Hvar byrja ég? Hvar er byrjunin? Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega en í tilfelli dóttur minnar má sennilega rekja þennan sjúkdóm eða sterk byrjunareinkenni hans til áfalls sem hún varð fyrir fyrir um þremur árum síðan þá 17 ára gömul. Hún tók „ranga“ ákvörðun á fallegu haustkvöldi í byrjun september með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Hver hefur ekki gert eitthvað óskynsamlegt, eitthvað sem stríðir gegn bestu vitund okkar og einkennist af dómgreindarleysi og hvatvísi?

Eftir þetta örlagaríka haustkvöld breyttist margt… Dóttir mín fór að sýna alvarleg einkenni sjálfshaturs og sjálfsásökunar. Nánst á einni nóttu breyttist þessi skynsama, duglega og sjálfsörugga stelpa í óörugga, þunga og dapra stúlku. Í fyrstu áttaði ég mig varla á alvarleika málsins þar sem mér fannst þessi „ranga“ ákvörðun hennar ekkert til að dvelja við og alls ekkert upphaf að heimsendi eins og ég komst að seinna að var einmitt hennar upplifun. Ég gerði mitt allra besta sem móðir, huggaði, hlúði að og reyndi að velja orð mín til hennar af mikilli skynsemi og móðurlegri umhyggju.

“Þetta er nú ekki svona mikið mál elskan”…”Þetta lagast allt”…”Það gera allir mistök”…”Þú ert ekki slæm manneskja þó þú hafir tekið eina slæma ákvörðun”…”Það eru ekki allir að dæma þig”…”Það eru ekki allir búnir að missa álit á þér”…”Það eru ekki allir að tala illa um þig”…”Það eru ekki allir vinir þínir eða fjölskyldan hætt að elska þig”

Setningar á borð við þessar urðu að daglegum orðum frá mér til hennar en ég er hrædd um að það hafi ekki dugað til. Þarna var sjúkdómurinn þunglyndi uppvakinn og ekki aftur snúið. Þessi vetur einkenndist ef mjög snúnum og átakamiklum samskiptum okkar mæðgna. Allt í einu gátum við varla talað saman án þess að rífast og misskilja hvor aðra í hverri setningu. Við sem höfðum alltaf getað talað saman um alla hluti og oftast komist að niðurstöðu sem við báðar vorum sáttar við í flestum málum. En það hvarf líkt og hendi væri veifað. Nú skildi ég hana alls ekki, skildi ekki að svona klár, yndisleg og vel gefin stelpa væri allt í einu orðin leið, döpur, óörugg og full af svekkelsi og hatri í eigin garð. Hún hafði allt til að bera… góður námsmaður, hæfileikarík, dugleg, skemmtileg, skynsöm og allt það. Hún sá það bara ekki lengur sjálf. Hún skildi mig alls ekki og allt sem ég sagði virtist fara inn og út í sömu andrá.

Sumir dagar voru betri en aðrir en sumir dagar voru miklu verri en aðrir. Ég er í eðli mínu kannski frekar ósérhlífin og er alin upp við það að mörgu leiti að maður harkar bara af sér. Ég er auðvitað líka af annarri kynslóð þar sem geðsjukdómar voru ekki endilega svo mikið í umræðunni og svolítið tabú ennþá þó ég telji mig vera mjög meðvitaða og fordómalausa. Ég stóð mig að því að segja dóttir minni að reyna að harka af sér og tala sjálfa sig til, tala sig fram úr úr rúminu, í skólann og út í samfélagið. Það gerði ég auðvita í góðri trú og ég reyndar trúi því enn að allir geti hjálpað sér sjálfir að einhverju marki. En málið var að ég sá ekki sjúkdóminn, ég sá bara dapra og sinnulausa dóttir sem hafði allt til brunns að bera til að virka vel í samfélaginu en var algjörlega týnd í sínum eigin hugarheimi. Þessi sjúkdómur er líka oft mjög ófyrirsjánalegur, dagamunur á sjúklingum getur verið mikill. Ég upplifði miklar „hæðir“ og miklar „lægðir“ hjá dóttur minni og vissi í rauninni aldrei í byrjun dags hvernig dagurinn yrði. Kannski góður dagur í dag? Kannski slæmur dagur í dag?

Að búa með þunglyndissjúklingi er oft erfitt og getur tekið verulega á þá sem það gera. Foreldrar, systkini, makar, sjúkdómurinn hefur áhrif á alla á heimilinu. Þunglyndi er nefnilega alls ekki einkamál þess sem það hrjáir. Á hverjum degi stóð ég sjálfa mig að því að hugsa hvað ég gerði rangt, hvað ég sagði rangt, hvar ég brást sem uppalandi. Ég tók snemma á unglingsárum dóttur minnar þá meðvituðu ákvörðun að ég skildi gefa henni visst frelsi til að þroskast og dafna. Ég skildi tala við hana á „mannamáli“ og gera mitt besta til að samband okkar gæti verið á einhverskonar jafnréttisgrundvelli. Þó gerði ég henni alltaf ljóst að ég væri fyrst og fremst móðir hennar með öllu sem því fylgir. Þessi aðferð hentaði okkur báðum mjög vel framan af og okkar á milli ríkti fullkomin virðing (auðvitað með ýmsum árekstrum og ósætti eins og eðlilegt er). Þegar bera fór á þunglyndi hennar dró ég verulega þessa ákvörðun mína í efa þar sem mér fannst dóttir mín nú enga virðingu fyrir mér eða tilfinningum mínum bera og ég kenndi mínu „lauslæti“ í uppeldi um. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en seinna meir að það var SJÚKDÓMURINN sem hafði tekið yfir hjá elsku góðu stelpunni minni með sínum leiðinda tilsvörum, virðingarleysi, sinnuleysi , depurð og almennum leiðindum í minn garð og annara á heimilinu. Þetta var svakalega erfitt tímabil og á ýmsu gekk. Sjálfsásökun mín náði hæstu hæðum og mér fannst ég hafa brugðist fullkomlega. Meðvirknin náði algjörlega yfirhöndinni og allt var ómögulegt, hjá mér… af því að allt var ómögulegt hjá henni!

Í rifrildis og grátköstum kastaði ég því oft fram að sennilega þyrfti hún að horfast í augu við það að „það væri ekki allt í lagi hjá henni“ þetta væri ekki eðlileg líðan og hegðun. Ég benti henni ítrekað á að kannski þyrfti hún á faglegri hjálp að halda, það væru margir að glíma við allskonar geðraskanir og þungyndi. Það væri ekkert til að skammast sín fyrir og fólk væri með geðsjúkdóma alveg eins og magasjúkdóma eða gigt.

Svar hennar : “Já já, en ég er ekkert bættari með það þó að fullt af fólki líði illa eins og mér… ég veit ekkert hvernig öðrum líður og enginn skilur hvernig mér líður, enginn annar er ég og enginn annar er með mínar tilfinningar“

Svar mitt: “Jú vissulega rétt kæra dóttir og þess vegna eru fagaðilar kannski eina leiðin, lyfjagjöf, geðlæknar, sálfræðingar… ég GET að minnsta kosti EKKI meir, veit ekki hvernig ég á að hjálpa!” Eftir á að hyggja hefði ég klárlega átt að ganga harðar að henni að leita sér fagegrar hjálpar en þarna var hún orðið 18 ára, sjálfráða og hendur mínar bundnar að einhverju leiti. Hún tók ekkert illa í þessi ráð mín, en svo gerðist bara aldrei neitt meir. Það komu eftir mjög slæm köst gjarnan nokkuð góðir dagar og tímabil þar sem allt virtist vera í lagi og þá hugsaði ég í barnaskap mínum að nú væri þetta örugglega að fara að lagast. En þungyndissjúklingar eru bara oft ótrúlega góðir í að blekkja, bæði sjálfa sig og sína nánustu. Það gera þeir oft til að hlífa okkur við áhyggjum og ráðaleysi. Þó mæður þykist þekkja ungana sína svo vel þá er raunin oft önnur!

Þegar dóttir mín viðurkenndi svo fyrir mér í einu erfiðasta þunglyndiskastinu að sjálfsvígshugsanir væru farnar að leita á hana var mér allri lokið og hjarta mitt nánast brast. Í fjölskyldu minni þekkjum við því miður þann harmleik af eigin raun þegar ung manneskja sér enga aðra leið færa en að enda sitt jarðneska líf. Þá sorg sem fylgir slíku dauðsfalli getur enginn skilið nema af eigin raun. Ég hafði oft talað um þennan harmleik við dóttur mína og sagt henni hversu erfitt það var fyrir okkur aðstandendur að sitja eftir með brostið hjarta og öll þessi ef… Elsku dóttir mín sagði mér að það sem hafi stoppað hana á þessum ömurlegustu stundum hennar var einmitt það að hún vissi hversu erfið þessi reynsla var mér og minni fjölskyldu og hún gæti ekki lagt slíkt á okkur. Almáttugur minn hvað það var erfitt að heyra þetta en ég er henni þó virkilega þakklát í dag að hafa trúað mér fyrir þessum hugsunum. Ég þakka guði fyrir það á hverjum degi að dóttir mín leitaði aldrei í verstu veikindunum í eiturlyfjaneyslu, því eins og allir vita þá minnkar skynsemin og veruleikafirringin eykst við neyslu eiturlyfja og oft einmitt með þeim hörmulegu afleiðingum að ekkert nema dauðinn er rétta svarið. Ég veit það vel að það þarf ekki eiturlyfjaneyslu til að einstaklingur sjái enga leið úr þunglyndinu nema dauðann en vissulega eykur hún líkurnar á fullkominni uppgjöf.

Nú var botninum náð og dóttir mín loksins tilbúin að horfast í augu við það að hún væri með sjúkdóminn þunglyndi.

Við það að horfast í augu við sannleikann og vilja takast á við hann var hálfur sigurinn unninn fyrir hana og ekki síður okkur hin sem stöndum henni næst. Og eftirleikurinn var tiltölulega „auðveldur“ ef þannig má að orði komast. Nú var hún loksins tilbúin til að leita sér lækninga við sjúkdómi sínum. Hún valdi samtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Sú leið hefur reynst henni mjög vel og hún er á góðri leið að læra að lifa með sjúkdómnum .

Í dag er ég móðirin að læra að hætta að ásaka mig um einhverskonar vanrækslu nú eða ofræktun í uppeldi. Er að reyna að hætta að kenna mér um sjúkdóm hennar… mundi ég kenna mér um það ef hún væri með brjósklos í baki, gigt nú eða krónískt mígreni? Nei, ég held ekki.

Við ykkur foreldra vil ég segja: Verið vakandi yfir geðheilsu barnanna ykkar! Ekki halda að geðheilsa barnanna sem ekki er í lagi lagist af sjálfu sér. Grípið til aðgerða strax! Leitið til fagaðila og fáið hjálp.

Þennan pistil skrifaði Kristín Hrönn móðir Silju Bjarkar árið 2013 og reynir hún með þessu að koma hugrenningum sínum sem móðir þunglyndissjúklings á blað.