Steinn Thoroddsen Halldórsson er formaður Hugrúnar. Hann er á sjötta ári í læknisfræði við Háskóla Íslands og stefnir á sérnám í geðlækningum. Hann hefur mikinn áhuga á því hvernig hægt er að fyrirbyggja sjúkdóma og auka lífsgæði fólks fremur en að einblína einungis á að lækna sjúkdóma eftir að þeir koma fram.

 

 

 

Erna Hinriksdóttir er varaformaður Hugrúnar og fulltrúi læknanema. Erna er á sjötta ári í læknisfræði við Háskóla Íslands og stefnir á sérhæfingu í geðlækningum. Hún vonast til að starf Hugrúnar leiði af sér aukna meðvitund ungs fólks um geðheilbrigði almennt og breyttu viðhorfi og umræðu gagnvart því að sækja sér hjálp við geðrænum vandkvæðum.

 

 

 

Auður Gróa Valdimarsdóttir er ritari Hugrúnar og fulltrúi cand. psych. nema. Hún er á sínu öðru ári í meistaranámi í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands og stefnir á að starfa sem sálfræðingur. Auði dreymir um að með öflugri fræðslu sé hægt að minnka fordóma gagnvart geðröskunum og upplýsa fólk um hvernig hægt sé að leita sér hjálpar og styrkja sína eigin andlegu heilsu.

 

 

 

Elísabet Brynjarsdóttir er ritari Hugrúnar og fulltrúi hjúkrunarfræðinema. Hún er á fjórða ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands en hefur meðal annars starfað á blóðlækningadeild LSH. Þar þarf að huga vel að andlegu hliðinni en við það kviknaði áhugi hennar á geðhjúkrún. Elísabet vill opna umræðuna um geðheilbrigði og undirstrika að allir hafi geðheilsu sem þarf að sinna.

 

 

 

Ágúst Ingi Guðnason er gjaldkeri Hugrúnar og fulltrúi læknanema. Ágúst er á fjórða ári í læknisfræði við Háskóla Íslands en hann stefnir á að sérhæfa sig í taugalækningum. Sem gjaldkeri félagsins hefur Ágúst umsjón með fjárhag félagsins en í hans draumaheimi væri fjárskortur aldrei fyrirstaða þeirra sem vilja leita sér hjálpar við geðrænum vandkvæðum sínum.

 

 

 

Ragna Sigurðardóttir er fjáröflunarstýra Hugrúnar. Hún er á þriðja ári í læknisfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur brennandi áhuga á geðheilbrigðismálum og nam sálfræði um stund áður en hún hóf nám í læknisfræði. Rögnu finnst að meðhöndla eigi geðsjúkdóma eins og hvern annan sjúkdóm og að sú þjónusta eigi að vera niðurgreidd af hinu opinbera og öllum aðgengileg.

 

 

 

Jóhanna Andrésdóttir er fræðslustýra Hugrúnar. Hún er á fimmta ári í læknisfræði við Háskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á öllu sem viðkemur lýðheilsu. Sem fræðslustýra þykir henni mikilvægt að fræða og upplýsa fólk um geðheilsu og að það viti að raunveruleg úrræði séu í boði sem og hvernig er hægt að leita sér hjálpar ef þess er þörf.

 

 

 

Elín Björnsdóttir er fulltrúi hjúkrunarfræðinema í stjórn Hugrúnar. Elín er á fjórða ári í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Henni þykir mikilvægt að allir nemendur sem stefna á störf í heilbrigðiskerfinu kynnist því að fræða fólk um geðheilbrigði því það muni verða á vegi þeirra allra að einhverju leyti, líklegast á hverjum degi í framtíðinni.

 

 

 

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir er fulltrúi grunnnema í sálfræði. Hún er á lokaári sínu í Sálfræði við Háskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á því að stuðla að breyttum, jákvæðari viðhorfum gagnvart geðheilbrigði og að eyða allri skömm sem henni hefur fylgt. Henni þykir mikilvægi geðheilbrigðis aldrei skýrara en þegar það skortir og vill að sálfræðiþjónusta heyri undir almannatryggingar að öllu leyti.