Hvað er ofsakvíði?

Sóley Dröfn Davíðsdóttir, Sálfræðingur

Það er óþægilegt að verða mjög hræddur eða felmtri sleginn. Flestir hafa reynslu af því enda eru þetta eðlileg viðbrögð þegar við lendum í háska. Sumir fara hins vegar að fá endurtekin og ofsafengin óttaköst af tilefnislausu. Í þessum köstum fyllist fólk skyndilega skelfingu og finnur líkamlegum einkennum svo sem örum hjartslætti,  svima, svita, skjálfta, köfnunartilfinningu, óraunveruleikatilfinningu, örri og grunnri öndun. Oft eru þessi einkenni svo sterk að fólk óttast að eitthvað alvarlegt sé að. Algengt er að fólk telji að það sé að fá hjartaáfall, sturlast eða deyja. Þessi köst ná yfirleitt hámarki á nokkrum mínútum.  Í kjölfar kvíðakasta fara sumir að óttast að fá fleiri kvíðaköst eða afleiðingar þeirra. Þeir fara jafnvel að forðast aðstæður þar sem kvíðaköst gætu gert vart við sig. Þegar svo er nefnist vandinn ofsakvíði, öðru nafni felmtursröskun eða skelfingarkvíði.

Ofsakvíði leiðir stundum til víðáttufælni, en þá er fólk farið að forðast aðstæður þar sem það gæti fengið kvíðaköst, sérstaklega opin svæði, margmenni og almenningssamgöngur. Ef fólk lætur sig hafa það að fara finnur fólk fyrir miklum kvíða eða fær kvíðaköst. Vandinn þarf verulega að trufla líf fólks til að greining sé gerð. Þessi meðferðarhandbók getur nýst til að ná tökum á víðáttufælni, sérstaklega þegar óttinn tengist því að fá kvíðaköst. Þess eru nefnilega einnig dæmi um að fólk þjáist af víðáttufælni án þess að hafa fengið kvíðaköst. Óttinn getur nefnilega einnig tengst því að fá einhver önnur vandræðaleg einkenni meðal fólks, til dæmis missa þvag eða hægðir.

Algeng viðbrögð við ofsakvíða

Þegar eitthvað jafn ógnvekjandi og kvíðakast hellist yfir fólk, gerir það iðulega eitthvað til að tryggja öryggi sitt. Aðgerðirnar sem fólk grípur til ráðast af því hvað það heldur að sé að gerast.  Eftirfarandi eru dæmi um algeng viðbrögð:

 • Hringja á sjúkrabíl, leita á bráðamóttökuna eða komast sér í samband við lækni.
 • Sá sem óttast hjartaáfall, sá sem óttast svima og það að detta finnur sér eitthvað til að halda sér í, sá sem óttast að kafna opnar líklega glugga.
 • Yfirgefa aðstæður þar sem kvíðakastið byrjaði og leita á öruggari stað, t.d. heim til sín, út í bíl, eða til einhvers sem viðkomandi treystir.
 • Forðast aðstæður sem svipar til þeirra þegar kvíðaköst fóru að gera vart við sig.

Ert þú með ofsakvíða?

Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú sért með ofsakvíða geta eftirfarandi spurningar komið þér að gagni. Uppfylla þarf viðmið A og B til að teljast vera með vandann.2

Hefur þú fengið endurtekin og fyrirvaralaus köst þar sem ofsalegur ótti gerir vart við sig og nær hámarki innan nokkurra mínútna, þar sem þú fannst fyrir að minnsta kosti fjórum af eftirtöldum einkennum?

 1. Örum eða þungum hjartslætti
 2. Svita
 3. Skjálfta
 4. Andnauð
 5. Köfnunartilfinningu
 6. Verki eða óþægindum fyrir brjósti
 7. Ógleði eða óþægindum í kviðarholi
 8. Svima, óstöðugleika eða yfirliðstilfinningu
 9. Hitakófi eða kuldahrolli
 10. Doða eða fiðringi
 11. Óraunveruleikatilfinningu
 12. Ótta við að missa stjórn eða sturlast
 13. Ótta við að deyja

 

Hefur þú eftir eitt kastanna fundið fyrir að minnsta kosti einu af neðangreindu í meira en mánuð?

 1. Miklar áhyggjur af því að fá fleiri kvíðaköst og hvaða afleiðingar köstin geti haft, til dæmis að þú munir að missa stjórn á þér, fá hjartaáfall, sturlast eða deyja.
 2. Farið að gera eitthvað öðru vísi út af köstunum eins og að forðast aðstæður þar sem þú gætir fengið kvíðakast.

Fólk þarf að óttast kvíðaköstin og afleiðingar þeirra til að greinast með ofsakvíða. Það er í raun nokkuð algengt að fólk fái stök kvíðaköst, eins og þeir sem glíma við aðrar kvíðaraskanir. Sá sem hræðist kóngulær gæti til dæmis fengið kvíðakast ef hann rekst á kónguló. Hann telst hins vegar frekar vera með kóngulóarfælni en ofsakvíða, þar sem það eru kóngulærnar sem hann óttast, en ekki sjálf kvíðaköstin. Félagsfælnir fá líka stundum kvíðaköst meðal fólks. Það sem þeir óttast hins vegar er að aðrir dæmi þá og því fá þeir félagsfælnigreiningu. Ef sá félagsfælni  myndi einnig óttast sjálf kvíðaköstin og mögulega skaðsemi þeirra, myndu hann teljast vera með ofsakvíða auk félagsfælni. Það er algengt að fólk hafi fleiri en eina kvíðaröskun. Ef það á við um þig skaltu skoða í hvað truflar þig mest. Ef kvíðaköstin eru mest að trufla þig skaltu vinna bug á þeim fyrst. Það gengur yfirleitt hratt fyrir sig og þá geturðu farið að einbeita þér að öðru.

Hverjir fá ofsakvíða?

Kvíðaköst eru nokkuð algeng á meðal almennings þótt ekki allir nái viðmiðum um  ofsakvíða. Á bilinu 20-30% fólks fær kvíðakast að minnsta kosti einu sinni á ævinni á meðan 3-5% fólks þróar með sér ofsakvíða.3 Margir fá kvíðaköst í nokkur skipti á afmörkuðu tímabili en hætta því svo alveg, á meðan þetta verður langvarandi vandamál hjá öðrum. Þekkingin á ástæðum þess að fólk fær sitt fyrsta kvíðakast er minni en þekking á hvað viðheldur þeim.  Þó virðist ákveðnir þættir vera sameiginlegir þeim sem fá kvíðaköst.

 • Fólk sem hefur miklar áhyggjur af heilsu sinni eru líklegri en aðrir til þess að þróa með sér ofsakvíða. Sennilega eru þeir líklegri til þess að túlka líkamleg einkenni sem merki þess að eitthvað alvarlegt gæti verið að.
 • Streitutímabil, eins og mikið álag í vinnu, erfiðleikar í sambandi, veikindi í fjölskyldu eða aðrar áhyggjur virðast eiga þátt í að fólk fái kvíðaköst.

Stöku sinnum getur ofsakvíði stafað af líkamlegum vanda eins og truflun á starfsemi skjaldkirtils. Mikilvægt er að fara í læknisskoðun til að útiloka þann möguleika. Hafir þú þegar gert það, hvet ég þig til að halda lestrinum áfram, þótt þú kunnir enn að hafa áhyggjur af líkamlegri heilsu þinni. Eins og fram er komið fylgja kvíðaköstum svo sterk einkenni að erfitt er að trúa því að einkennin stafi af kvíða.

Hvað er að gerast í líkamanum þegar við fáum kvíðakast?

Kvíðakast er til marks um að neyðarviðbragð líkamans sé farið af stað, en þetta viðbragð höfum við erft frá forfeðrum okkar. Viðbragðið getur stundum farið af stað af tilefnislausu, líkt of ofurnæm þjófavörn í bíl. Markmiðið með viðbragðinu er að auka líkamsstyrk okkar og snerpu þannig að við eigum auðveldara með að berjast fyrir lífi okkar, flýja, í sumum tilvikum, frjósa. Í þessum tilgangi verða ýmsar breytingar á líkamsstarfsemi okkar, sem fylgt geta nokkur óþægindi, þótt meinlaus séu.

Ör öndun. Þegar líkaminn býr sig undir átök er súrefnisupptaka aukin með örri og grunnri öndun. Við innöndun taka blóðfrumur við súrefni og losa sig við koltvísýring í gegnum útöndun. Magn koltvísýrings og kalks í blóði lækkar við þetta, sem veldur óþægindum svo sem svima, doða, köfnunartilfinningu og brjóstverk. Sumir óttast að líða út af og kafna þegar þeir finna fyrir þessum óþægindum. Fólk er hins vegar aldrei fjær köfnun en þegar það andar með þessum hætti! Þú getur leikið þér að því að framkalla þessi einkenni með því að draga djúpt andann og halda honum niðri meðan þú tekur stutt andartök í 1-2 mínútur. Líklega færð þú óþægindi fyrir brjóstinu svipað og í kvíðakasti. Verkurinn fyrir brjósti stafar af því að þig fer að verkja í vöðva milli rifbeinanna þegar þú andar ótt og títt. Þetta eru meinlausir vöðvakrampar sem myndast þegar vöðvar hafa verið spenntir um stund. Þú getur framkallað slíkan vöðvakrampa með því að halda öðrum fætinum út í loftið í dálitla stund þegar þú situr. Þú getur einnig fundið fyrir máttleysi og skjálfta eftir að hafa borið eitthvað þungt í dágóða stund. Margir kannast einmitt við að hafa skolfið á beinunum eða lyppast niður í kvíðakasti. Þetta er annað en yfirlið, sem á sér aðrar orsakir.

Yfirlið myndast þegar blóðþrýstingur fellur skyndilega, ólíkt því sem gerist í kvíðaköstum. Þar hækkar blóðþrýstingur tímabundið og því er afar sjaldgæft að líði yfir fólk í kvíðakasti. Til að líði yfir fólk þarf eitthvað annað að koma til, sem vinnur gegn hækkuðum á blóðþrýstingi. Enda hefði það verið óheppilegt fyrir hellisbúann að líða út af þegar mikið lá við. Ef þú hefur efasemdir um þessi orð, hvet ég þig til að reyna að framkalla yfirlið í kvíðakasti. Þú getur til dæmis hoppað á einum fæti eða snúið þér í hringi þegar þú finnur til svima. Raunar er ein undantekning frá þessari reglu. Það er þegar blóð- og sprautufælni er annars vegar. Þar getur blóðþrýstingur fallið skyndilega og fólk liðið út af þegar það sér blóð eða er sprautað.

Aukinn hjartsláttur. Dæla þarf súrefnisríku blóði hratt út til heilans, innyfla og stórra vöðva líkamans þannig að þú getir brugðist við af snerpu og styrk. Þú getur því fundið fyrir  hröðum eða þungum hjartslætti. Þetta skelfir suma, sem óttast að hjartaáfall sé á ferð. Í raun reynir álíka mikið á hjartað við kvíðakast og að hlaupa upp stiga. Hafir þú heilsu til þess, þarft þú ekki að hafa áhyggjur!

Í kvíðakasti leitar blóðið frá húð, fingrum og vörum í átt að heila, stórum vöðvum og líffærum. Þetta getur stuðlað að dofa, seyðingi eða kulda á svæðum þar sem blóðstreymið er minna. Hefur þú fundið fyrir dofa í fingrum og vörum þegar þú ert kvíðinn? Þú þarft minna á þessum svæðum að halda þegar þú hleypur undan óargadýri eða berst fyrir lífi þínu. Blóðsóknin frá húð skýrir líka hvers vegna fólk hvítnar stundum upp þegar það er kvíðið.

Meltingartruflanir. Þegar neyðarviðbragðið ræsist er meltingu slegið á frest þar sem ekki er ætlast til að við séum að borða eða liggja á meltunni þegar um líf og dauða er að tefla. Þessu geta fylgt óþægindi frá kviðarholi, eins og ógleði, verkir eða garnagaul. Það dregur úr munnsvatnsmyndun sem gerir það að verkum að við finnum fyrir munnþurrki. Að sama skapi losar líkaminn losar sig við hægðir og þvag til að við verðum léttari á okkur ef við þurfum að hlaupa langt. Margir kannast við að fá niðurgang og tíð þvaglát þegar þeir eru stressaðir. Þetta er það sama og rollur gera þegar þeim bregður þegar bílar nálgast. Þær stirðna upp, skíta eða spræna og taka svo til fótanna! Hjá mörgum dregur úr matarlyst í kvíðaástandi af ofangreindum sökum, þótt dæmi séu þess einnig að matarlyst aukist.

Breytt skynjun. Í neyðarviðbragðinu víkka sjáöldur til að hleypa inn meiri birtu þannig að við sjáum betur og eigum auðveldara með að greina hreyfingu. Sjónsviðið þrengist þannig að við sjáum minna til hliðanna enda er okkur aðeins ætlað að fylgjast grannt með hættunni. Þetta gerir það að verkum að við eigum erfitt með að einbeita okkur að öðru en ógninni þegar við erum kvíðin. Ef þú færð kvíðakast þegar þú ert að horfa á bíómynd átt þú líklega erfitt með að einbeita þér að myndinni! Þú ferð líklega að spá í einkennin sem þú metur ógnandi. Þessi athygli að hættu og næm skynjun hefur gagnast manninum vel þegar hann hefur verið í hættu staddur í áranna rás, til dæmis þegar hann hefur þurft að greina minnstu hreyfingar af völdum rándýra í frumskógi. Afleiðingarnar  eru hins vegar þær að okkur bregður auðveldlega þegar við erum stressuð enda heyrum við betur í þessu ástandi. Við getum einnig fengið sjóntruflanir vegna þessara breytinga á skynjun.

Sviti. Þegar líkaminn er í neyðarástandi myndast mikil orka og því er líkaminn kældur með svita. Einhvern tímann heyrði ég sálfræðing nefna að það hefði einnig verið hagstætt fyrir hellisbúann að vera svolítið sleipur þegar óargadýr voru að reyna að klófesta hann. Mér finnst þessi sápustykkjakenning svolítið skemmtileg en hún er líklega ekki sönn. Þá má velta því fyrir sér hvort auðveldara hafi verið fyrir hellisbúann að klifra ef hann var svolítið þvalur á höndunum.

Eins og þú sérð hefur hvert og eitt einasta einkenni kvíðakastsins tilgang og gegnir því hlutverki að vernda þig með einum eða öðrum hætti.

Geta kvíðaköst verið hættuleg?

Menn hafa oft áhyggjur af því að kvíðaköstin geti verið skaðleg. Helstu áhyggjurnar eru þær að þeir kunni að fara yfir um, falla í yfirlið, missa stjórn á sér, veikjast alvarlega eða deyja. Eins og fram er komið reyna kvíðaköstin ekki meira á hjartað en sem nemur því að hlaupa upp stiga. Fólk þarf að vera alvarlega hjartveikt til að þola ekki slíka áreynslu. Þegar fólk fær hjartastopp er því beinlínis gefið adrenalín sem hrindir af stað kvíðaviðbragðinu, og þar með (vonandi) hjartslætti. Það má því segja að ofsakvíðinn sé andstæður því ástandi sem ríkir í hjartaáfalli.

Hvert kvíðakast stendur yfir í mjög stuttan tíma og hafa stök kvíðaköst ekki áhrif á líkamlega heilsu. Enda fara villt dýr í náttúrunni í þetta ástand með mjög reglulegu millibili. Hins vegar getur það að vera undir miklu álagi svo árum skiptir ef til vill átt þátt í myndun sállíkamlegra kvilla, eins og vöðvabólgu og magasárs. Þá erum við hins vegar að tala um langvinna streitu en ekki einstök kvíðaköst.

Það er heldur ekki hægt að sturlast eða verða geðveikur af ofsakvíða. Fólk óttast þetta oft af því að því líður mjög óþægilega og finnur jafnvel fyrir óraunveruleikatilfinningu. Það er hins vegar ekki alltaf að marka tilfinningar okkar að þessu leyti. Manneskju getur til dæmis liðið eins og asna þótt hún líti ekki út eins og asni og sé ekki orðin að asna í bókstaflegri merkingu!

Einkenni sturlunar eru allt önnur en einkenni ofsakvíða, enda um algerlega óskyld vandkvæði að ræða. Þegar fólk sturlast finnur það gjarnan fyrir ofskynjunum og ranghugmyndum. Hefur þú nokkuð heyrt raddir eða upplifað að leyniþjónustan sé á eftir þér? Hefur þér fundist þú fá persónuleg skilaboð úr sjónvarpi? Séð púka í hverju horni? Fólk sturlast ekki af ofsakvíða en getur hins vegar orðið ofsahrætt þegar það sturlast! Þér myndi líkast til bregða í brún ef þú færir að sjá  uppvakninga á götum úti, heyrðir raddir tala um þig eða fyndist einhver vera að stela frá þér hugsunum. Sturlun á sér oftast stað í kringum tvítugt og þótt um alvarlegan vanda sé að ræða má hafa töluverð áhrif á hann með réttri meðferð.

Annað sem fólk hefur oft áhyggjur af, er að það kunni að missa stjórn á sér í kvíðakasti og gera eitthvað sem vekur athygli á því. Sumir óttast til dæmis að þeir kunni að öskra, taka til fótanna eða æla á nærstadda. Hér þarf að greina einkenni kvíðakastanna frá þeim öryggisráðstöfunum sem fólk grípur til. Einkenni kvíðakastsins, eins og hjartsláttur, vöðvaspenna og doði eru sjaldnast sýnileg öðrum.
Meðferðarárangur við ofsakvíða mælist góður. Við Kvíðameðferðarstöðina er unnið í samræmi við nýjustu áherslur við meðhöndlun ofsakvíða, helst ber að nefna HAM sem hefur reynst best við meðhöndlun á ofsakvíða.

 

Texti fenginn frá Kvíðameðferðarmiðstöðinni, unninn úr “Meðferðarhandbók við ofsakvíðaröskun” eftir Sigurbjörgu J. Ludvigsdóttur og Sóleyju D. Davíðsdóttur