Forsíða Geðfræðsla Fyrir Foreldra Um Hugrúnu

Kvíði

Kvíði; tilfinning og röskun.

Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa einhvern tímann, það er enginn algjörlega ókvíðinn. Oft verður fólk kvíðið fyrir mikilvægan atburð eins og lokapróf, úrslitaleik í íþrótt, frumsýningu á leikriti eða fyrsta stefnumótið. Kvíði er tilfinning sem við finnum flest í tengslum við hluti sem skipta okkur máli og hann getur verið mjög gagnlegur; fengið fólk til að leggja sig betur fram, vanda sig meira eða bætt einbeitingu. Kvíði gagnast okkur líka í hættulegum aðstæðum, það er kvíði sem hjálpar fólki að hlaupa undan grjóti eða forða sér frá bílum sem nálgast.

Við höfum öll innbyggt kvíðaviðbragð sem hefur þróast með mannkyninu og hjálpað okkur að komast af. Kvíðaviðbragðið kemur fram með ýmsum einkennum, bæði tilfinningalegum og líkamlegum. Algeng líkamleg einkenni eru til dæmis hraðari hjartsláttur, grynnri andardráttur, aukinn sviti og ógleði. Kvíðaviðbragðið hefur líka áhrif á hugsanirnar okkar og þegar við upplifum einkenni kvíða einkennast hugsanir oft af miklum áhyggjum, pirringi og erfiðleikum við að halda einbeitingu.

Þó að kvíði sé fyrst og fremst eðlileg tilfinning og geti verið mjög gagnlegur þá getur hann líka verið vandamál. Þegar kvíði er of mikill, kemur oft upp eða kemur fram í óviðeigandi aðstæðum þá er hann hættur að gagnast okkur. Kvíði getur orðið svo mikill að hann heldur aftur af fólki, kemur í veg fyrir að það geri hluti sem það vill gera eða veldur því að fólki líður verulega illa í aðstæðum sem valda kvíðanum. Þegar kvíði er farinn að hafa veruleg áhrif á okkar daglega líf getur verið að um kvíðaröskun sé að ræða. Einfalt dæmi um muninn á kvíða sem eðlilegri og jafnvel gagnlegri tilfinningu og svo kvíða í kvíðaröskun væri annars vegar kvíði fyrir lokapróf sem veldur því að einstaklingur leggur hart að sér, nær betri einbeitingu og lærir vel fyrir prófið en hins vegar kvíði fyrir lokapróf sem verður svo mikill að einstaklingur nær ekkert að læra eða einbeita sér og ákveður að lokum að sleppa prófinu.

Það er hægt að hugsa um kvíðaviðbragðið eins og reykskynjara. Reykskynjari er mjög gagnlegur og getur bjargað lífi okkar þegar það kviknar í og hann fer í gang (líkt og kvíðaviðbragð sem fer í gang við raunverulega hættu). Ef reykskynjarinn fer í gang í sífellu og við minnsta tilefni, til dæmis þegar við kveikjum á kertum eða poppum þá er hann ekki lengur gagnlegur (líkt og kvíðaviðbragð sem fer í gang í óviðeigandi aðstæðum eða í of miklu magni). Þegar reykskynjari hegðar sér með þessum hætti er kominn tími á að skipta um batterí eða laga hann. Það sama á við um kvíðaviðbragðið. Ef fólk finnur fyrir miklum kvíða, finnur mjög oft fyrir kvíða eða ef kvíði heldur aftur af því með einhverjum hætti þá ætti það að leita sér aðstoðar fagaðila.

Markmiðið með kvíðameðferð er þannig ekki að losna algjörlega við kvíða heldur viljum við að hann þjóni tilgangi sínum sem þessi eðlilega og gagnlega tilfinning. Markmiðið er að draga úr honum þegar hann gagnast okkur ekki og læra að takast á við hann.

Kvíði sem röskun

Ef kvíði er farinn að hafa mikil áhrif á lífsgæði fólks, til dæmis ef fólk sleppir því að gera hluti sem það vill gera vegna kvíða, er hugsanlegt að um kvíðaröskun sé að ræða. Kvíðaröskun er í raun önnur leið til að segja að kvíðinn sé orðinn það mikill og hamlandi að einstaklingur þurfi á aðstoð að halda til að takast á við hann. Til eru margar gerðir kvíðaröskunar og eiga þær það sameiginlegt að einstaklingar upplifa kvíða sem heldur aftur af þeim í einhverjum aðstæðum. Kvíði getur líka komið fram með kvíðaköstum, þegar mörg líkamleg kvíðaeinkenni koma fram á sama tíma. Stór hluti fólks fær kvíðakast einhvern tíma á ævinni. Það er mikilvægt að þekkja einkenni kvíðaraskana og kvíðakasta til að geta greint á milli kvíða sem eðlilegrar tilfinningar og kvíða sem vandamáls eða kvíðaröskunar. Á þessari síðu má finna upplýsingar um nokkrar algengar kvíðaraskanir; almenna kvíðaröskun, félagsfælni og afmarkaða fælni auk upplýsinga um kvíðaköst. Víða á netinu má finna ítarlegri upplýsingar um kvíða, til dæmis á vef Kvíðameðferðarstöðvarinnar: www.kms.is.

Hér má finna viðtal við einstakling sem glímt hefur við kvíða bæði á myndbandaformi og í hefðbundnum texta, myndbandið er úr herferð Hugrúnar #huguð

Kvíðakast

Kvíðakast er þegar fólk finnur fyrir skyndilegum og yfirþyrmandi ótta án þess að raunveruleg hætta sé til staðar. Í kvíðakasti finnur fólk fyrir mjög sterkum líkamlegum kvíðaeinkennum sem magnast upp og ná hámarki á nokkrum mínútum. Kvíðaköst eru vanalega fljót að líða hjá og oftast hverfa einkennin á innan við hálftíma. Dæmi um þessi líkamlegu einkenni eru hraðari hjartsláttur, aukinn sviti, skjálfti, að finnast maður vera að kafna, brjóstverkir, doði, yfirliðs tilfinning og ógleði. Þá fylgja oft hugsanir og hræðsla um að missa stjórn, tapa vitinu, fá hjartaáfall eða deyja. Kvíðaköst geta komið fram óvænt og gerst í aðstæðum þar sem einstaklingur á ekki von á þeim en þau geta líka komið fram í aðstæðum sem valda einstaklingnum vanalega kvíða.

Kvíðaköst eru ekki röskun en þau eru verulega óþægileg og geta verið einkenni röskunar. Kvíðaköst geta komið fram í mörgum kvíðaröskunum, sem dæmi getur fólk með sprautu- og nálafælni fengið kvíðakast í nálægð við sprautur og nálar. Kvíðaröskunin ofsakvíðaröskun er þegar fólk fær endurtekin kvíðaköst, sem valda því mikilli vanlíðan, og það hefur stöðugar áhyggjur af því að fá annað kast. Þó kvíðaköst fylgi oft röskunum þá geta þau komið fyrir hvern sem er og það er hægt að fá kvíðakast án þess að vera með kvíðaröskun.

Í daglegu tali er oft talað um kvíðakast þegar fólk hefur miklar áhyggjur af einhverju í langan tíma eða finnur áhyggjur hellast yfir sig. Það er vissulega óþægilegt að lenda í slíku en tilfinningarnar og líkamlegu viðbrögðin sem fylgja kvíðakasti eru mun sterkari og meira yfirþyrmandi. Það er mikilvægt að þekkja einkenni kvíðakasts og vita muninn á þessu tvennu því þegar fólk fær kvíðakast og þekkir ekki einkennin heldur það gjarnan að það sé að deyja eða fá hjartaáfall og leitar jafnvel læknisaðstoðar vegna þess. Kvíðaköst einkennast af ofsafengnum ótta, miklum líkamlegum viðbrögðum og þau ná hámarki á nokkrum mínútum.

Sumir fá aðeins eitt kast en aðrir fá kast við og við án þess að það hafi mikil áhrif á daglegt líf. Þegar kvíðaköst eru regluleg, hluti af röskun eða helsta einkenni röskunarinnar (ofsakvíðaröskun) þá valda köstin miklum erfiðleikum og vanlíðan. Þegar kvíðaköst eru farin að hafa veruleg áhrif á líf og líðan ætti fólk að leita sér aðstoðar.

Afmörkuð fælni

Afmörkuð fælni er mikill ótti eða hræðsla við ákveðna hluti eða fyrirbæri sem er ekki í samræmi við það sem vekur ótta eða hræðslu. Á ensku kallast þetta phobia en í daglegu tali er það orð oft notað yfir hræðslu sem er mun vægari en í raunverulegri fælni. Algeng dæmi um afmarkaða fælni eru fælni gagnvart köngulóm, hundum, geitungum, uppköstum, lyftum, flugvélum, óveðri eða því að vera hátt uppi. Fólk með fælni reynir að forðast þessi fyrirbæri eftir bestu getu eða þraukar í gegnum þau með miklum kvíða, ótta eða vanlíðan. Sem dæmi gæti einstaklingur með geitungafælni átt erfitt með að vera úti á sumrin, haldið öllum gluggum lokuðum, forðast útilegur eða hvers kyns aðstæður þar sem geitungar gætu verið. Það er þannig mikill stigsmunur á því að þykja óþægilegt að vera nálægt geitungum og að vera með geitungafælni, þó að fyrra dæmið sé oft ranglega kallað phobia.

Kvíðaeinkenni sem eru algeng í afmarkaðri fælni eru hraður hjartsláttur, aukin svitamyndun og að finnast maður ekki geta hreyft sig. Einnig fá sumir einstaklingar kvíðakast þegar þeir sjá það sem þeir hræðast. Í afmarkaðri fælni myndast vítahringur þar sem forðunarhegðun (til dæmis að fara ekki út á sumrin, koma aldrei nálægt hundum eða fara aldrei í lyftu) viðheldur kvíðanum og jafnvel eykur hann með tímanum. Með því að forðast aðstæðurnar eða fyrirbærin þá finnur fólk fyrir létti í stuttan tíma en áhyggjurnar og óttinn eru í raun enn til staðar. Ef fólk nær að þrauka í aðstæðunum þá áttar það sig oftast á því að það er ekkert að óttast og kvíðinn minnkar hægt og rólega. Þannig getur einstaklingur með vægan kvíða sem minnir á afmarkaða fælni, til dæmis gagnvar köngulóm, dregið úr kvíðanum með því að þrauka í kringum köngulær og venja sig á nálægð við þær. Oft þarf fólk að fá aðstoð við að draga úr kvíða, sérstaklega ef kvíðinn og óttinn er orðinn svo mikill að um afmarkaða fælni er að ræða. Meðferðin við afmarkaðri fælni er nokkuð einföld og oft þarf einungis örfáa tíma hjá sálfræðingi til að komast yfir hana.

Félagsfælni

Félagsfælni er þegar fólk finnur fyrir miklum ótta eða kvíða í félagslegum aðstæðum. Oftast tengist kvíðinn áhyggjum um að aðrir séu að dæma mann, að maður komi illa fyrir eða að maður muni segja eða gera eitthvað sem öðrum þykir asnalegt. Dæmi um félagslegar aðstæður eru að eiga samtal við einhvern, fara í partý, kynnast nýju fólki, halda fyrirlestur, borða eða skrifa fyrir framan einhvern eða að tala við yfirmenn. Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða í sumum félagslegum aðstæðum og langflestum þykir til dæmis stressandi að halda fyrirlestur eða að koma fram opinberlega. Ef við værum ekki með neinn kvíða tengdan félagslegum aðstæðum þá væri okkur alveg sama um hvernig við komum fyrir og hvað öðru fólki finnst. Flest erum við félagsverur og því fylgir að upplifa kvíða í tengslum við sumar félagslegar aðstæður.

Þeir sem eru með félagsfælni upplifa meiri kvíða í félagslegum aðstæðum og kvíðinn verður svo mikill að hann veldur erfiðleikum í daglegu lífi eða verulegri vanlíðan. Oft leiðir félagsfælni til þess að fólk forðast algjörlega félagslegar aðstæður eða þraukar rétt svo í gegnum þær og upplifir mikinn kvíða og vanlíðan á meðan. Það getur verið áberandi þegar fólk forðast aðstæður, eins og að mæta ekki í partý eða neita að fara í skólann, en stundum getur hegðun fólks með félagsfælni verið minna áberandi, til dæmis þegar fólk æfir sig mjög mikið fyrir fyrirlestur eða takmarkar augnsamband. Sumir hafa félagsfælni bara við ákveðnar aðstæður, eins og kynningar fyrir framan fólk og er það kallað frammistöðukvíði. Félagsfælni getur haft verulega mikil áhrif á líf og ákvarðanatöku fólks. Hann getur leitt til félagslegrar einangrunar, valdið því að fólk mætir ekki í afmæli, veislur eða atburði sem væru ánægjulegir án kvíðans og stundum veldur hann því jafnvel að fólk velur sér nám þar sem lítið er um kynningar eða hópastarf eða þiggur ekki stöðuhækkun ef henni fylgja aukin samskipti.

Sumir með félagskvíða drekka áfengi eða neyta fíkniefna til að auðvelda félagsleg samskipti og geta jafnvel ekki mætt í partý án þess. Skammtímalausn í formi vímuefna lagar ekki félagsfælnina en getur leitt til enn fleiri vandamála og jafnvel þróast út í fíknivanda. Því ættu einstaklingar sem finna fyrir félagsfælni eða vægari kvíða í aðstæðum af þessu tagi að fylgjast vel með eigin neyslu og jafnvel draga úr eða hætta þar til þeir sigrast á félagsfælninni. Félagsfælni getur líka leitt til þunglyndis og þá er einnig mikilvægt að leita sér aðstoðar.

Líkamleg einkenni sem eru algeng í félagsfælni eru meðal annars að roðna, svitna, skjálfa eða stama. Algengt er að þessi líkamlegu einkenni ýti undir enn meiri kvíða því oft óttast fólk að aðrir munu taka eftir þeim og dæma það fyrir einkennin. Þessar áhyggjur eru oftast óraunhæfar og roðinn eða svitinn ekki nægur til að aðrir taki eftir því, auk þess sem flestir myndu ekki spá mikið í þessum líkamlegu einkennum ef þeir tækju eftir þeim. Í félagslegum aðstæðum geta einstaklingar með félagsfælni einnig upplifað mikið óöryggi eða að hugurinn tæmist. Fólk sem upplifir þessi einkenni og á erfitt í félagslegum aðstæðum, hvort sem þær eru margar eða fáar, ætti ekki að hika við að leita sér aðstoðar.

Almenn kvíðaröskun

Almenn kvíðaröskun felst í miklum og ítrekuðum áhyggjum af ýmsu tagi og alls konar hlutum Áhyggjur eru neikvæðar hugsanir sem snúast oft um að eitthvað slæmt muni koma fyrir mann sjálfan eða sína nánustu. Þær geta tengst hverju sem er eins og frammistöðu í vinnu eða skóla, framtíðinni, peningamálum, eigin heilsu eða heilsu annarra. Það er erfitt eða ómögulegt fyrir einstakling með almenna kvíðaröskun að hrista áhyggjurnar af sér og leiða hugann að öðru. Oft verða áhyggjurnar meiri og ýktari eftir því sem þær vara lengur, líkt og sífellt stækkandi snjóbolti sem rúllar niður hæð.

Fólk með almenna kvíðaröskun finnur oft fyrir eirðarleysi og mikilli þreytu, enda er erfitt fyrir líkamann að vera í langvarandi kvíðaástandi. Vöðvaspenna er mjög algeng meðal fólks með almenna kvíðaröskun og oft leitar það til læknis vegna slæmrar vöðvabólgu en ekki vegna kvíðans sjálfs. Önnur algeng einkenni eru erfiðleikar með einbeitingu, pirringur og svefntruflanir. Einstaklingar með almenna kvíðaröskun eiga oft erfitt með að sofna, gjarnan því áhyggjur koma upp í kollinn þegar þeir hafa lagst upp í rúm og fá næði til að hugsa.

Það fylgir því mikil óvissa að vera til, óvissan er í raun óumflýjanleg. Við getum aldrei vitað með vissu hvað gerist á morgun, hvernig aðrir muni haga sér eða hvað framtíðin ber í skauti sér. Talið er að einstaklingar með almenna kvíðaröskun eigi erfitt með að þola óvissu. Þess vegna reyna þeir oft að skipuleggja hér um bil allt sem hægt er að skipuleggja og athuga endurtekið hvort allt sé ekki nákvæmlega eins og það á að vera. Áhyggjurnar auka óvissuna og óvissan eykur áhyggjurnar og þannig skapast vítahringur sem erfitt er að losna úr. Þegar fólk upplifir miklar og íþyngjandi áhyggjur er mikilvægt að leita sér aðstoðar fagaðila.

Áfallastreituröskun

Áfall er erfið eða þungbær reynsla sem eðlilegt er að hafi áhrif á fólk og tekur oft tíma að jafna sig eftir. Áföll eru misalvarleg og fólk er misviðkvæmt fyrir þeim en sum áföll eru svo alvarleg að þau myndu valda lang flestu fólki erfiðleikum. Þegar fólk lendir í alvarlegu áfalli þar sem lífi þeirra, lífi annara, velferð þeirra eða velferð annara er ógnað og það upplifir mikla hræðslu, hrylling eða vanmátt á meðan á áfallinu stendur er algengt að fólk fá einkenni áfallastreitu eða jafnvel þrói með sér áfallastreituröskun.

Áfallastreita stuttu eftir áfall er ekki endilega merki um áfallastreituröskun heldur getur verið um að ræða eðlileg viðbrögð við erfiðri lífsreynslu. Ef einkenni áfallastreitu eru enn til staðar, trufla líf og valda vanlíðan, og meira en mánuður er liðinn frá áfalla atburðinum er mögulegt að um sé að ræða áfallastreituröskun. Áfallastreituröskun er algeng og talið er að um 10% fólks fái hana einhvern tímann á ævinni.

Einkenni áfallastreituröskunar eru fjölmörg og það þarf alltaf að greina hana hjá fagaðila. Eftirfarandi eru helstu flokkar einkenna en fagaðilar líta til margra þátta, svo sem fjölda einkenna, við greiningu auk þess sem einkennin eru mun fleiri en talin eru upp hér.

  • Endurupplifun áfalls á einhvern hátt (t.d. minningar, “flash-backs” eða draumar)
  • Forðast aðstæður, áreiti, hugsanir og fleira sem minnir á áfallið
  • Neikvæðar breytingar á hugarfari eða versnandi líðan (t.d. sektarkennd, minni áhugi á mikilvægum athöfnum, erfiðleikar við að muna atriði tengd áfallinu og erfiðleikar við að upplifa jákvæðar tilfinningar)
  • Breytt örvunarstig og viðbrögð (t.d. pirringur, sjálfsskaði, kæruleysi, bregða auðveldlega og svefntruflanir)

Mikilvægt er að einstaklingar með áfallastreituröskun leiti sér aðstoðar. Fólk sem hefur lent í áfalli en uppfyllir ekki viðmið fyrir áfallastreituröskun getur líka haft mikið gagn af því að vinna úr þeim. Það getur verið verulega erfitt að komast yfir áföll og það ætti ekki að hunsa erfiðleika og vanlíðan tengd áfalli, jafnvel þó langt sé liðið.

HVERT SKAL LEITA?

Heilsugæslan: Þegar fólk leitar sér aðstoðar hjá fagfólki er fyrsti viðkomustaður yfirleitt heilsugæslan. Fyrsta skrefið er að bóka sér tíma hjá lækni sem getur vísað þér á viðeigandi aðila ef ekki næst að leysa vandann þar. heilsugaeslan.is

Bráðamóttaka geðsviðs: Ef ástandið er brátt eða alvarlegt skal ekki hika við að leita á bráðamóttöku geðsviðs á Landspítala, en þangað getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma. Bráðamóttaka geðdeildar er staðsett á 1. hæð í geðdeildarbyggingunni á Hringbraut. Bráðamóttakan er opin frá kl. 12:00-19:00 á virkum dögum og frá kl. 13:00-17:00 um helgar og er síminn 543 4050. Í neyðartilfellum utan þess tíma er hægt að leita til bráðamóttökunnar á Landspítala Fossvogi. landspitali.is

Á einkastofur sálfræðinga. Á heimasíðu Sálfræðingafélags Íslands sal.is er leitarvél sem nota má til að finna sálfræðinga út frá staðsetningu, tungumáli, sérhæfingu og fleiri þáttum.

Á einkastofur geðlækna. Fjöldi geðlækna veita lyfja- og samtalsmeðferð á einkastofum sínum.

Ítarlegri lista af úrræðum á Íslandi má finna hér.