Ingólfur Sigurðsson

Ingólfur Sigurðsson var efnilegur fótboltamaður og fór mjög ungur út til Hollands til þess að reyna fyrir sér í atvinnumennsku. Fljótlega fór þó að að bera á líkamlegum einkennum en á daginn kom að vandinn var annars eðlis.  ,,Til þess að byrja á byrjuninni þá var ég frekar kvíðinn sem barn. Þannig það var flest sem benti til þess að þarna gæti orðið eitthvað í framtíðinni. Það er samt ekki fyrr en ég veikist fyrst af kvíðaröskun 14 ára gamall. Þá var ég nýfluttur til Hollands til þess að spila fótbolta með SC Heerenveen og var að spila þar sem atvinnumaður í fótbolta. Þá kannski hugsar lesandi þessa viðtals með sér, er það ekki of mikið á ungann mann lagt að fara út svona ungur? En það var alls ekki uppspretta kvíðans í þessu tilfelli, því ég hafði alist upp við þann draum að fara út og spila fótbolta sem atvinnumaður og fyrir mér var þetta fullkomlega eðlilegt” segir Ingólfur. Eftir nokkurra mánaða dvöl fór fyrst að bera á kvíðanum en Ingólfur tengdi þetta ekki við neitt andlegt.

,,En ég var búin að vera þarna úti í nokkra mánuði þegar að kviknar einhvers annars konar líf innra með mér og ég finn það mjög greinilega. Það fer að bera á rosalega miklum líkamlegum einkennum og í fyrstu þá halda ég og allir í kringum mig að þetta sé bara líkamlegt. Ég fer í margar læknisheimsóknir og ýmis konar rannsóknir og ekkert kemur út úr þeim annað en það ég sé bara við hestaheilsu. Það er ekki fyrr en eftir nokkra mánaða rannsóknir að því er varpað fram að þetta geti verið eitthvað andlegt sem væri að angra mig. Síðan er það í læknisheimsókn hérna heima sem ég er greindur með kvíðaröskun og þá fer ýmislegt í gang. Ég fer og hitti geðlækni á BUGL þar sem ég fer í meðferð hjá honum og fer þá líka til sálfræðings í hugræna atferlismeðferð. Það fer ákveðið ferli af stað til þess að ná stjórn á þessu og það verður svona stóra verkefni mitt til næstu 7 ára. Það ferli er mjög erfitt, sum lyf virka ekki á meðan að önnur gera það. Það eru hæðir og lægðir og maður telur sig vera kominn þokkalega langt og vera búinn að ná góðri stjórn á veikindunum en þá kemur bakslag og maður kannski sekkur dýpra en nokkru sinni fyrr. Þannig maður er í leit að þessu jafnvægi hugans. Þannig maður er kannski að eltast við einhverja óáþreifanlega hugmynd um það að vera heilbrigður. Þetta ótrúlega langa þreytandi bataferli er rosalega tímafrekt og krefst þess í raun að maður sinni þessu eins og 100 % vinnu og það er ekkert alltaf auðvelt” segir Ingólfur. Hann reyndi tvsivar sinnum í viðbót fyrir sér sem atvinnumaður í fótbolta.

,,Ég fór svo tvisvar aftur út til þess að reyna fyrir mér í atvinnumennskunni, 2010 og 2012. Gerði tvær tilraunir í viðbót og þær fóru báðar á sama hátt, það er að segja ég var orðin það veikur af kvíða að ég komst ómögulega framúr á morgnana. Auðvitað var samt dagamunur á þessu, suma daga náði ég að fara framúr og á æfingu og fúnkera ágætlega á meðan að aðra daga var ég bara heima veikur. Þegar ég fer út í bæði þessi skipti þá er ég búin að byggja mig upp og líður þokkalega og er í ágætis jafnvægi. En svona eru þessi veikindi, þau gera ekki boð á undan sér. Það er rosalega erfitt eins og þegar ég er atvinnumaður að taka afdrifaríkar ákvarðanir eins og til dæmis hvort ég ætti að fara heim og slíta samningi mínum við félagið. Maður er ekki í neinu standi til þess að taka svona miklar og stórar ákvarðanir. En þetta var öðruvísi í bæði þessi skipti, annars konar kvíði og annars konar tilfinningar sem komu upp. Mengi kvíðans er nefnilega svo stórt og maður telur sig vera útskrifaðan úr þessu en þá kemur upp einhver önnur tilfinning sem maður nær ekki utan um. Þegar ég fer út 2010 fer ég aftur til SC Heerenveen og þeir vildu endilega fá mig til baka. Þeir voru alveg meðvitaðir um mín veikindi. Á þessum tíma var ég að taka mjög vægar kvíðastillandi töflur en það var ekki fyrr en ég veikist jafn heiftarlega og áður að þá voru þeir alveg jafn ráðþrota og ég og mín fjölskylda. Þeir kannski vissu heldur ekki alveg hvernig þeir ættu að tækla þetta eða hvernig þeir gætu rétt fram hjálparhönd. Þá er líka mjög auðvelt með svona stórt atvinnumannafélag að leyfa sér að sjá á eftir mér og taka þá bara einhvern inn sem er ekki að glíma við eitthvað svipað. Þó að þeir hafi verið allir af vilja gerðir til þess að hjálpa mér að þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta business. Þeir eru bara að hugsa um að framleiða góða fótboltamenn og þó svo að það séu ekki nema bara sjö ár síðan þá hefur tíðarandinn breyst svo mikið og þetta var á þessum tíma ótrúlega tabú dæmi og maður talaði ekkert mikið um þetta”.

Kann betur að meta lífið

Ingólfur segist vera á ágætum stað í dag og að hann sé búinn að finna ágætis jafnvægi.

,,Mér líður ótrúlega ágætlega. Það sem gerist upp úr 21 til 22 ára aldurs er að mér líður eins og kvíðaröskunin hafi svona þroskast aðeins af mér eins undarlegt og það hljómar. Það er alveg þekkt dæmi að ef þú greinist ungur eins og ég þá eru ekki eins miklar líkur á því að þú sért að glíma við þetta út lífið ef heldur en til dæmis ef þú greinist um þrítugs aldurinn. En að sama skapi þá verð ég að hugsa roslega vel um mig og ég verð að huga öllum smáatriðum í lífinu, eins og svefn og mataræði. Ef ég er ekki að hugsa vel um mig þá brýst fram enn meiri vanlíðan og það styttir leiðina að kvíðanum. En það sem gerist eftir að kvíðinn rjátlast aðeins af mér er að ég lendi í talsverðu þunglyndi í kjölfarið. Það er eins og skyldmenni þessa kvíðaraskana. Það er rosalega lýgjandi að þurfa að glíma við eitthvað annað og nýtt eftir að hafa þurft að glíma við kvíðann. Kvíðinn er í grunninn sprottinn upp úr því að þú vilt lifa af en þunglyndið er annars eðlis. Það dregur úr manni þróttinn og maður verður kannski ekkert sérstaklega hrifinn af lífinu. Þannig að þrátt fyrir að vera svona náskylt þá er þetta mjög ólíkt. Þegar að þunglyndið gerði vart við sig þá hundsaði ég það bara. Ég vissi alveg að það var ekki allt með feldu en ég nennti ekki að standa í þessu. Ég var bara búinn að fá minn skammt og ég var leiður að þurfa að tækla þetta líka. En að lokum þegar að þunglyndið hafði alveg gjörsamlega dregið úr mér lífsviljann þá fyrst fór ég að gera eitthvað og það var eiginlega bara fyrir tilstuðlan fjölskyldunnar. Ég hafði hvorki rænu né mátt til þess að bera mig eftir björginni og leita mér hjálpar. Þetta er eitthvað sem ég hef ekkert mikið talað um fyrir utan einn fyrirlestur. Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið eftirköst kvíðans því þetta var búin að vera 7 ára vinna. Til allrar hamingju þá komst maður í gegnum þetta þunglyndi og þrátt fyrir að á þeim tíma var maður ekkert viss um að maður myndi komast í gegnum þetta. Maður kann að meta lífið betur eftir að hafa gengið í gegnum þetta og ber ótrúlega mikla virðingu fyrir sjúkdómnum og fólkinu sem glímir við hann eftir að hafa fengið að kynnast honum. Þunglyndið er ekkert auðvelt viðureignar. Ástæðan fyrir því að ég hef ekkert viljað tala mikið um það er að maður er alltaf hálf skömmustulegur. Enn þann dag í dag þá er einhver svona hugmynd innst inni að maður hafi bara verið algjör aumingi. Ég vona bara að maður hafi núna fengið minn skammt af þessu öllu saman” bætir Ingólfur við í lokin.