Félagskvíðinn okkar allra

Sóley Dröfn Davíðsdóttir, Sálfræðingur

Hefurðu einhvern tímann gert eitthvað neyðarlegt og farið alveg í kerfi? Orðið ótrúlega vandræðaleg/ur og óskað þess að jörðin myndi gleypa þig? Sjálf man ég eftir nýlegu atviki þar sem ég rak troðfullan IKEA-poka í andlitið á konu þegar ég var að smokra mér framhjá í smokkfullri neðanjarðarlest í París. Konan æpti af sársauka eða reiði og góndi bálvond á mig það sem eftir var ferðar þrátt fyrir að ég bæði hana margfalt afsökunar. Mér fannst ég hrikalega stór og klunnaleg innan um netta Frakkana og kveið því að komast aftur út úr lestinni. Þessi tilfinning sem ég fann fyrir nefnist félagskvíði og getur gosið upp þegar við gerum eitthvað vandræðalegt og óttumst viðbrögð annarra -eða bara af engu tilefni.

Flest viljum við að öðrum líki við okkur og hræðumst innst inni höfnun. Því er eðlilegt og kannski skynsamlegt að verða svolítið kvíðinn meðal fólks öðru hvoru, t.d. þegar við gerum eitthvað vandræðalegt, förum á stefnumót, í atvinnuviðtal eða höldum fyrirlestur í skóla. Mátulegur félagskvíði fær okkur til að vanda okkur í samskiptum, passa hvað við segjum og forðast að særa aðra. Hann er því góður upp að vissu marki og ekki gott ef við værum gjörsneydd öllum félagskvíða! Þá myndum við segja og gera hvað sem er og pottþétt koma okkur í vandræði. Því er ágætt að hafa smá félagskvíða en hann getur orðið mjög pirrandi þegar hann verður of mikill. Þá erum við með stöðugar áhyggjur af áliti annarra, t.d. að öðrum finnist við leiðinleg, asnaleg, vitlaus eða skrýtin og við stressumst upp. Í ofanálag förum við að hafa áhyggjur af því að aðrir taki eftir því hvað við erum stressuð. Okkur finnst svo auðvitað að það standi skrifað utan á okkur hvernig okkur líður sem er samt ekki raunin, ef þú pælir í því, getur þú séð hverjir eru kvíðnir í Kringlunni þar sem margir finna til kvíða? Líklega ekki.

Félagskvíði er eitt algengasta vandamál sem fólk glímir við. Um helmingur fólks er feimið sem líklega má telja til vægs félagskvíða. Hjá allt að 12% okkar er félagskvíðinn orðinn alltof mikill og farinn að valda vandræðum þannig að það kemur niður á ýmsu, t.d. námi, vinnu og félagslífi. Þá er talað um að félagsfælni sé á ferðinni. Félagsfælni getur haft skelfileg áhrif á líf fólks enda ekki þverfótað fyrir fólki sem við þurfum að eiga samskipti við til að komast í gegnum daginn! Margir verða þunglyndir af félagskvíðanum enda verður ótrúlega erfitt að njóta félagslífs, kynnast öðrum og nýta hæfileika sína til fulls. Svo getur félagskvíði einnig verið afmarkaður þannig að fólk á einungis erfitt með að halda ræður eða leika á tónleikum, sem þó getur verið verulega hamlandi og komið í veg fyrir að fólk nýti hæfileika sína.

Hvað er til ráða?

Góðu fréttirnar eru þær að það má alveg sigrast á félagskvíða og það tekur ekki svo langan tíma. Meira segja ætti þunglyndið að minnka ef það kom til vegna félagskvíðans. Sem sé tveir fyrir einn oft á tíðum. Það er mjög mikilvægt að gera eitthvað í málunum, en ef vandinn hefur til dæmis varað í einhver ár er ólíklegt að hann lagist að sjálfu sér. Félagskvíði er nefnilega vítahringur sem læra má inn á og rjúfa með markvissum hætti. Nýlega gaf ég út bókina “Náðu tökum á félagskvíða” með þeim tilgangi að allir geti haft aðgang að öflugri meðferð við félagskvíða. Um er að ræða ódýran kost til að fræðast um félagskvíða og hvað sé til ráða. Í bókinni henni má lesa sér til um hvernig félagskvíði virkar og hvað megi gera til að rjúfa vítahringinn. Einnig er fjallað um hvernig megi efla sjálfstraust, verða betri í samskiptum, eiga auðveldara með að eignast vini eða félaga og aðstoða félagskvíðin börn.

Vítahringur félagskvíðans

Í stuttu máli er vítahringur félagskvíðans sá að það sem fólk gerir til að fást við félagskvíðann á óvart þátt í að viðhalda vandanum. Ef þú ferð að forðast eitt og annað eins og að halda fyrirlestur í skólanum verður enn erfiða að takast á við þetta sama næst og þú æfist aldrei í því sem um ræðir. Sjálfri þótti mér mjög erfitt að halda fyrirlestra á menntaskólaárum og því ákvað ég á einhverjum tímapunkti að segja alltaf já ef ég var beðin um að halda erindi. Nú orðið hef ég bara gaman af því enda gert það óendanlega oft. Hins vegar getur félagskvíðinn stundum orðið það mikill að fólk þarf aðstoð fagmanns til að komast yfir mesta kvíðann þannig að fólk geti tekist á  hlutina.  Það nægir ekki alltaf að pína sig að gera hlutina enda hafa margir pínt sig svo árum skiptir án árangurs. Læri fólk hins vegar að breyta öllu því sem viðheldur vandanum er aðeins von á góðu. Ekki missa af því sem lífið hefur upp á að bjóða án hamlandi félagskvíða.

Nánari upplýsingar um félagskvíða má nálgast hér