staðar og hlúa að eigin geðheilsu samtímis þá ætti alltaf að setja eigin geðheilsu í forgang.

Þegar við viljum og getum sýnt stuðning sem aðstandendur er gott að hafa nokkra hluti í huga. Aðstandandi þarf ekki endilega alltaf að koma með góð ráð heldur getur verið meira en nóg að vera til staðar fyrir einstaklinginn, hlusta og sýna að manni sé annt um hann. Það getur verið erfitt að skilja alveg hvað sá sem er veikur er að ganga í gegnum og þá er mesti stuðningurinn oft fólginn í því að hlusta og gefa þeim sem er veikur tækifæri til að tala um sína líðan. Mikilvægt er að muna að það er í lagi að leyfa sér að líða vel og hafa gaman jafnvel þótt einhverjum sem stendur okkur nær líði ekki nógu vel. Hægt er að líkja þessu við það þegar súrefnisþrýstingur fellur í flugvélum en þá er okkur ráðlagt að setja súrefnisgrímuna fyrst á okkur sjálf og svo á aðilann við hlið okkar ef hann getur það ekki sjálfur. Sem aðstandandi getur verið gott og jafnvel nauðsynlegt að ræða sína eigin líðan við fagaðila eða einhvern sem maður treystir. Það á ekki að bera sína líðan saman við líðan þess sem er veikur. Álagið, streitan og tilfinningarnar sem fylgja því að vera aðstandandi eru oft tilefni til þess að leita sér aðstoðar.

Hér má finna viðtal við einstakling sem hefur upplifað það að vera aðstandandi, bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð